Fréttir
17. febrúar 2020

Hugsum í hring

Berglind Rán, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, var gestapenni fréttabréfs Festu í febrúar. Festa er miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja.

Loftslagsváin og ábyrgð fyrirtækja

Hamfarahlýnun er óhugguleg þróun sem þarf að snúa við eins fljótt og hægt er. Það er auðvelt að fyllast kvíða gagnvart því risastóra verkefni. Útlitið er ekki alltof bjart. Sem betur fer er þó tíminn ekki á þrotum sem við höfum til að bregðast við og ýmislegt er að gerast sem er til þess fallið að vekja bjartsýni.

Hvernig fyrirtæki haga rekstri sínum skiptir lykilmáli í viðureigninni við loftslagsvána. Stundum er talað um að það sé erfitt að fá viðskiptalífið til þess að hugsa langt fram í tímann og það er líklega margt til í því. Nú er hins vegar svo komið að aðgerðir í loftslagsmálum snúast ekki bara um langtímahugsun. Vandinn er núna. Áhrif loftslagsbreytinga eru allt í kringum okkur og þau koma öllum við. Sá fyrirtækjaeigandi sem ætlar í rekstri sínum að leggja höfuðáherslu á skammtímagróða á kostnað aðkallandi loftslagsaðgerða mun fljótt finna að þar með sagar hann trjágreinina undan sjálfum sér. Aukin vitund almennings um loftslagsmál og krafa um aðgerðir gerir það að verkum að sífellt erfiðara verður að hunsa vandann og láta eins og ekkert sé.

Þrjú mikilvæg atriði

Í dag blasir við að þau fyrirtæki sem taka ekki ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á umhverfi sitt munu verða undir í samkeppni. Umhverfisleg og samfélagsleg ábyrgð fer þannig saman við fjárhagslega velgengni. Allir þessir þættir þurfa að vera til staðar í excelskjalinu. Það er mjög jákvætt að sífellt fleiri skuli átta sig á þessu. Á þeim grunni er hægt að stíga næstu skref. Þrjú atriði skipta mestu máli í mínum huga þegar kemur að því að gera íslenskt samfélag kolefnishlutlaust og um leið að mikilvægri fyrirmynd annarra þjóða:

  1. Hætta þarf notkun jarðefnaeldneytis. Á Íslandi snúast orkuskiptin einkum um það að hætta að nota olíu og bensín í samgöngum og haftengdri starfsemi
  2. Efla þarf græna nýsköpun. Fyrirtæki þurfa að vera dugleg við að tileinka sér nýjar umhverfisvænar leiðir til þess að gera það sem þau eru að gera í dag, eða finna annað að gera, sem mengar ekki.
  3. Róttæk hugarfarsbreyting þarf að verða. Það er ekki í boði lengur að hugsa rekstur fyrirtækis línulega, þar sem vöxtur til framtíðar er aðalatriði og fortíðin skiptir litlu, heldur verður að hugsa í hring. Slæm umhverfisáhrif bíta þig í skottið. Þannig virkar hringrásarhagkerfið, sem er sú nálgun sem verður að taka við.

Notum minna og nýtum betur

Ég er mjög stolt af þeirri vinnu sem farið hefur fram innan Orku náttúrunnar í loftslagsmálum. Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að verða kolefnishlutlaust árið 2030. Skref hafa verið tekin í þá átt með því að steingera þriðjung koltvísýringslosunar frá Hellisheiðarvirkjun með CarbFix aðferðinni. Næstu skref eru á teikniborðinu og fela í sér frekari innleiðingu á CarbFix í reksturinn sem og hagnýtingu koltvísýringsins í Jarðhitagarði ON. Við þurfum, ætlum og erum að hugsa sífellt meira í hring. Í Jarðhitagarðinum á Hellisheiði í Ölfusi eru viðskiptavinir fyrirtækisins með starfsemi sem byggir á því að fullnýta afurðir virkjunarinnar.  Við þurfum að nota minna og nýta betur og þetta er ein af þeim leiðum sem ON hefur valið til þess. Við erum ákveðin í því hjá Orku náttúrunnar að gera það sem við getum til að stuðla að umhverfisvænu atvinnulífi.

Tímarnir eru háskalegir en það er þó mikið tilefni til bjartsýni. Hugarfarsbreytingar eru að verða og tækninni fleygir fram. Ástæður fyrir fyrirtæki til að sýna ekki ábyrgð í loftslagsmálum verða brátt engar. Það er mjög góð þróun. Nú er kominn tími til þess að fyrirtæki landsins, öll sem eitt, taki ákvarðanir um að stíga stór skref í rétta átt og fylgi þeim ákvörðunum eftir með aðgerðum. Það er ekki í boði að breytast ekki.