Heimilið

Hleðsla

Fyrirtæki

Virkjanasvæði

Um ON

Áhugaverðar gönguleiðir á Hengilssvæðinu

Hér eru lýsingar á áhugaverðum gönguleiðum á Henglinum.

Jarðvarmahlaup Orku náttúrunnar

Hellisheiðarvirkjun - Sleggjubeinsskarð – Innstidalur - Skarðsmýri - Hellisskarð - Hellisheiðarvirkjun.

Upphafsstaður: Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun

Vegalengd: 13 km

Heildarhækkun: 334 m

Áætlaður göngutími: 2,5-3 klst.

Áætlaður hlaupatími: 1-2 klst.

GPX-skrá

Google pin á upphafsstað

Leiðarlýsing: Hlaupið hefst á malbiki og liggur leiðin inn í Sleggjubeinsdal, þar sem stikur leiða hlaupara upp Sleggjubeinsskarðið. Þegar upp er komið liggur leiðin niður í Innstadal, um graslendi, yfir læki og eftir jeppaslóða. Stikuð leið heldur áfram út með Hengladölum, en þar fer hlauparinn af stikaðri leið og fylgir jeppaslóðanum frá Miðdal og að Fremstadal.

Leiðin fylgir síðan rótum Skarðsmýrarfjalls á leið sem kallast milli hrauns og hlíðar. Þegar komið er inn á malbikið heldur leiðin áfram að Hellisskarðinu og niður í átt að Hellisheiðarvirkjun.

Virkjun til vellíðunar

Sleggjubeinsdalur - Reykjadalur - Hveragerði

Upphafsstaður: Sleggjubeinsdalur

Endapunktur: Hveragerði

Vegalengd: tæpir 19 km

Heildarhækkun: 500

Áætlaður göngutími: 4,5 klst

Google pin á upphafsstað

Leiðarlýsing: Hressandi gönguleið sem byrjar í Sleggjubeinsdal og endar í Hveragerði, um 19 km. Hér þarf að huga að bílamálum því gangan byrjar á einum stað og enda á öðrum. Það er hægt að baða sig í læknum í Reykjadal á leiðinni niður og enda svo ferðalagið á mat og drykk í Hveragerði. Nokkuð á fótinn en endar, eins og áður segir, í Hveragerði þar sem allt er til alls.

Toppurinn (á tilverunni)

Sleggjubeinsdalur – Vörðuskeggi – Innstidalur – Sleggjubeinsdalur

Upphafsstaður: Sleggjubeinsdalur

Vegalengd: 13,3 km

Heildarhækkun: 705 m

Áætlaður göngutími: 5-6 klst.

Google pin á upphafsstað

Leiðarlýsing: Vinsæl gönguleið af góðri ástæðu en nokkuð krefjandi. Leiðin hefst við bílastæði í Sleggjubeinsdal, innan við Hellisheiðarvirkjun. Gengið upp Sleggjubeinsskarð, þar til komið er að vegpresti sem skiptir leiðum sem báðar enda á tindi Vörðu-Skeggja. Önnur leiðin er um vesturhlíð skarðsins en hin fer inn í Innstadal og þaðan upp á tindinn. Hér er hægt að ganga bæði rétt- og rangsælis; vinsælla er að fara leiðina réttsælis og enda í Innstadal.

Útsýni eykst til allra átta eftir því sem ofar er komið og er einna best frá vesturhlíðum Hengilsins og af tindi Vörðu-Skeggja. Leiðin um Innstadal getur verið blaut langt fram á vor; snúið við frekar en að valda skemmdum á gönguleiðinni. Yfir veturinn og snemma vors er mikilvægt að hafa viðeigandi vetrarfjallamennskubúnað eins og brodda og exi. Ofarlega í vesturhlíð fjallsins er bæði bratti og gil þar sem snjór situr lengi og gerir þennan hluta leiðarinnar varasaman. Fyrir vikið er þar merkt hjáleið, Hjáleið Sleggjubeinsdalur vetur/vor sem endar líka uppi á toppi.

