HengillinnHengillinn

Jarðhitinn - fyrir okkur öll

Við nýtum jarðhitann til að framleiða rafmagn og heitt vatn, í sátt og samvinnu við náttúruna - því við erum öll tengd við hana á einn eða annan hátt.

Bætt orkunýting – aukin verðmætasköpun

Nýting jarðhita er spennandi verkefni þar sem auðlindin er yfirleitt algjörlega falin í iðrum jarðar og því mikil áskorun að skilja hana og læra að nýta á sjálfbæran hátt. Til þess að nýta auðlindir okkar sem best er gufan þar að auki leidd að gufuhverflum þar sem raforkuframleiðsla fer fram. Rafmagnið okkar er framleitt á sjálfbæran hátt og er kolefnisspor þess með því lægsta sem gerist í heiminum.

Með því að framleiða fleiri orkueiningar í formi raforku og heits vatns úr sama auðlindastraumi þá er unnt að minnka kolefnisspor á hverja orkueiningu. Með bættri orkunýtingu er því ekki aukið né minnkað við losun heldur aukin þau verðmæti sem skapast frá auðlindastraumnum sem veldur losuninni.

Orka náttúrunnar rekur tvær fullkomnustu jarðhitavirkjanir landsins með tilliti til orkunýtni þar sem bæði rafmagn og heitt vatn er framleitt úr háhitaauðlindinni.

Virkjanirnar okkar

Jarðhitavirkjanir okkar á Nesjavöllum og Hellisheiði voru byggðar til að mæta auknum þörfum á heitu vatni í samfélaginu. Á virkjanasvæðum okkar eru um 1000-3300 metra djúpar borholur og frá þeim berst vatnsblönduð gufa sem leidd eftir safnæðum í skiljustöð þar sem vatnið er skilið frá gufunni. Vatnið fer í varmastöð og er notað til að hita upp grunnvatn til hitaveitu. Við framleiðum um 50 % af öllu heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu sem meðal annars er notað til húshitunar og í sundlaugar. Hugsaðu um okkur næst þegar þú ferð í sund eða sturtu.

Hellisheiðarvirkjun

Hellisheiðarvirkjun er staðsett sunnan við Hengilinn og framleiðir heitt vatn og rafmagn. Virkjunin var gangsett árið 2006 og er uppsett afl 200 MW í varmaafli og 303 MW í rafmagni. Í lítrum talið er þetta um 950 lítrar á sekúndu.

Allt umfram jarðhitavatnið rennur að jafnaði í niðurrennsliskerfi niður fyrir grunnvatnskerfi í jarðhitageyminn. Lofthreinsistöð er staðsett við virkjunina sem að nýtir Carbfix aðferðina til að hreinsa um 75% af brennisteinsvetni og um 30% af koltvísýringi sem að leyst eru upp í jarðhitavatni og veitt í niðurrennsliskerfi.

Í Jarðhitagarði ON, staðsettur við virkjunina, er fjölbreytt starfsemi sem miðar að því að fullnýta afurðir Hellisheiðarvirkjunar á ábyrgan og umhverfisvænan hátt og skapa aukin verðmæti úr jarðhitanum.

Jarðhitasýningin er staðsett í Hellisheiðarvirkjun og veitir innsýn í virkjun og nýtingu jarðhitans á Íslandi. Á sýningunni er jarðfræði, tækni og saga sett fram á aðgengilegan og skýran hátt með myndum og margmiðlunartækni. Starfsmenn veita upplýsingar og eru reiðubúnir að fylgja gestum um sýninguna.

Nesjavallavirkjun

Nesjavallavirkjun sem er staðsett norðan við Hengilinn framleiðir heitt vatn og rafmagn. Hún getur framleitt allt að 300 MW í varmaorku sem eru um 1.640 l/sek af heitu vatni og allt að 120 MW af rafmagni.

Hluti af afgangs jarðhitavatni frá virkjuninni fer í niðurrennslisholur og stöðugt er unnið að stækkun niðurrennslisveitu. Verið er að prófa djúpa niðurdælingu á jarðhitavatni til að undirbúa tilraunaniðurdælingu á koltvísýring og brennisteinsvetni.

Andakílsárvirkjun

Andakílsárvirkjun í Borgarfirði hóf rekstur árið 1947. Virkjunin leysti af hólmi vélknúnar rafstöðvar sem notaðar höfðu verið bæði á Akranesi og í Borgarnesi og nálægu dreifbýli og var því mikil umhverfisbót. Heildarframleiðslugeta virkjunarinnar er 8 MW.

Í rekstri virkjunarinnar er tekið verulegt tillit til vatnshæðar í Skorradalsvatni og rennslis í Andakílsá í þeim tilgangi að hlúa sem best að Skorradalsvatni sem náttúrusvæðis og Andakílsá sem veiðiá.