Fréttir
28. apríl 2020

Til hamingju Carbfix

Við erum stolt af systurfélagi okkar Carbfix, nú sem áður, en Carbfix kolefnisförgunaraðferðin hefur verið tilnefnd til alþjóðlegu Keeling Curve verðlaunanna.

Mikilvægur þáttur í framleiðslu ON

Carbfix hefur verið í vinnslu í rúm tólf ár hjá hópi vísindamanna undir forystu Orkuveitu Reykjavíkur. Það byrjaði sem rannsóknar- og þróunarverkefni árið 2006 en kolefnisförgun komst í fullan rekstur við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar árið 2014. Á hverjum degi bindum við 33 tonn af CO2 sem berst með jarðhitanum eða liðlega 12 þúsund tonn á ári. Carbfix er mikilvægur þáttur í markmiði ON um að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2030.

Leiðarljós okkar í loftslagsmálum er sporlaus vinnsla rafmagns. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru á allra vörum en það getur virst óyfirstíganlegt að finna lausnir á vandanum sem blasir við. Það er því hvetjandi að hugsa til þess að ein af lausnunum er rétt við bæjardyrnar, þróuð af íslensku vísindafólki.