Fréttir
19. febrúar 2019

Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri ON

Stjórn Orku náttúrunnar (ON) hefur ráðið Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Berglind hefur gengt starfinu tímabundið frá því í september síðastliðnum en það var auglýst laust til umsóknar í byrjun þessa árs.

Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún var ráðin til Orku náttúrunnar á árinu 2017 sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaða og hafði þá meira en tíu ára reynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON:

„Orka náttúrunnar byggir á traustum grunni og býr að metnaðarfullu og hæfu starfsfólki. Það er því tilhlökkunarefni að taka á móti framtíðinni með Orku náttúrunnar.

Það eru forréttindi að búa í landi sem býður upp á auðlindir til endurnýjanlegrar rafmagnsframleiðslu. Þeim fylgir sú ábyrgð að nýta auðlindirnar sem best til hagsbóta fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Loftslagsmál eru lykilmál allra samfélaga og hefur vísindafólk ON þróað aðferðir til þess að binda gróðurhúsalofttegundir í grjót sem styður við metnaðarfull loftslagsmarkmið fyrirtækisins. Fyrirtæki í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun nýta einnig þessa brautryðjendatækni í sínum nýsköpunarverkefnum.

Hluti af því að bregðast við loftslagsvandanum er að leggja áherslu á betri nýtingu auðlindanna. Jarðhitagarðurinn er einmitt vettvangur fyrir umhverfisvæna starfsemi sprotafyrirtækja sem leggja áherslu á nýsköpun, betri nýtingu og hringrásarhagkerfi.

Orka náttúrunnar finnur til ábyrgðar á því að vel gangi í orkuskiptum í samgöngum og hefur sýnt það í verki með því að leiða uppbyggingu rafbílainnviða um allt land. Við höfum leitt orkuskipti í samgöngum og munum halda áfram á þeirri braut.“

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.