Fréttir
29. september 2020

Borgarstjóri ýtti á takkann

„Þetta var mikill viðburður sem ég man vel eftir. Davíð ýtti á takka í gestamóttökunni og ég fékk þá skilaboð í talstöðina inn í stjórnstöð um að setja allt af stað,“ segir Jóhann Kristjónsson fyrrum stöðvarstjóri Nesjavallavirkjunnar.

Þriðjudaginn 29. september 2020 eru 30 ár frá því að virkjunin var formlega vígð. Jóhann sem hóf störf sem verkstjóri árið 1985 þegar verið var að bora á svæðinu segir að aðstæður hafi verið nokkuð frumstæðar þessu fyrstu ár. „Við vorum þarna þrír til fjórir og svo einn í eldhúsinu auk þess sem það var svolítið af verktökum að vinna með okkur. Við vorum að bora og höfðum þarna tilraunastöð sem framleiddi rafmagn fyrir svæðið þannig að við vorum ekkert tengdir við kerfið hjá Landsvirkjun. Vorum bara með litla túrbínu og svo dísilvél þegar túrbínan var í upptekt.“

Jóhann segir að á sumrin hafi verið mikið líf og fjör en veturnir hafi oft á tíðum verið ansi erfiðir. „Það var náttúrulega enginn Nesjavallavegur og Grafningsvegurinn efri var meira og minna niður grafinn og ekkert færi. Þá tók alveg klukkutíma og korter að fara til Reykjavíkur.“

Mikil vinna og lítið kaup

Jóhann segir að á þessum tíma hafi menn verið á vöktum viku í senn og þá var unnið frá átta á morgnanna til hálf tíu á kvöldin í mörg ár.

„Þetta var svakalega mikil vinna og kaupið var ekkert sérstaklega hátt. Það var samt hægt að vinna það upp með allri þessari yfirvinnu,“ segir Jóhann og hlær.

Hann segist hafa verið vaktmaður í virkjuninni fyrstu tvö árin og tekið svo við sem stöðvarstjóri árið 1992. Því starfi hafi hann gegnt til ársins 2007 þegar hann flutt starfstöð sína að Bæjarhálsi og var hjá Orkuveitunni þar til í ágúst á síðasta ári þegar hann hætti störfum. Hann segist eiga margar góðar minningar frá árum sínum í virkjuninni. „Það voru náttúrulega mikil forréttindi að fá að vera þarna enda afskaplega fallegur staður.“

Jóhann segist ekki hafa farið mikið austur undanfarið en er ánægður með þá vinnu sem er í gangi í virkjuninni nú og nefnir sérstaklega Carbfix í því sambandi. „Það er alveg stórkostlegt að nú sé farið að farga gasinu. Þetta var mikið vandamál man ég –  gasmengunin.“

Forsetinn og borgarstjórinn

Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd var viðhöfn við vígslu virkjunarinnar. Frú Vigdís Finnbogadóttir var mætt ásamt Davíð Oddssyni þáverandi borgarstjóra og Ástríði Thoroddsen borgarstjórafrú.

Aðspurður hvort þetta hafi verið á síðustu stundu eins og oft vill verða þegar hlutir eru teknir í notkun segir Jóhann að svo hafi ekki verið.

„Við vorum búnir að dæla þessu svona óformlega einhverjar vikur á undan og það gekk nokkuð vel. En síðan áttu auðvitað eftir að koma upp vandamál því þessu var bara dælt beint í bæinn. Þá blandaðist þetta við vatnið sem var fyrir og þá komu það sem kallað var magnesíum útfellingar. Í kjölfarið þurfti að tvískipta kerfunum og það er þannig enn í dag.“