Fréttir
19. nóvember 2019

Aukinn kraftur í orkuskiptin

Á næstu misserum stefnir í að Orka náttúrunnar setji upp um 40 hleðslur fyrir rafbíla víðsvegar um land, þar af sautján 150kW hraðhleðslur. Þetta varð ljóst eftir að niðurstaða Orkusjóðs um styrkveitingar til uppbyggingar umhverfisvænna innviða lá fyrir.

Orka náttúrunnar hefur verið í forystu uppbyggingar fyrir orkuskipti í samgöngum allt frá 2014. Á dögunum var tilkynnt að fyrirtækið fengi styrki til uppsetningar á hraðhleðslubúnaði fyrir rafbíla og svo sérstaklega til að efla græna ferðaþjónustu í samstarfi við Íslandshótel og Icelandair Hotels.

Við gerum þetta ekki ein þó við séum öflug

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, segir starfsfólk ON munu láta hendur standa fram úr ermum nú eins og endranær. „Það er sérstakt ánægjuefni að hugmyndir okkar um að setja upp öflugri og hraðvirkari búnað hlutu hljómgrunn og við hyggjumst setja upp sautján 150kW hraðhleðslur á mikilvægum stöðum fyrir rafbílaeigendur“. Hún bætir við að styrkjunum fylgi ábyrgð. „Ég tel að við höfum staðið undir henni því Orka náttúrunnar hefur verið í forystu uppbyggingar hleðslulausna fyrir rafbílaeigendur um allt land frá árinu 2014 og er ósk okkar að halda okkar góða samtali við rafbílaeigendur áfram – þannig getum við þróað og bætt þjónustuna okkar. Það gleður okkur líka að fleiri fyrirtæki eru að koma að þessari nauðsynlegu uppbyggingu. Við gerum þetta ekki ein þó við séum öflug,“ segir Berglind.

„Verkefnið snýst auðvitað ekki bara um að spýta í lófana og setja upp hleðslur sem víðast um landið. Það er vissulega áríðandi en það eru fleiri lóð sem við getum lagt á vogarskálarnar og það er ánægjulegt að sjá að sífellt fleiri ferðast milli staða með umhverfisvænni hætti en áður.“

Berglind bendir á að Íslendingar eiga ennþá talsvert í land með að ná settum loftslagsmarkmiðum og þar vega tækifærin í samgöngum þungt.

Grænni samgöngur – grænni ferðaþjónusta

Eins og Orka náttúrunnar hefur kynnt að undanförnu er áherslan í þeim áfanga almennrar uppbyggingar sem nú er að hefjast að efla og auka við búnað á þeim stöðum þar sem eftirspurn rafbílaeigenda eftir hleðslu er mest. ON mun þannig setja upp sautján 150 kW hleðslur á tíu stöðum við hringveginn og í grennd Keflavíkurflugvallar. Þá verður búnaðurinn á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal uppfærður í 50 kW.

Orka náttúrunnar var einnig á meðal þeirra sem hlutu styrk sem sérstaklega er ætlaður til að efla græna ferðaþjónustu. Á grundvelli samstarfs við Íslandshótel og Icelandair Hotels mun ON setja upp hleðslubúnað fyrir rafbíla við gististaði sem reknir eru undir merkjum Fosshótela og Icelandair Hotels. Þar standa bílar alla jafna yfir nótt og búnaðurinn þar tekur mið af því. Nú er unnið að samningum við hótelrekendur á hverjum stað.

Hraðhleðsla á Þingvöllum

Á grundvelli fyrri úthlutunar uppbyggingarstyrkja frá Orkusjóði hefur Orka náttúrunnar unnið með Þjóðgarðinum á Þingvöllum að því að setja þar upp hraðhleðslu. Vegna sérstakrar verndar sem þjóðgarðurinn nýtur fór sú framkvæmd í mat á umhverfisáhrifum. Því er nú lokið og undirrituðu fulltrúar aðila formlegan samning um uppsetningu nú á dögunum.

Yfirlit yfir áætlaðar hleðslustaðsetningar Orku náttúrunnar

Núverandi hleðslur ON má sjá á þessum lifandi uppdrætti. Í framhaldi af styrkveitingum Orkusjóðs nú í haust er unnið að því að þetta bætist við. Í töflunni hér að neðan segir talan innan sviga til um fjölda 150kW hraðhleðsla á hverjum stað. Staðsetning búnaðarins í umsókn ON til Orkusjóðs var meðal annars byggð á reynslu fyrirtækisins af því hvar helst hafa myndast flöskuhálsar í núverandi hleðsluneti. Sýnt er innan sviga hversu margar hleðslur er fyrirhugað að setja upp á hverjum stað eða svæði.

Hraðhleðsla (150 kW DC) Hraðhleðsla (50 kW DC) Hleðsla (AC)
Staðarskáli (2) Skjöldólfsstaðir á Jökuldal Um 20 hótel víða um land
Varmahlíð (2) Höfuðborgarsvæðið (6)
Akureyri (1) Vesturland (4)
Mývatnssveit (2) Vestfirðir (1)
Egilsstaðir (2) Suðurland (5)
Höfn – Nesjar (1) Austurland (2)
Hvolsvöllur (1) Norðurland (2)
Kirkjubæjarklaustur (2)
Selfoss (2)
Reykjanes – flugvallarsvæði (2)

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.