Fréttir
20. ágúst 2021

Tvær öflugar hleðslustöðvar ON við Bauluna

Orka náttúrunnar hefur opnað tvær öflugar 150 kílóvatta hraðhleðslustöðvar við Orku-stöðina Bauluna við hringveginn í Borgarfirði. Afl nýju stöðvanna þýðir að þær geta þjónað fjórum rafbílum í senn. Stöðvarnar eru hannaðar þannig að þær henta vel rafbílum með aftanívagn en sífellt öflugri rafbílar sem eru í boði hafa fjölgað fólki sem þannig ferðast.

Með því að Baulan bætist við hleðslustöðvanet ON eru ekki nema 100 kílómetrar á milli hraðhleðslustöðva fyrirtækisins á hringveginum milli Reykjavíkur og Akureyrar. Stöðvarnar eru í Reykjavík, við Bauluna, í Víðigerði í Húnaþingi, Varmahlíð í Skagafirði og á Akureyri. Þá hentar stöðin við Bauluna þeim vel sem eru á leið á Vestfirði eða þaðan enda vegurinn um Bröttubrekku skammt undan.

Nákvæmar rauntímaupplýsingar um hleðslunet ON, hvar stöðvarnar eru og hvort þær eru í notkun, er að finna hérna á ON-vefnum og í appinu ON Hleðsla.

„Við erum alsæl að geta boðið rafbílaeigendum þessa auknu þjónustu og óskum þeim til hamingju með nýju stöðvarnar,“ segir  Kristján Már Atlason, forstöðumaður fyrirtækjamarkaða Orku náttúrunnar. „Við erum einbeitt í að byggja upp og reka trausta innviði fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi enda sýnir splunkuný skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsvána að ekki er vanþörf á,“ bætir Kristján Már við.

Baulan í Borgarfirði, sem rekin er undir merkjum Orkunnar, er kjörinn áningarstaður fyrir fjölskyldur á ferð en þar er að finna stóran, afgirtan útileikvöll auk hefðbundinnar þjónustu með girnilegum réttum á matseðli.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.