Þvottur
Að þvo þvott var einu sinni erfitt, tímafrekt og jafnvel hættulegt verk. Þvotturinn var þveginn í jarðhitalaugum þar sem veðrið, sjóðandi vatn og fjarlægð frá heimilinu gat valdið miklum erfiðleikum og skapað beinlínis lífshættulegar aðstæður. Það er annað uppi á teningnum í dag þegar við hendum einfaldlega þvottinum í þvottavélina. Meðan við bíðum getum við svo slakað á inni í hlýjunni og svo þurrkað þvottinn innandyra sama hvernig viðrar. Það var svo sannarlega ekki hægt að gera fyrr á öldum. Heita vatnið sem við notum til að handþvo þvott kemur enn frá jarðhitasvæðum en vatnið í þvottavélinni er hitað af vélinni sjálfri.
Þvottakonur við störf við Þvottalaugarnar í Laugardalnum, mynd tekið um 1900. Takið eftir kaffikönnunni sem konan á miðri myndinni heldur á, ásamt katlinum og bollunum hægra megin. Kaffið var ómissandi, þó svo okkur þætti bragðið af hverakaffi væntanlega ekki gott í dag.
Þvottur er nú þveginn innandyra og er ekki lengur verkefni sem er aðgreint eftir kyni eða stétt.
Íslendingar fyrri tíma notuðu jarðhitavatn til að þvo og baða sig í. Þessi beina notkun jarðhitavatns hélt áfram á einn eða annan hátt allt fram á 20. öldina og má segja að við nýtum það enn á þennan forna hátt er við böðum okkur í einhverri af náttúrulaugum sem finnast um allt land. Við erum þó alveg hætt að þvo þvottinn okkar beint upp úr heitri laug, líkt og gert var lengi vel í Þvottalaugunum í Laugardalnum í Reykjavík.
Þvottalaugarnar voru notaðar frá tíma þéttbýlisþróunar í Reykjavík langt fram eftir 20. öldinni. Ferðin frá Reykjavík að Þvottalaugunum var um þriggja kílómetra löng og allt annað en greiðfær. Áður en lagður var vegur var leiðin ójöfn, hún óupplýst og yfir nokkra læki og ár að fara sem gátu hæglega stækkað töluvert í miklum rigningum. Rok, rigning og snjókoma gátu svo bætt í erfiðið því það þurfti jú að þvo þvott allan ársins hring, hvernig sem viðraði, líka yfir myrkustu og köldustu vetrarmánuðina. Það voru konur, aðallega vinnukonur af lægri stéttum, sem sáu um að vinna þetta þarfa en erfiða verk.
Konur þurftu að bera þvottinn á bakinu ásamt bala, þvottakefli, þvottabretti, sápu, kaffikönnu, bolla og mat. Kaffi var nauðsynlegt á meðan á vinnunni stóð, en til að hella uppá var jarðhitavatnið notað beint. Yfir veturinn þurfti einnig að hafa með sér jakka og kerti eða einhverskonar ljós svo sæist til verka.
Þvottalaugarnar í Laugardalnum milli 1902-1910. Kerran á miðri myndinni var alla jafna notuð til að bera þvott og annað sem til þurfti, en hún hefur líka nýst sem hvíldarstaður fyrir þreytt börn sem fylgdu mæðrum sínum eftir langa vinnudaga.
Þvotturinn tók vanalega um 10-15 klukkustundir, auk tímans sem það tók að ganga til og frá laugunum. Börn voru oft með í för, þeim þurfti að sinna og lengdi það eðlilega vinnudaginn.
Árið 1885 hófst vinna við að leggja veg að Þvottalaugunum. Það tók fimm ár að klára veginn en hann auðveldaði ferðalagið með allan þvottinn töluvert. Við þekkjum öll þennan veg í dag en hann ber svo sannarlega nafn með rentu: Laugavegur. Konur gátu nú notað hjólbörur, vagna og hjól til þess að ferja birgðirnar. Samt sem áður var enn ætlast til þess að konurnar myndu bera birgðirnar sjálfar frekar en að festa vagnana á hesta. Þessi framkoma við þvottakonurnar mætti mikilli gagnrýni og stóð Torvaldssenfélagið, fyrsta kvenfélagið í Reykjavík, fremst í flokki að rétta hlut þvottakvenna og minnka það álag og erfiði sem þvottinum fylgdi.
