Vinnuslys á Hellisheiði

Maður skarst illa í andliti og fékk höfuðhögg við vinnu sína í Hellisheiðarvirkjun í morgun og var fluttur á sjúkrahús.

Nokkurt tjón varð á virkjuninni í óveðrinu um helgina. Rekstur hennar er þó í réttu horfi. Í óveðrinu um helgina mældist mestur meðalvindur á landinu á Skarðsmýrarfjalli, sem stendur ofan Hellisheiðarvirkjunar. Þar mældist 10 mínútna meðalvindstyrkur á laugardagsmorgun 44,4 metrar á sekúndu. Talsvert tjón varð þegar plötur utan á kæliturnum, sem standa við virkjunina, fóru að fjúka. Turnarnir eru sjö talsins og talið er að tjónið, sem er þó mismikið á þeim, hlaupi á milljónum króna.

Þegar unnið var að því að safna saman plötum og fergja þær nú í morgun, þegar líka blés hressilega við virkjunina, varð það slys að verktaki, sem vinnur fyrir Orku náttúrunnar, varð fyrir plötu sem hann var að vinna við, fékk hana í andlitið og vankaðist við höfuðhöggið. Hann var fluttur á slysadeild og mun vera í aðgerð vegna áverkanna.

Lögreglu var gert viðvart um slysið sem og Vinnueftirliti og af hálfu Orku náttúrunnar verður farið ítarlega yfir tildrög þess í því augnamiði að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig.

Generic Image
Nokkurt tjón varð á Hellisheiðarvirkjun í óveðrinu