Viljayfirlýsing um orkusölu til sólarkísilvers

Fulltrúar Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur og Silicor Materials hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á raforku til fyrirhugaðs sólarkísilvers.

Viljayfirlýsing um orkusölu til sólarkísilvers

Fulltrúar Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur og Silicor Materials hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á raforku til fyrirhugaðs sólarkísilvers bandaríska fyrirtækisins hér á landi. Yfirlýsingin nær til 35 megavatta rafafls. Afhending þess hefst árið 2016. Engin áform um byggingu nýrra virkjana fylgja samkomulaginu. Á næstu misserum renna út samningar um orkusölu til Landsvirkjunar sem Orkuveita Reykjavíkur gerði á árunum 1997 og 2000. Með viljayfirlýsingunni er áformað að ráðstafa þeirri orku til sólarkísilversins. Leiði viljayfirlýsingin til samnings hækkar það verð sem Orka náttúrunnar fær fyrir rafmagnið.

Umhverfisvæn framleiðsla

Sólarkísilframleiðsla þarf mikið rafmagn og er umhverfisvæn. Þannig þarf fyrirhuguð verksmiðja ekki að gangast undir mat á umhverfisáhrifum að mati Umhverfisstofnunar. Silicor Materials áformar að framleiða 16 þúsund tonn af sólarkísil á ári. Afurðin er meðal annars notuð til að framleiða rafala til rafmagnsvinnslu úr sólarljósi. Fyrirhuguð fjárfesting fyrirtækisins nemur um 77 milljörðum króna og gert er ráð fyrir að við hana skapist um 400 störf.

Sölusamningur að renna út

Orka náttúrunnar tók við virkjunum og raforkusölu Orkuveitu Reykjavíkur við stofnun fyrirtækisins um áramótin. Samningar sem Orkuveita Reykjavíkur gerði við Landsvirkjun um orkusölu frá Nesjavallavirkjun renna út í áföngum á næstu misserum. Með viljayfirlýsingunni vill Orka náttúrunnar tryggja sölu þeirrar orku sem þá losnar. Verði af samningum mun fyrirtækið fá hærra verð fyrir orkuna og draga úr áhættu með því að flutningskostnaður verður ekki hluti orkuverðsins í þeim samningi sem aðilar stefna að.

Generic Image
Hellisheiðarvirkjun upplýst