LandgræðslaLandgræðsla

Landgræðsla

Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að endurheimt náttúrulegs gróðurs og umhverfis eftir rask sem fylgdi framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun. Aðferðir á borð við jarðvinnu, fræslægju, mosadreifingu, flutning á torfum, o.fl. hafa skilað góðum árangri.

Orka náttúrunnar leggur ríka áherslu á góðan frágang og landgræðslu á virkjanasvæðum sínum með það markmið að endurheimta landslag og gróður sem líkast því sem var fyrir framkvæmdir.

Við höfum innleitt það verklag, við allar framkvæmdir á grónu landi, að taka upp gróður og nýta hann beint í frágang á framkvæmdastað eða á öðrum röskuðum svæðum. Þetta er oftast gert með stórtækum vinnuvélum en stundum einnig með handafli.

Landgræðsla - fyrir og eftir

Landgræðsluflokkur

Á sumrin starfar fríður flokkur við landgræðslu og fegrun umhverfis við virkjanirnar okkar. Meðal verkefna eru gróðursetning víðigræðlinga, söfnun og dreifing fræslægju og endurheimt á mosaþembum.

Til að endurheimta mosaþembur notum við meðal annars svokallaðan mosahræring, sem samanstendur af súrmjólk, vatni og mosa. Við höfum einnig lagfært mosaskemmdir þar sem að skemmdarvargar hafa rifið mosann upp til búa til stafi í mosaþembuna.

 

Viðgerð á mosakroti

Gróðurtorfur og mosi græða sárin