Fréttir
26. ágúst 2021

ON fær flýtimeðferð götuhleðslumáls

Orka náttúrunnar hefur skotið niðurstöðu kærunefndar útboðsmála til dómstóla til að freista þess að fá niðurstöðu kærunefndarinnar fellda úr gildi og  opna á ný 156 götuhleðslur fyrirtækisins fyrir rafbíla sem voru í notkun víðsvegar um Reykjavík. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á beiðni um flýtimeðferð málsins sem þingfest verður næsta mánudag.

Farið fram á frestun réttaráhrifa

ON hefur líka sent erindi til kærunefndarinnar þar sem þess er farið á leit að réttaráhrifum niðurstöðu hennar verði frestað í því skyni að ON geti veitt þjónustuna þangað til niðurstaða dómstólsins liggur fyrir. Nefndin áleit að útboð Reykjavíkurborgar á uppsetningu og rekstri hleðslustöðva við bílastæði í eigu borgarinnar, sem einkum þjóna þeim sem ekki hafa aðstöðu til að hlaða heima fyrir eða við vinnustað, hefði átt að fara fram á evrópska efnahagssvæðinu en ekki bara á Íslandi.

Allra leiða leitað til að opna stöðvarnar

Eftir að niðurstaða kærunefndarinnar lá fyrir reyndi ON að halda stöðvunum opnum með því að gefa úr þeim rafmagnið í stað þess að selja það. Það taldi Reykjavíkurborg ekki heimilt eins og staðan var. Nú hefur Orka náttúrunnar sent erindi til borgarlögmanns. Þar er Reykjavíkurborg innt eftir því hvort flýtimeðferð dómsmálsins og sú yfirlýsing forráðamanns kærandans í málinu við Fréttablaðið að það sé „alveg Ísorku að meinalausu hvort stöðvarnar fái að þjóna rafbílaeigendum áfram,“ gefi tilefni til að endurmeta stöðuna.

Viljum opna stöðvarnar sem allra fyrst

„Sú staða sem upp kom eftir niðurstöðu kærunefndarinnar var í senn flókin og kolómöguleg,“ segir Kristján Már Atlason, forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON. „Það var enginn sigurvegari en öll töpuðu, ekki síst rafbíleigendur og loftslagið. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þessari þjónustu í gagnið á ný, enda sýndi sig að margir rafbílaeigendur, sem ekki eiga kost á að hlaða heima, treystu á þessa lausn þegar þeir keyptu sér rafmagnsbíl. Við hjá Orku náttúrunnar erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast út úr þessari ómögulegu stöðu sem nú er, enda eru orkuskipti í samgöngum fljótlegasta og mikilvægasta framlag okkar til loftslagsmála,“ segir Kristján Már.

Flýtimeðferð fyrir héraðsdómi

Lögmaður Orku náttúrunnar sendi Héraðsdómi Reykjavíkur stefnu vegna málsins á mánudag og óskaði flýtimeðferðar. Fallist hefur verið á þá beiðni og verður málið þingfest mánudaginn 30. ágúst næstkomandi. Ekki er hægt að stefna kærunefndinni og því er form dómsmálsins það að kæranda útboðsins, Ísorku og Reykjavíkurborg er stefnt. ON fer hvorki fram á bætur né málskostnað í dómsmálinu, einungis að niðurstaða kærunefndar útboðsmála verði felld úr gildi, svo rafbílaeigendur geti byrjað aftur að hlaða bíla sína víðsvegar um borgina.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.