Fréttir
16. mars 2021

Virkjum eldmóð unga fólksins!

Ef stjórnendur fyrirtækja hefðu verið spurðir að því fyrir ríflega ári síðan hvort það væri raunhæft að starfsfólk gæti unnið að stórum hluta til eða jafnvel alveg heiman frá sér, með sama eða betri árangri fyrir reksturinn, þá hefði svarið án efa verið í langflestum tilvikum nei. Slíkar hugmyndir þóttu óraunhæfar, þótt einhverjar tilraunir hefðu vissulega verið gerðar. En svo skall á heimsfaraldur. Einn mikilvægasti lærdómurinn af COVID-19 faraldrinum er sá að við getum breytt hefðum, verklagi og rótgrónum ferlum mun hraðar en nokkurn óraði fyrir. Hægt er að gjörbreyta fyrirtækjarekstri á nokkrum dögum og senda starfsfólk nánast allt heim til sín í fjarvinnu, og heimurinn ferst ekki. Þennan lærdóm þurfum við nú að nýta í þágu loftslagsmála. Græn orkuskipti og umbreyting samfélagsins í þágu umhverfismála krefjast mikilla og hraðra breytinga, en við vitum nú að þessar aðgerðir munu ekki valda okkur erfiðleikum, heldur þvert á móti efla okkur og styrkja. Brettum upp ermar, full af eldmóði!

Úrlausnarefnin í loftslagsmálum eru svo umfangsmikil að þau geta virst yfirþyrmandi. Af öðrum sjónarhóli eru þessi verkefni hins vegar spennandi áskorun. Nú er svo komið að við höfum í meginatriðum þróað alla þá nauðsynlegu tækni sem þarf til að orkuskiptin geti átt sér stað, þótt margt muni breytast og batna enn frekar. Bílar sem ganga fyrir rafmagni, metani eða öðru hreinu eldsneyti eru nú engu síðri farartæki en bílar sem keyra á jarðefnaeldsneyti. Stutt er í að stærri farartæki, skip og flugvélar, skipti einnig yfir í hreinni orkugjafa án þess að notendur finni nokkurn mun, nema í hreinna andrúmslofti og betri samvisku. Við verðum að vinna skjótt og vel því jörðin hitnar hratt. Tæknin og innviðirnir eru til staðar en nú þurfum við að bretta upp ermar, full af eldmóði! Orka náttúrunnar hefur keppt að því á undanförnum árum að byggja upp innviði fyrir hin nýju farartæki með uppsetningu rafmagnshleðslustöðva um land allt og með framleiðslu vetnis sem eldsneytis. Frá okkar bæjardyrum séð er það ný og spennandi vídd í starfsemi fyrirtækisins að nú skuli framleiðsla á innlendu hreinu eldsneyti fyrir samgöngur, til hagsbóta fyrir bæði umhverfið og innlent efnahagslíf, vera orðin mikilvægur þáttur í starfsemi okkar. Það er gríðarleg breyting sem orðið hefur á örfáum árum og sú þróun mun halda áfram. Áskorun til stjórnenda Vitundarvakningin í samfélaginu gefur okkur ástæðu til bjartsýni. Við erum mörg hver byrjuð að gera breytingar og hópurinn stækkar ört. Ekkert okkar er fullkomið en ef við erum öll betri í dag en gær þá skiptir það miklu. Til að skapa sama eldmóðinn og í kringum COVID, þar sem aðsteðjandi vá varð drifkraftur stórra aðgerða á skömmum tíma, þá verðum við að hlusta á unga fólkið. Fyrir því er loftslagsvandinn enn raunverulegri, einfaldlega vegna þess að ef svartar spár rætast mun vandinn bitna á þeirra kynslóð og þeim sem á eftir koma. Áskorunin til stjórnenda, stjórna og eigenda fyrirtækja er því þessi: Hlustið á unga fólkið, hlustið í alvörunni á það hvernig því líður og hvernig það sér hlutina. Varðveitið þá tilfinningu sem þið upplifið við að hlusta á áhyggjur þess og notið hana til að setja loftslagsmálin inn í kjarna fyrirtækjanna sem þið stýrið eða eigið. Með þessu hugarfari skulum við vinda okkur í verkin.