Það var ekki bara líkamlegt erfiði sem tefldi heilsu þvottakvenna í hættu. Sjóðandi heita vatnið í laugunum gat verið beinlínis lífshættulegt. Að minnsta kosti þrjár konur létust eftir að hafa dottið ofan í laugarnar. Árið 1902 sá borgin um að hækka laugarnar upp og settu upp járnboga til að koma í veg fyrir fleiri slys.
Þessi mynd er tekin árið 1906, fjórum árum eftir að steyptur pallur og öryggisgrind var reist við laugarnar í Laugardal og þótti framkvæmdin mjög til bóta.
Snemma á 20. öldinni minnkaði notkun Þvottalauganna, sérstaklega þegar Reykjavík hóf notkun á hitaveitunni á fjórða áratugnum. Þegar aðgangur að heitu vatni og rafmagni jókst dó notkun lauganna loks út. Í dag eru þær að mestu leiti þurrar en hafa verið endurbyggðar svo gestir Laugardalsins geta séð hvar þvottakonurnar unnu, fræðst um störf þeirra og fetað fótspor þeirra með því að ganga frá laugunum niður í miðbæ Reykjavíkur!
Þvottavélar léttu heimilisstörfin gríðarlega. Þvotturinn hélt þó áfram að vera nær alfarið í höndum kvenna, eins og sést vel á þessari mynd frá sjöunda áratugnum.
Í dag gæti vart verið auðveldara að þvo þvott hér á landi. Þvottavélar má finna á nánast hverju heimili ásamt því að auðvelt er að skottast út í næstu fatahreinsun. Í stað heils dagsverks eyðum við nokkrum mínútum í að safna saman þvotti, henda honum í vélina og setja hana í gang. Mesta vesenið er að brjóta saman allan þennan þvott, en miðað við erfiði fyrri tíma gerum við það með (næstum) glöðu geði. Þvottur í dag er ekki lengur einungis verk kvenna þar sem gert er ráð fyrir að allir fjölskyldumeðlimir læri að þvo þvott og leggi sitt að mörkum við heimilisstörfin.
Yfirleitt þurrkum við fötin á þvottasnúru í þvottaherbergi, eða í þurrkaranum. Hér hefur eflaust einhver verið að sulla og þá er voða þægilegt að geta hent blautum barnafötum beint á ofninn.
Heita vatnið sem við notum kemur annars vegar frá lághitasvæðum og hins vegar frá jarðhitavirkjunum á háhitasvæðum.
Lághitavatni er dælt úr borholum í tanka þaðan sem það rennur til húsa okkar eftir lagnakerfum en heita vatnið af háhitasvæðum er í raun upphitað grunnvatn. Jarðhitavökvinn sem kemur upp úr borholum á háhitasvæðum er svo steinefnaríkur að ekki má nota hann beint í ofnana okkar. Þess í stað er notaður svokallaður varmaskiptir. Þá er jarðhitavatnið notað til að hita upp kalt grunnvatn. Kalda grunnvatnið inniheldur ekki þessi sömu steinefni og fer því mun betur með pípur og nef.
Hellisheiðarvirkjun en dæmi um virkjun á háhitasvæði. Vatnið þaðan er upphitað grunnvatn sem síðan er sent til höfuðborgarsvæðisins til húshitunar. Það má segja að vatnið sé í raun notað til að flytja varma jarðarinnar heim til okkar.
Jarðhitinn gerir okkur kleift að nýta heitt vatn heima hjá okkur hvenær sem við viljum. Við getum farið í langa heita sturtu, átt heima í notalegu og hlýju húsi, gengið og keyrt um upphitaðar götur og gangstéttir, allt fyrir tiltölulega lítinn kostnað vegna þess hvernig við nýjum jarðhitann. Ísland hefur þróast hratt og við megum vera þakklát fyrir lífsgæðin sem aukist hafa stórkostlega síðustu 100 árin.