Hafa samband Netspjall

Almennir viðskiptaskilmálar Orku náttúrunnar ohf.

1. Gildissvið

Orka náttúrunnar („ON“) kt. 521213-0190, Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík, selur raforku í samræmi við raforkulög nr. 65/2003, reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1050/2004 með síðari breytingum. Orkustofnun fer með eftirlit með framkvæmd raforkulaga.

Hér á eftir fara almennir viðskiptaskilmálar ON, sem gilda skulu um öll viðskipta- og samningssambönd ON og viðskiptavina hennar, þá eru meðtaldir raforkusölusamningar, nema um annað sé sérstaklega samið. Viðskiptaskilmálar þessir teljast staðlaðir samningar skv. 4.mgr. 7gr. reglugerðar nr. 1050/2004. Viðskiptavinir ON samþykkja að með gerð raforkusölusamnings, hvort sem hann er gerður skriflega, munnlega eða með rafrænum hætti, þá gilda um hann þessir viðskiptaskilmálar. Greiðsla fyrsta raforkureiknings er ennfremur staðfesting á viðskiptasambandi og viðskiptaskilmálum þessum.

2. Skilgreiningar

Viðskiptavinur: Kaupandi, sem kaupir raforku um einn eða fleiri mæla.

Notkunarstaður: Staður þar sem dreifiveita afhendir raforku til kaupanda.

Mælibúnaður: Safnheiti yfir allan nauðsynlegan búnað til að mæla raforkunotkun.

Mælisnúmer: Sérstakt eigandanúmer raforkumælis eða raðnúmer á upplýsingaskildi mælis.

kW: Mælieining afls (kílóvatt) lýsir hve mikil orka streymir á hverri tímaeiningu.

Afltoppur: Mesta orkustreymi á tímaeiningu.

kWh: Orkueining rafmagns (kílóvattstund = 1.000 vött)

Ársnotkun: Fjöldi kWh sem notaðar eru á einu almanaksári.

Tímamæling: Stöðugt mæld raforkunotkun í tímaeiningum (60 mín).

3. Verð, greiðsluskilmálar, innheimta, vextir og stöðvun orkuafhendingar

Viðskiptavinur samþykkir með gerð raforkusölusamnings við ON að veita ON umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun hans frá viðkomandi dreifiveitu. Umboðið nær m.a. til upplýsinga um númer mælis/veitu, dreifiveitusvæði, heimilisfang, dreifiveitutaxta, áætlaða ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestur, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðul og stafafjölda mælis. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru notkunartölur afhentar allt að 24 mánuði aftur í tímann. ON er heimilt að áætla notkun hjá viðskiptavini ef hann hefur ekki verið áður í viðskiptum við ON. Verð fer eftir gildandi verðskrá ON hverju sinni, sé ekki um annað samið. Verðskráin er ávallt uppfærð og kynnt á vef ON og kemur einnig fram á reikningi ON til viðskiptavinar. Orkuverð innifelur eingöngu verð á söluhluta raforku. ON ber að innheimta skatta og gjöld skv. gildandi löggjöf hverju sinni. Viðskiptavinur skal greiða mánaðargjald skv. reikningi frá ON. Gjalddagi er 5. dagur þar næsta mánaðar eftir notkunarmánuð vegna fjarmældrar notkunar, en 5. dagur næsta mánaðar eftir notkunarmánuð vegna áætlunar og álesinnar notkunar. Dráttarvextir reiknast af viðskiptaskuldinni frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. ON innheimtir seðilgjald eða tilkynningar- og greiðslugjald vegna birtingar reikninga. Gjaldið er breytilegt eftir því hvort um er að ræða greiðsluseðla á pappír eða ekki. ON er heimilt að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar, með fulltingi dreifiveitu, ef viðskiptaskuldin lendir í vanskilum og almennar innheimtuaðgerðir seljanda bera ekki árangur þar til reikningur er að fullu greiddur.

Ef viðskiptavinur er, með gerð raforkusölusamnings við ON, að skipta um söluaðila raforku þá tekur samningurinn gildi í samræmi við 9. kafla Netmála Landsnets hf., sbr. B6 skilmálar um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn. Segir m.a. í skilmálunum að skeyti um skipti á sölufyrirtæki þurfi að berast dreifiveitu fyrir 1. dag mánaðar eigi skipti á sölufyrirtæki að taka gildi næstkomandi mánaðamót.

4. Uppsögn samnings

Nema um annað sé samið eru raforkusölusamningar ON og almennra notenda ótímabundnir. Báðum aðilum er heimilt að segja upp raforkusölusamningi. Uppsagnarfrestur er 30 dagar og hefst uppsagnarfrestur 1. dag næsta mánaðar frá skriflegri tilkynningu þar um.

5. Riftun

Greiði viðskiptavinur ekki reikning er ON heimilt, í kjölfar innheimtuaðgerða, að rifta raforkusölusamningi í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1050/2004.

6. Ábyrgðarreglur

Komi upp óviðráðanleg atvik „force majeure“, er hvorum samningsaðila heimilað að fresta skyldum sínum skv. samningi þessum meðan það ástand varir. Með „force majeure“ atvikum er almennt átt við aðstæður sem hvorugur aðila gat séð fyrir og sem hafa bein áhrif á efndir samnings þessa. Að öðru leyti fer um þetta efni samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um efndir loforða og samninga.

Samningsaðili sem bera vill fyrir sig óviðráðanleg atvik samkvæmt þessari grein hefur sönnunarbyrði um tilvist slíkra óviðráðanlegra atvika. Skal sá aðili tilkynna gagnaðila þar um, með sannanlegum hætti, og leggja fram nauðsynleg gögn um tilvist, efni og tímalengd slíkra atvika ef gagnaðili krefst þess.

7. Nýr notandi

ON áskilur sér rétt til að synja nýjum aðila, eða nýjum notkunarstað núverandi viðskiptavinar, um afhendingu á raforku vegna m.a. fyrri vanskila, stöðu á vanskilaskrá, úrskurðar um gjaldþrot eða að notkunarferill hans er þess eðlis að ON er erfitt um vik að afhenda umbeðið magn af orku til hans.

8. Breytingar á viðskiptaskilmálum

ON áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum. Breytingar á viðskiptaskilmálum taka gildi frá birtingu þeirra á heimasíðu ON.

9. Framsal

Réttindi og skyldur samkvæmt viðskiptaskilmálum þessum getur viðskiptavinur ekki framselt, flutt eða falið öðrum án samþykkis ON og sérhvert meint framsal eða flutningur án slíks samþykkis er ógilt með öllu. ON skal ekki með ósanngjörnum hætti synja um slíkt samþykki eða draga að taka afstöðu til beiðnar um slíkt samþykki. ON er heimilt að framselja réttindi og skyldur skv. samningi þessum til félags innan sömu samstæðu.

10. Lausn ágreiningsmála

Komi upp ágreiningur út af viðskiptaskilmálum þessum skulu aðilar leitast við að leysa hann í sátt. Rísi mál út af viðskiptaskilmálum þessum skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

11. Gildistaka

Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi frá og með 1. júní 2017.