Vetrarstillur juku styrk brennisteinsvetnis í byggð

Föstudaginn 8. desember fór sólarhringsmeðaltal brennisteinsvetnis yfir umhverfismörk í Hveragerði. Mörkin eru við 50 míkrógrömm á rúmmetra að jafnaði í sólarhring. Mælt er meðaltal undangenginna 24 klukkustunda og var það gildi yfir 50 míkrógrömmum í 16 klukkustundir. Hæsta 24-stunda meðaltalið var 59,3 míkrógrömm í rúmmetra.

Á föstudaginn var frost og norðvestan gola sem stóð af virkjanasvæðinu yfir Hellisheiðina og Hengilinn að Hveragerði. Hitahvörf í lofti komu í veg fyrir dreifingu brennisteinsvetnisins með gufunni og þyngd brennisteinsvetnisins gerir að verkum að slæðist með jörðu.

Á laugardagsmorguninn, 9. desember, gerði austan golu í frostinu og við það barst brennisteinsvetni frá virkjununum á Hellisheiði og á Nesjavöllum með yfirborði í áttina að höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna mældist líka aukinn styrkur þar þó hann hafi ekki farið yfir umhverfismörk. Í mælistöðinni í Norðlingaholti fór sólarhringsmeðaltalið um helgina hæst í 48 míkrógrömm á rúmmetra.

Nánari upplýsingar um brennisteinsvetni tengt jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu, þar á meðal um árangur af niðurdælingu þess í jarðlög, eru hér á vefnum.

Borholuhús
Borholuhús