Um sýninguna
Sýningin Jarðhitamenning hefur það að markmiði að sýna okkur hvernig jarðhiti og nýting hans fléttast inn í menningu okkar. Stóran hluta lífsgæða á Íslandi má svo sannarlega rekja til náttúruauðlinda landsins og hvernig okkur hefur tekist að nýta þær.
Við Íslendingar erum stoltir af menningu og arfleifð okkar. Hér starfar elsta þing í heimi, við eigum okkur mikla og vel skrásetta sögu, ódauðlegan skáldskap, einstakt tungumál, lifandi lista- og menningarheim ásamt heimsfrægu landslagi og náttúru.
Ef til vill er einn lykilhluti menningar okkar oft hulinn sjónum: Jarðhitamenningin. Mörg vita að jarðhiti færir okkur bæði hita og rafmagn. Ekki jafn mörg eru meðvituð um hversu ómissandi þessi auðlind er fyrir daglegt líf hér á landi og hversu stóran hlut hún á í sögu íslenskrar menningar.
Fyrir 100 árum voru Íslendingar rétt að byrja að nota jarðhitann á skilvirkan hátt á stærri skala. Í dag er auðvelt að taka ódýru rafmagni og ódýrri húshitun sem sjálfsögðum hlut. Einnig gleymum við að aðgangur að heitum útisundlaugum, fersku innlendu grænmeti og ávöxtum, og að því er virðist óendanlegu magn af heitu vatni á heimilum er ekki hægt að ganga að sem vísu.
Um 30% af rafmagni og 90% húshitunar koma frá jarðhitasvæðum. Mörg okkar rekast einnig á jarðhita á margskonar annan hátt á hverjum degi. Næst þegar þú hittir vini þína í sundi, kaupir íslensk blóm eða grænmeti sem vaxa í gróðurhúsum eða setur í þvottavél ertu í raun að komast í snertingu við jarðhita.