Langa gangan

Sleggjubeinsdalur - Engidalur - Marardalur - Norðursyllur - Hagavíkurlaugar - Ölkelduháls - Dalskarð - Álútur - Dagmálafell - Úlfljótsvatn

Upphafsstaður: Sleggjubeinsdalur

Vegalengd: 33 km

Heildarhækkun: 1,121 m

Áætlaður göngutími: 10 - 13 klst

Google pin á upphafsstað

Leiðarlýsing: Þetta er glæsileg og krefjandi dagsferð, fullkomin fyrir þá sem vilja leggja af stað að morgni og ganga fram á kvöld, um heillandi svæði Hengilsins. Gangan hefst við Sleggjubeinsskarð, þar sem leiðin liggur eftir stikaðri leið inn í gróðursælan Innstadal og áfram austur upp á Ölkelduháls en þar er jarðhiti áberandi með gufu sem stígur upp úr landi ásamt hverum og laugum.

Þaðan er gengið á milli Ölkelduhnúks og Dalskarðshnúks, með útsýni niður í Reykjadal. Heiti lækurinn í Reykjadal blasir við og hér væri hægt að skjótast niður og baða sig í ánni (útúrdúr). Leiðin sjálf liggur meðfram hlíðinni ofan við Reykjadalinn, upp Dalskarð, þar sem eitt sinn stóð skálinn Dalasel. Gengið er um skarðið og þaðan niður í Grændal.

Gönguleiðin þverar dalinn í átt að fjallinu Álút þar sem útsýnið er gott. Frá Álút er gengið niður með Efjumýrarhrygg, upp á Dagmálafell og þaðan niður um grónar hlíðar í átt að Úlfljótsvatni. Síðasti kaflinn er blautur á vorin.

Stysta leiðin upp á Vörðu-Skeggja

Tankarnir á Háhrygg - Kýrdalshryggur - Vörðu-Skeggi og sama leið til baka.

Upphafsstaður: Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun

Vegalengd: 13 km

Heildarhækkun: 334 m

Áætlaður göngutími: 2,5-3 klst.

Áætlaður hlaupatími: 1-2 klst.

Google pin á upphafsstað

Leiðarlýsing: Hlaupið hefst á malbiki og liggur leiðin inn í Sleggjubeinsdal, þar sem stikur leiða hlaupara upp Sleggjubeinsskarðið. Þegar upp er komið liggur leiðin niður í Innstadal, um graslendi, yfir læki og eftir jeppaslóða. Stikuð leið heldur áfram út með Hengladölum, en þar fer hlauparinn af stikaðri leið og fylgir jeppaslóðanum frá Miðdal og að Fremstadal.

Leiðin fylgir síðan rótum Skarðsmýrarfjalls á leið sem kallast milli hrauns og hlíðar. Þegar komið er inn á malbikið heldur leiðin áfram að Hellisskarðinu og niður í átt að Hellisheiðarvirkjun.


Ef tími gefst mælum við með útúrdúr þegar upp er komið

Í stað þess að fara allra stystu leið upp er hægt að fylgja svokallaðri vetrarhjáleið, merkt á vegpresti sem Hjáleið Sleggjubeinsdalur vetur/vor.

Athugið: Það er auðvelt að missa af beygjunni inn á þessa leið. Leiðin er nokkuð brött á köflum og stundum erfitt að sjá á milli stika vegna brattans.

Þetta er þó skemmtileg viðbót fyrir þá sem treysta sér til. Göngumaður kemur inn á leiðina sem gengin er frá Hellisheiðavirkjun upp á topp.

Leiðin fer um snjógil og hentar ekki yfir vetur/vor eða þegar mikill snjór er í fjallinu

Fræðsluhringurinn

ION hótel - Konungsbrún - Nesjalaugar - Köldulaugagil - Adrenalíngarðurinn

Upphafsstaður: Bílaplan gegnt Adrenalíngarðinum

Vegalengd: Tæpir 9 km

Heildarhækkun: 251 m

Áætlaður göngutími: 2,5-3 klst

Google pin á upphafsstað

Leiðarlýsing: Vandaðasti göngustígur Hengilssvæðisins leiðir fólk og sauðfé um fjölbreytt landslag Nesjavalla. Gengið yfir hraunbreiður og læki, um lynggrónar brekkur, inn í gil í ævintýralegu umhverfi jarðhitans. Í hlíðum Nesjalauga og við Köldulaugagil er bullandi jarðhitavirkni og litrófið sem því fylgir setur svip sinn á svæðið.

Það er hægt að byrja gönguna á nokkrum upphafspunktum en brekkan ofan við ION hótelið er strembnari á leiðinni niður, fyrir vikið leggjum við til að ganga frá Adrenalíngarðinum að ION hótelinu og þaðan upp á Konungsbrún. Þar tekur á móti göngufólki mikilfenglegt útsýni.