Fréttir
12. janúar 2021

Vilt þú vera hluti af lausninni?

Við leitum að leiðtoga sem býr yfir frumkvæði, umhyggju og umbótavilja og hefur áhuga á að móta framtíðina með okkur. Viðkomandi mun tilheyra framkvæmdastjórn fyrirtækisins og bera ábyrgð á rekstri virkjana Orku náttúrunnar.

Forstöðumanneskja virkjana

Stjórnandi virkjana leiðir hóp framúrskarandi fagfólks sem hefur brennandi áhuga á nýsköpun, umhverfismálum og ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda. Starfið er tækifæri fyrir þau sem hafa metnað fyrir öruggri og hagkvæmri orkuvinnslu hjá framsæknu fyrirtæki.

Starfs- og ábyrgðarsvið:

 • Leiða og styðja hóp framúrskarandi fagfólks. Hjá virkjunum ON starfa tæplega 50 manns
 • Ábyrgð á daglegum rekstri, framþróun og viðhaldi virkjana
 • Tryggja framleiðsluöryggi virkjana með öryggi, umhverfi og hagkvæmni í forgrunni
 • Samskipti við hagsmunaaðila
 • Þátttaka í mótun stefnu og framtíðarsýnar Orku náttúrunnar

Færni og eiginleikar:

 • Leiðtoga- og stjórnunarhæfileikar
 • Samstarfs- og samskiptahæfileikar, metnaður og heilindi
 • Reynsla af stjórnun og rekstri
 • Hæfni í að styðja starfsfólk til ábyrgðar og skapa vinnustað þar sem hæfileikar og hugmyndir eru nýttar til fulls
 • Færni í að móta og innleiða framtíðarsýn
 • Geta og vilji til að vinna markvisst að öryggis-, jafnréttis- og umhverfismálum
 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi

Umsóknarfrestur er til og með 25. janúar 2021. Við hvetjum öll kyn til að sækja um.

Nánari upplýsingar veitir Ásdís Eir Símonardóttir, mannauðsráðgjafi: starf@on.is

Hvers vegna Orka náttúrunnar?

Orka náttúrunnar á og rekur þrjár virkjanir sem okkur þykir mjög vænt um. Þær eru jarðgufuvirkjanirnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjunin í Andakíl, Borgarfirði. Við framleiðum og seljum rafmagn til allra landsmanna, auk þess að framleiða heitt vatn.

Við höfum sett okkur það metnaðarfulla loftslagsmarkmið að verða kolefnishluthlaus fyrir árið 2030 og er leiðarljós okkar sporlétt vinnsla rafmagns. Stjórnandi virkjana er lykilaðili í þessum markmiðum.

Hjá okkur ríkir jákvæður starfsandi sem einkennist af sterkri liðsheild, uppbyggilegum skoðanaskiptum og virðingu í samskiptum. Við bjóðum upp á fyrsta flokks aðbúnað og fjölskylduvænan vinnutíma.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.