Fréttir
11. júní 2020

ON opnar nýja þrefalt afkastameiri hraðhleðslustöð við Miklubraut

ON hefur tekið í notkun nýjustu kynslóð hraðhleðslustöðva fyrirtækisins með 150 kW hleðslugetu. Stöðin er við fjölorkustöð Orkunnar við Miklubraut. Fjölorkustöð Orkunnar var opnuð í maí 2019 og verður þar hægt að fá alla endurnýjanlega orkugjafa sem framleiddir eru á Íslandi auk hefðbundins jarðefnaeldsneytis.

Á nýju hraðhleðslustöðvunum er hægt að hlaða tvo bíla í einu á sömu stöð. Ef tveir bílar hlaða samtímis deilist aflið og verður að hámarki 75kW á hvort tengi. Hámarkshleðslugeta er þó ólík eftir rafbílum. Bíllinn ræður alltaf hversu mikið afl hann tekur svo hleðsluhraði fer eftir hverjum bíl fyrir sig, stöðin gefur alltaf það sem bíllinn biður um hverju sinni.

Tíu 150 kW hraðhleðslustöðvar fyrirhugaðar í ár

„Við hjá ON höfum þegar pantað tíu 150 kW hraðhleðslustöðvar sem við stefnum á að setja upp á árinu 2020 og hafa nú tvær þeirra verið settar upp. Þessar nýju stöðvar eru í raun algjör bylting fyrir rafbílaeigendur því nú tekur enga stund að hlaða,“ segir Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets ON. Beðið er eftir afhendingu fleiri stöðva, en ljóst er að Covid 19 hafi sett strik í reikninginn hjá framleiðendum. Væntingar ON eru að klára uppsetningu á öllum 150 kW stöðvunum í sumar og haust víða um land.

Á sjötta tug hraðhleðslustöðva ON hringinn í kringum landið

Árið 2014 hóf ON uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þegar fyrsta hraðhleðslan var opnuð við Sævarhöfða í Reykjavík. Þessi uppbygging er liður í þeirri stefnu fyrirtækisins að vera í fararbroddi í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi.

ON rekur stærsta hraðhleðslunet landsins og eru stöðvarnar vel á sjötta tug talsins. Áhersla er lögð á að þétta og bæta hraðhleðslunetið til að þjóna rafbílaeigendum sem allra best.