Heimilið

Hleðsla

Fyrirtæki

Virkjanasvæði

Um ON

Nýting jarðhita á Íslandi

Jarðhitasvæði voru mikilvæg á landnámsöld og bera mörg staðarheiti um land allt þess vitni hvernig jarðhitinn setti svip sinn á landslagið við landnám. Reykjavík er gott dæmi um slíkt heiti. Reykurinn sem borgin dregur nafn sitt af, var þó ekki í rauninni reykur, heldur gufa frá jarðhitasvæðum.


Jarðhitavatn spilaði einnig stórt hlutverk við Kristnitöku Íslendinga. Þegar Íslendingar tóku Kristni á Þingvöllum árið 999 neituðu viðstaddir að vera skírðir í ísköldu Þingvallavatninu. Í stað þess var fólk skírt í heitum laugum, Reykjalaug (Vígðalaug) við Laugarvatn og í Reykjalaug í Lundarreykjadal (Krosslaug). Fólkið hlaut þannig skírn sína í svokallaðri „heitapotta“ skírn og allar götur síðan hafa Íslendingar kosið þægindi heitra potta frekar en ískaldar sundlaugar.


Í Íslendingasögunum er allt oft minnst á heitar laugar og tengjast þessi kaflar oftar en ekki leynilegum ástarfundum. Ein frægasta sagan er úr Laxdælu og gerist við Guðrúnarlaug í Sælingsdal þar sem Guðrún Ósvífursdóttir var tíður gestur. Þessir heitu pottar fyrri tíða voru líklega heitar ár og náttúrulaugar þar sem jarðhitavatn blandast köldu vatn, líkt og í einni allra vinsælustu náttúrulaug dagsins í dag: Reykjadal við Hveragerði. Athyglisverðasta undantekningin á þessu er Snorralaug í Reykholti en hún er manngerð laug frá 13. öld sem tengist flóknu lagnakerfi.


Jarðhiti og heitt vatn var ekki bara notað til að þvo þvott og fara í bað. Í gegnum tíðina hafa Íslendingar nýtt jarðhita á skapandi hátt. Sem dæmi má nefna notkun heits vatns við beygingu viðar og beina til smíða. Heitt vatn og gufa hafa líka verið notuð til að sjóða mat og baka brauð, og mold og leir af jarðhitasvæðum hefur verið nýttur til einangrunar í geymslum og til að loka geymslurýmum. Gufan var líka, og er enn, notuð til gufubaða og heitt vatn nýtt við ræktun grænmetis. Á 14. – 19. öld grófu Íslendingar eftir brennisteini sem seldur var til Evrópu þar sem hann var nýttur í byssupúður. Á 19. öld voru jarðhitasvæði einnig notuð sem loftvogir og jarðhiti var nýttur til að vinna salt úr sjó. Á 20. öldinni varð stökk í nýtingu jarðvarma þegar hitaveita og rafmagn kom til sögunnar. Þessi tæknibylting fól í sér að hægt var að nýta varmann til húshitunar, til ræktunar í gróðurhúsum, til gerilsneyðingar mjólkurvara og til þurrkunar á fiski, heyi og þara svo eitthvað sé nefnt.


Við byrjun 20. aldar hófst notkun jarðhita á þann hátt sem hefur hvað mest áhrif á líf okkar í dag; til húshitunnar. Árin 1908 og 1911 bjuggu tveir bændur á Syðri-Reykjum í Mosfellssveit og Sturlureykjum í Reykholtsdal til lagnakerfi til að hita bæina sína ásamt því að nýta jarðhitann við eldamennsku. Á fjórða áratugnum byrjuðu yfirvöld að gera slíkt hið sama á stærri skala.


Fyrsta hitaveitukerfið hérlendis var byggt af Hitaveitu Reykjavíkur árið 1930. Það stækkaði hratt þar sem nágrannasveitarfélögin fylgdu í kjölfarið á næstu áratugum. Fyrsta jarðhitavirkjunin var svo byggð árið 1969 og í dag kemur um 30% af rafmagnsframleiðslu og um 90% húshitunar frá jarðhitaauðlindum landsins. Húshitun og framleiðsla rafmagns eru í raun mikilvægasta nútíma notkun jarðhitans og hefur hún breytt lífi Íslendinga á stórfenglegan hátt. Í aldaraðir hafa Íslendingar þurft að búa við óblíða og óbilgjarna veðráttu með sínum sífelldum ofsaveðrum. Nógu erfitt er fyrir okkur nútímafólkið að komast í gegnum frostið, rokið og myrkrið á veturna en ímyndaðu þér hvernig það var að búa hér fyrir tíma rafmagns og húshitunar.


Það er jarðhitasvæðum og nýtingu jarðvarma að þakka að við getum notið þess að vera inni á hlýju heimili, farið í heita sturtu og stungið okkur í rjúkandi útisundlaug allan ársins hring, auk þess sem nú er nóg af ljósum til að lýsa upp vetrarmyrkrið. Nú til dags má einnig finna snjóbræðslukerfi víða þar sem lagnir með heitu vatni liggja undir gangstéttum og götum og bræða snjó og ís – forfeður okkar og formæður ættu líklega erfitt með að trúa því hversu þægilegt lífið er orðið á Íslandi í dag.