Fréttir
25. júní 2021

Slökkt á götuhleðslum Orku náttúrunnar vegna kvörtunar Ísorku

Orka náttúrunnar sér sig knúið til þess að taka strauminn af þeim 156 götuhleðslum sem fyrirtækið hefur sett upp víðsvegar í Reykjavík. Verður það gert mánudaginn 28.júní og er gert í kjölfar þess að Ísorka kvartaði yfir því að hleðslurnar væru opnar hverjum sem er gjaldfrjálst. Óvíst er hvenær hægt verður að hleypa straumi á þær að nýju. Viðskiptavinum ON er bent á að hraðhleðslur okkar verða enn opnar sem og götuhleðslur í Garðabæ.

Reykjavíkurborg bauð út uppsetningu og rekstur götuhleðsla og tók tilboði frá ON sem bauð lægst í verkefnið. Úrskurðarnefnd útboðsmála komst síðan að þeirri niðurstöðu eftir kæru Ísorku að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða verkið út á evrópska efnahagssvæðinu. Ekki var tekið undir önnur sjónarmið Ísorku sem þó voru fjölmörg.

Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar er ON hvorki heimilt að taka gjald fyrir afnot af götuhleðslunum né að sérmerkja bílastæðin sem þær standa við. Í stað þess að slökkva á hleðslunum og þannig gera rafbílaeigendum sem treysta á umræddar hleðslur erfitt fyrir ákvað ON að hætta að rukka og taka niður merkingar við stæðin. Hleðslur yrðu þá aðgengilegar öllum á meðan næstu skref væru metin. Þannig hlítti ON niðurstöðunni en styddi áfram það mikilvæga verkefni sem orkuskiptin í samgöngum er.

Ísorka hefur nú aftur sent kvörtun til kærunefndarinnar, nú vegna þess hvernig ON hefur brugðist við þeirri niðurstöðu hennar að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða út á evrópska efnahagssvæðinu.

Í bréfi sem barst ON frá Reykjavíkurborg í morgun segir að vegna athugasemda Ísorku telji borgin nauðsynlegt að ON rjúfi straum til umræddra hleðslustöðva.

Þá segir einnig að Reykjavíkurborg hafi farið þess á leit við kærunefnd útboðsmála að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað.

„ Á meðan kærunefnd tekur afstöðu til þeirrar beiðni er ráðlegt að ekki sé aðgengi að raforku á umræddum hleðslustöðvum.“

Ömurleg staða fyrir rafbílaeigendur

Straumur verður því rofinn af öllum götuhleðslum ON í Reykjavík frá og með mánudeginum 28.júní n.k.

Af gefnu tilefni vill ON taka fram að fyrirtækið hefur ekki markaðsráðandi stöðu og telur sig því ekki skylt að rukka fyrir götuhleðslurnar. Einnig má benda á að bæði Ísorka og Orkusalan eru með hleðslustaura víða um borg þar sem rafmagn er gefið.

„Þetta er auðvitað ömurleg staða bæði fyrir okkur sem byggt höfum upp þessar götuhleðslur og efnt allar okkar skuldbindingar en ekki síður fyrir rafbílaeigendur. Þetta er fyrst og fremst að koma niður á þeim fjölmörgu rafbílaeigendum sem geta ekki haft eigin bílastæði við heimili sín til að setja upp heimahleðslur eða hafa einfaldlega ekki efni á því. Það er einlæg ósk mín að aðilar deilu Reykjavíkurborgar og Ísorku komi málum svo skjótt sem unnt er í farveg sem tryggir að deilan tefji ekki það mikilvæga verkefni sem orkuskiptin í samgöngum er,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra ON.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.