Verkefni

Kolefnisspor

Hvað eru kolefnisspor og af hverju skipta þau máli?

Kolefnisspor vöru og þjónustu segja okkur hversu mikill útblástur gróðurhúsalofttegunda fylgir framleiðslu og notkun þeirra. Kolefnisspor orkuframleiðslu er yfirleitt mælt í losun á koltvísýringsígildum á framleidda orkueiningu, eða sem grömm af CO2 á hverja kílówattstund raforku og varma.

Því minna sem kolefnissporið er, því minni áhrif hefur varan eða þjónustan á loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar.

Kolefnislosun frá orkuframleiðslu

Kolefnisspor orkuframleiðslu er einn mesti áhrifaþáttur í hlýnun jarðar í heiminum í dag. Þjóðir heims standa frammi fyrir gríðarlega viðfangsmiklu verkefni að stórminnka notkun á jarðefnaeldsneyti til orkuframleiðslu, en nýta þess í stað endurnýjanlegar orkulindir til að svala orkuþörf sinni.

Samkvæmt skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) mátti rekja um 35% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda af mannanna völdum á árinu 2010 til framleiðslu á raforku og varma til húshitunar.

Ísland hins vegar býr við þau miklu auðæfi að geta séð íbúum og atvinnulífi fyrir umhverfisvænni orku frá endurnýjanlegum náttúruauðlindum líkt og vatnsafli og jarðhita. Orkuframleiðsla á Íslandi hefur því hvað lægsta kolefnisspor sem þekkist í heiminum.

Hvernig reikna ég út kolefnisspor?

Það getur reynst snúið að reikna út nákvæmt kolefnisspor en öll erum við að verða meira meðvituð um mikilvægi þess og samfélagið kallar sífellt á betri upplýsingagjöf. Ýmis fyrirtæki, félagasamtök og/eða rannsóknasetur hafa lagt sitt af mörkum til að reyna að auðvelda útreikninga og bjóða uppá einskonar kolefnisreiknivélar sem eru aðgengilegar almenningi. Reiknivélarnar geta sýnt hvernig daglegar athafnir svo sem ferðalög, matarval og rafmagnsnotkun geta haft áhrif á kolefnissporið okkar.

Árið 2017 losaði Orka náttúrunnar 7,5 gr CO2 eq/kWh. Ef þú ert í viðskiptum við ON geturðu farið inn á Mínar síður, fundið út þína ársnotkun á kWh og margfaldað þá tölu með 7,5. Þá ættir þú að vera komin með þitt kolefnisspor vegna rafmagnsnotkunar árið 2017.

ON, ásamt Orkuveitusamstæðunni, skrifaði undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í nóvember 2015 ásamt 104 fyrirtækjum sem sammæltust um að taka skýra afstöðu í umhverfismálum og setja sér markmið.

Við hjá Orku náttúrunnar höfum sett okkur metnaðarfull markmið við minnkun á kolefnisspori. Okkar ávinningur verður þinn ávinningur og allir græða.

Hvernig er kolefnisspor ON reiknað?

ON fylgir aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol við útreikning á kolefnisspori sínu. Í þeirri aðferðafræði er útreikningur á kolefnislosun fyrirtækja útvíkkaður til þess að ná til allrar þeirrar starfsemi sem rekstri fyrirtækisins fylgir. Þannig fást niðurstöður fyrir bæði beina og óbeina losun vegna starfsemi fyrirtækisins. Aðferðafræðin er útskýrð á myndinni hér að neðan.

Útblástur gróðurhúsalofttegunda sem hlýst beint af starfseminni vegna framleiðsluferla eða farartækja er reiknaður undir flokknum „Umfang 1“. Þar á eftir er losun vegna raf- og varmaorkunotkunar fyrirtækisins reiknuð undir „Umfangi 2“, þar sem oft erlendis fylgir orkunotkun mikil losun gróðurhúsalofttegunda. Í „Umfangi 3“ er síðan tekinn með útblástur sem hlýst af ýmissi nátengdri starfsemi við fyrirtækið, svo sem vegna flugferða, samgangna starfsmanna í og úr vinnu, urðunar á úrgangi frá starfseminni, og fleira.

Greenhouse gas protocol

Greenhouse gas protocol

Lækkandi kolefnisspor

99,6% af kolefnisspori ON árið 2017 (bein og óbein losun) kom frá jarðhitalofttegundum. Afgangurinn kom frá bílaflota (0,2%), flugferðum (0,1%) og urðun úrgangs (0,1%).

Hvar erum við og hvert stefnum við?

Orka náttúrunnar, ásamt Orkuveitusamstæðunni skrifaði undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í nóvember 2015 ásamt 104 fyrirtækjum sem sammæltust um að taka skýra afstöðu í umhverfismálum og setja sér markmið um að:

  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
  • Minnka myndun úrgangs
  • Mæla árangurinn og upplýsa

Markmið ON er að verða kolefnishlutlaust fyrir 2030 með eftirfarandi aðgerðum:

  • Hagnýting jarðhitalofttegunda
  • Binding í bergi
  • Landgræðsla og skógrækt
  • Bætt orkunýting
  • Vistvænn bílafloti
  • Boranir með raforku í stað díselolíu
  • Auka endurvinnslu og minnka úrgang
  • Sameiginlegar aðgerðir Orkuveitusamstæðunnar