Fréttir
25. ágúst 2020

Gönguleiðir ON á Hengilssvæðinu komnar í Wappið

Orka náttúrunnar og Wapp – Walking app hafa gert með sér samstarfssamning um birtingu göngu-, hjóla- og hlaupaleiða á Hengilssvæðinu í leiðsagnarappinu Wapp. Hengilssvæðið er fjalllendi milli Suðurlandsvegar og Þingvallavatns. Á svæðinu er flest það sem prýðir íslenska náttúru: áhugavert landslag, hvera- og gígasvæði, fjölbreytt gróðurfar, ár og stöðuvötn.

„Hengilssvæðið er einstakt svæði á landsvísu og við erum heppin að hafa það svona nálægt þéttbýlinu. Það er því frábært að vera í svona góðu samstarfi við ON varðandi hnitsetningu leiða svo fólk geti notið þess að fara um fjölbreytt landslagið á öruggan hátt“, segir Einar Skúlason, eigandi Wappsins.

Jarðhitinn á Hengilssvæðinu hefur nýst landsmönnum vel; til húshitunar og rafmagnsframleiðslu um áratugaskeið og nú í seinni tíð til enn frekari nýsköpunar og atvinnuþróunar. Hengilssvæðið er sannkölluð listasmíð af náttúrunnar hendi og kjörið til útivistar allan ársins hring. Orkuveitan og ON hafa lagt mikinn metnað í að búa í haginn fyrir útivistarfólk með neti merktra leiða, upplýsingatöflum, gönguskála og útgáfu gönguleiðakorts allt frá árinu 1990 þannig að allir geti notið þessa magnaða landslags. Orka náttúrunnar á það sem samfélagslega ábyrgð sína að útivistarfólk geti áfram notið Hengilsvæðisins með öruggum hætti og þessi rafræna útgáfa nokkurra leiða á svæðinu er þáttur í því.

Boðið verður upp á þrjár leiðir í Wappinu – mismunandi að lengd og erfiðleikastigi:

1. Milli virkjana: Fjallahlaupsleið með Vörðuskeggja

Þessa leið er hægt að ganga eða hlaupa. Hún liggur á milli Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar og fer um Sleggjubeinsskarð og Sleggju, upp fyrir gilið og svo er útúrdúr á Vörðuskeggja ef vill. Þaðan er farið niður í átt að Nesjavöllum og stikum fylgt undir Nesjaskyggni og um Ölfusvatnsskyggni og Stangarháls að Adrenalíngarðinum. Þetta er almennileg leið sem tekur á fyrir göngufólk og fjallahlaupara, ca 15 km.

2. Innstidalur

Þessa leið er bæði hægt að ganga og hlaupa og tilvalið að nýta hana sem gönguskíðaleið á veturna. Gengið er upp í Sleggjubeinsskarðið og þá opnast Innstidalur. Hann er tiltölulega flatur og breiður og grasi vaxinn enda var hann notaður sem beitiland fyrir nautgripi fyrr á öldum líkt og Marardalur. Gengið er þvert yfir dalinn að Hengladalsánni og hægt að ganga undir Stóra-Skarðsmýrarfjalli á leiðinni til baka og mynda þannig slaufu í dalnum. Gott er að taka með nesti og fá sér á leiðinni. Þetta er góð leið fyrir fjölskyldur með börn sem eru komin yfir 7-8 ára aldur. Vegalengd er ca 7-8 km.

3. Þjóðleiðin um Hellisheiði: Hellukofi

Leiðin yfir Hellisheiði var fjölfarnasti fjallvegur um aldir og er enn. Þessi gönguleið hefst rétt ofan Hellisskarðs skammt frá línuvegi. Gengið er eftir gömlu vörðuðu leiðinni að Hellukofanum, sem var hlaðinn á árunum 1830-40 og bjargaði víst mörgu mannslífinu áratugina á eftir þegar fólk komst þar í skjól í slæmu veðri. Gengin er sama leið til baka. Leiðin er fremur stutt eða innan við 3 km fram og til baka og nánast engin hækkun nema vegna hóla og hæða í hrauninu. Gengið er á gömlu þjóðleiðinni og gott að minna á að þjóðleiðir eru fornleifar og eina leiðin til að varðveita þær er að fara þær gangandi (og eftir atvikum ríðandi eða hjólandi) annars hverfa öll ummerki um þessar gömlu samgönguæðar. Þessi leið er stutt og passar því fyrir mjög breiðan hóp.

Þegar gönguappið er notað er leitast við að fjalla um fólk sem var á þessum slóðum fyrr á öldum, íbúa, þjóðsögur og annað sem getur gefið göngunni meira gildi fyrir notendur. Einnig verður fjallað um sitthvað í náttúru og umhverfi.

Þessar leiðir í Wappinu eru í boði Orku náttúrunnar og eru því endurgjaldslausar. Auðvelt er að finna leiðirnar með því að setja inn fyrstu þrjá stafina og smella á leit. Þegar leiðin er opnuð er smellt á „kort“ og á „já“ við spurningunni „Viltu kaupa þessa ferð?“ Leiðirnar eru með kortum, gps hnitum, ljósmyndum og upplýsingum á íslensku og ensku.

Um Wappið:

Wappið er stafrænn gagnagrunnur leiðarlýsinga á Íslandi sem er miðlað í gegnum app fyrir Iphone og Android snjallsíma. Smáforritið býður notendum upp á 300 mismunandi gönguleiðir og er hægt að nota það „offline“ með því að hlaða leiðinni niður á símann og svo er hún notuð óháð netsambandi. Tenging er við GPS-staðsetningarbúnað símans og til að auka öryggi er 112-appið að hluta til fléttað inn í Wappið. Hver og einn velur leiðir eftir sínu höfði enda eru bæði til léttar og erfiðar leiðir og allt þar á milli. Í Wappinu er að finna leiðarlýsingar um allt land, með GPS ferlum og ljósmyndum og er miðlað á ensku og íslensku til notenda. Leiðarlýsingum er hlaðið á símann og þær notaðar án þess að vera í netsambandi.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.