Hraðar breytingar gagnvart aðsteðjandi vá eru vel mögulegar því samfélagið er miklum mun sveigjanlegra en við héldum áður. Í hinu mikla uppbyggingarstarfi sem þarf að fara fram að loknum heimsfaraldrinum má alls ekki taka hugsunarlaust upp sömu venjur og áður. Nú þarf að grípa tækifærið og byggja upp í samræmi við ýtrustu markmið í loftslags[1]málum og hafa trú á því að samfélagið sé reiðubúið til þess. Verkefnið er vissulega stórt, en það er viðráðanlegt. Hringrásarhagkerfið hefur aldrei verið mikilvægara Við þurfum ekki bara að flýta innleiðingu á nýrri tækni heldur þarf hugarfarsbreyting að eiga sér stað. Í grunninn snýr hún að því að við notum minna og nýtum betur, fullviss um að hvorki velsæld okkar né jarðarinnar byggist á aukinni neysluhyggju og sóun. Við þurfum að draga úr framleiðslu og einblína á loftslagsleg áhrif þess sem við framleiðum, seljum eða notum. Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Ramminn um þetta hugarfar heitir hringrásarhagkerfi. Nú, í eftirleik heimsfaraldurs, ættum við óhikað að nota tækifærið og innleiða þá hugmyndafræði á sem flestum sviðum og á sem skemmstum tíma. Orka náttúrunnar einbeitir sér því ekki bara að orkuskiptum í samgöngum heldur er það markmið fyrirtækisins að innleiða hringrásarhugsun á fleiri sviðum sem snerta starfsemina.

Við höfum einsett okkur að taka virkan þátt í innleiðingu á hringrásarhagkerfinu, meðal annars með því að leggja áherslu á að fullnýta efnastrauma sem til verða við rafmagnsframleiðslu með jarðvarma, nýta strauma sem ekki hefur alltaf verið horft á sem verðmæti. Í þessum tilgangi settum við á fót Jarðhitagarð Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun fyrir viðskiptavini sem leggja þunga áherslu á umhverfismál og geta nýtt þessa strauma til að skapa verðmæti. Göngum skrefinu lengra Orkuskipti í samgöngum eru mikilvæg og þau eru sem betur fer að gerast. Við þurfum hins vegar að innleiða þá sömu hugsun á öllum öðrum sviðum mannlífsins líka. Sem betur fer eru möguleikarnir til grænni hátta að spretta upp alls staðar. Tökum dæmi: Losun CO2 vegna rafmagnsframleiðslu Orku náttúrunnar er mjög lítil í saman[1]burði við óendurnýjanlega rafmagnsframleiðslu eins og til dæmis með kolum, og það væri einfalt að nota það sem rökstuðning fyrir því að láta þar við sitja. Við höfum hins vegar ákveðið að taka ábyrgð á okkar útblæstri með því að dæla stórum hluta hans niður aftur í jörðina auk þess sem við hyggjumst meðhöndla hluta af honum og bjóða viðskiptavinum Jarðhitagarðs ON að nýta hann. Koltvísýring sem losnar úr læðingi í jarðvarmavirkjunum er til dæmis hægt að nýta til að rækta örþörunga. Örþörungaræktun er matvælaframleiðsla framtíðarinnar og krefst mun minna rafmagns, vatns og lands en hefðbundinn land[1]búnaður. Framleiðsla af þessu tagi er hafin hjá fyrirtækinu Vaxa í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar. Annað fyrirtæki sem hefur hafið starfsemi í Jarðhitagarðinum heitir Climeworks. Það hefur sett upp búnað til að sjúga koltvísýring úr andrúmsloftinu og honum er síðan dælt í jörðu með aðferð sem þróuð hefur verið af systurfyrirtæki Orku náttúrunnar, Carbfix. Í breytingunum felast stór tækifæri Það er staðreynd að framtíðin mun líta öðruvísi út en nútíðin. Það hefur auðvitað alltaf átt við. Núna hins vegar stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að við þurfum beinlínis að knýja fram breytingar af mun meiri krafti og ákefð heldur en nokkru sinni áður. Verkefni okkar er að koma í veg fyrir hamfarir. Það getur verið ógnvekjandi hugsun sem getur vakið lamandi kvíða og ótta. Kannski finnst einhverjum auðveldara að hugsa ekki um þessi erfiðu mál. Ég trúi því hins vegar að í raun séu þetta ekki erfið viðfangsefni. Unga fólkið, þetta undarlega ár heimsfaraldurs og allar lausnirnar sem eru nú þegar til staðar munu gera okkur öllum ljóst að verkefnin fram undan, eins og græn orkuskipti og innleiðing hringrásarhugsunarinnar, eru ekki erfið eða íþyngjandi, heldur þvert á móti: Þessi verkefni eru sjálfsögð, spennandi og gefandi.

Berglind Rán Ólafsdóttir,

framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar