Fréttir
5. nóvember 2018

Sveinn og rafvirkjameistari báðar konur

Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir fékk sveinsbréf í rafvirkjun nú á dögunum en meistarinn hennar var Kristín Birna Fossdal. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti hér á landi og trúlega víðar að hvorttveggja nemi og meistari í rafvirkjanámi eru konur. Báðar starfa þær hjá Orku náttúrunnar í Hellisheiðarvirkjun.

Í viðtali við Anítu í Morgunblaðinu kemur fram að upphaf áhuga hennar á faginu megi rekja til þess þegar skjárinn á farsímanum hennar brotnaði og síðar hátalarinn í sama tæki. Hún tók sér fyrir hendur að gera við símann sjálf. Þegar hana rak í vörðurnar og leitaði á verkstæði var henni boðin vinna þar.

Prófaði allskonar

Hún hafði ekki fundið sig í hefðbundnu bóknámi en sótti kvöldskóla með vinnu og færði sig síðan yfir í fullt nám í dagskóla. Þar Aníta kynningu á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og áhugi kviknaði á stærri búnaði en farsímum og spjaldtölvum. Fyrir einu og hálfu ári hóf hún störf hjá Orku náttúrunnar og var þá þegar ákveðið að Kristín Birna yrði hennar meistari. Rétt eins og önnur fyrirtæki innan OR-samstæðunnar, býður ON upp á starfsnám í iðngreinum og er tiltekinn fjöldi námsplássa frátekinn fyrir konur og karla.

„Og ég fékk líka að prófa svo mikið meðan ég var á námssamningi hjá ON. Þá vann ég í götuljósum, húsarafmagni, virkjunum, veitum, ljósleiðara og bara öllu. Það er mikilvægt að prófa sem flest,“ segir Aníta í viðtalinu við Morgunblaðið og hikar ekki við að mæla með faginu.

Konum í rafiðngreinum fjölgað hratt

Kristín Birna lauk sveinsprófi í rafvirkjun árið 2001 og var þá níunda konan til ljúka því. Margar hafa bæst við síðan og eru þær nú um 50 talsins í rafiðngreinum. Kristín fékk meistararéttindi árið 2010. Kristín segir um Anítu í viðtalinu: „Hún á eftir að spjara sig. Hún er dugleg og vill læra. Núna er hún orðin fullnuma rafvirki og ég er bara nokkuð stolt af henni.“ Ekki er rafvirkinn síður ánægð með meistarann: „Hún er bráðgáfuð, ótrúlega fyndin, algjör snillingur og í dag mín helsta fyrirmynd í þessum geira,“ hefur Morgunblaðið eftir Anítu Sigurbjörgu Emilsdóttur, rafvirkja hjá Orku náttúrunnar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.