Fréttir
26. maí 2021

Ný hola á Nesjavöllum lofar góðu

Talsverð eftirvænting var hjá viðstöddum við prófun nýrrar vinnsluholu við Nesjavallavirkjun í byrjun vikunnar. Ástæðan er að botn holunnar, sem er tæplega 2,4 kílómetra djúp, er í grennd við botn holu sem er einhver sú heitasta sem boruð hefur verið hér á landi. Nýja holan, kölluð NJ-32, lofar góðu en prófanir munu standa í nokkrar vikur.

Holan var boruð austan til Nesjavallasvæðinu í fyrrasumar. Hún er stefnuboruð og botn hennar er undir dalverpinu vestanverðu. Þar er einnig botn borholu sem kölluð er NJ-11. Sú hola er söguleg því í henni mældist botnhitinn 380°C, en mælirinn sem þá var notaður gat ekki mælt hærra. Þetta var árið 1984 og þá sáu menn ekki fram á að sá búnaður sem menn höfðu til að hemja gufuna úr holunni stæðist hitann og þrýstinginn í henni. Því var því steypt fyrir neðstu og heitustu straumana í holunni en hún hefur engu að síður verið ein traustasta vinnsluhola virkjunnarinnar.

Hitinn í botni nýju holunnar mældist hæstur 360°C. Það var skömmu eftir að lokið var við borun hennar. Nokkur óvissa er um eiginleika jarðhitavökvans sem kemur úr svo heitum holum. Hann getur verið efnaríkari en almennt gerist og meiri hætta á að búnaður sem notaður er við orkuvinnsluna tærist.

Fyrstu mælingar á nýju holunni eru lofandi, sýrustig eðlilegt og hlutfall gufu af því sem upp úr henni kemur í hærra lagi. Það er gott.

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.