Verkefni

Við erum almennt miklar félagsverur

Viðar Einarsson, verkstjóri götuljósa og hlaða

Þegar neyðarstigi var lýst yfir á landinu og allt skrifstofufólk flutti sína starfsemi heim í stofu ákváðum við hjá ON að ég mundi einn mæta á verkstæði götuljósanna ásamt tveimur verkstæðisstarfsmönnum. Við sinnum okkar þjónustu á sex bílum þar sem tveir og tveir eru saman í bíl. Venjulega rótera menn á milli bíla en nú voru allir skikkaðir með fastan félaga og bannað að hitta aðra í teyminu.

Við erum almennt miklar félagsverur svo það hefur reynt töluvert á mig og teymið að halda mönnum í sundur og banna þeim að hittast. Strákarnir hafa því þurft að húka í bílunum allan daginn án þess að koma á okkar bækistöð. Svo ef upp hafa komið veikindi eða menn þurft að vera heima vegna lokunar skóla hjá börnum hefur vinnufélaginn á bílnum þurft að vera einn þann daginn – þetta hefur tekið á.

Þessa dagana er ég einstaka sinnum með hundinn Tinna með mér í vinnunni til að okkur leiðist ekki en Tinni er þjálfaður leitarhundur og getur fundið týnt fólk á víðavangi, í húsarústum eða í snjóflóðum. Þegar einhver þarf á okkur að halda stökkvum við af stað með Hjálparsveit skáta í Garðabæ.

Ég er búinn að starfa hjá ON síðan 2006 eða í 14 ár. Ég er rafvirki en lærði iðnfræði í Danmörku og bjó þar þegar ég sá auglýst starf hjá virkjunum OR um það leyti sem Hellisheiðarvirkjun var gangsett. Ég var fyrst um sinn í vaktmannahópi Nesjavallavirkjunar en síðar voru vaktmannahópar allra virkjana ON sameinaðir og ég starfaði því einnig í Andakílsárvirkjun, Elliðaárstöðvar auk Nesjavalla og Hellisheiðar. Svo fór ég í ýmis dagvinnustörf hjá virkjunum m.a. sem staðgengill tæknistjóra rafbúnaðar en síðustu tvö ár hef ég verið verkstjóri í götuljósateymi ON sem er 15 manna flokkur.

Götuljósateymið sér um viðhald á öllum 55 þúsund götuljósum höfuðborgarsvæðisins auk Akraness. Þetta eru ljósastaurar frá 4 metra hæð á hjóla- og göngustígum upp í 22 metra há möstur á hafnarsvæðum og íþróttavöllum og allt þar á milli. Svo sinnum við viðhaldi á allskonar ljósapollum, ljósum í trjábeðum og skrautljósum sem aðallega eru í miðbæjum sveitarfélaganna.

Einnig sjáum við um viðgerð á götuljósastrengjum sem óvart eru grafnir í sundur við framkvæmdir. Við endurnýjum einnig staura, til dæmis alla staura sem eknir eru niður eða verða fyrir tjóni. Þeir eru nokkuð margir, en að meðaltali er ekið á einn staur á dag allan ársins hring, yfir 350 tjón.

Undanfarin misseri höfum við tekið þátt í því með sveitarfélögunum að skipta gömlum götuljósum út fyrir ný LED ljós – þetta hafa verið 2-3000 lampar á ári.

Það jákvæða sem ég sé í þessu ástandi er aukin notkun á ýmiskonar samskiptaforritum á fjarfundum. Þetta er eitthvað sem ég held að við eigum eftir að halda áfram að tileinka okkur.

Eftir að hafa staðið í ströngu við að stía mönnum í sundur og reka menn út úr húsi, held ég að ég bjóði uppá stórt hópknús fyrir þá sem vilja og svo verði haldið gott partý.