Upprunavottað rafmagn frá Orku náttúrunnar

Orka náttúrunnar hefur ákveðið að upprunaábyrgðir fylgi allri raforkusölu fyrirtækisins á almennum markaði frá síðustu áramótum. Jafnframt mun fyrirtækið verja öllum tekjum af sölu upprunaábyrgða vegna raforkusölu til stórnotenda til verkefna fyrirtækisins sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofts.

Hvað eru upprunaábyrgðir?

Upprunaábyrgðir rafmagns eru birtingarmynd viðskiptakerfis sem Evrópuríki komu á fót til að hvetja til aukinnar vinnslu á rafmagni úr auðlindum sem endurnýja sig. Undir það falla vatnsafl og jarðhiti. Þau fyrirtæki sem vinna grænt rafmagn geta þannig selt upprunaábyrgðir með rafmagninu eða selt ábyrgðirnar einar og sér þeim kaupendum sem vilja nota upprunavottað rafmagn en eiga ekki kost á slíkri vinnslu. Með þessu hefur orðið til markaður fyrir upprunaábyrgðir.

ON framleiðir alla sína raforku úr jarðhita og vatnsafli og hefur haft nokkrar tekjur af sölu upprunaábyrgða á erlendum mörkuðum. Því hefur fylgt að í umhverfisbókhaldið færist á móti sölunni samsetning orkuvinnslunnar í Evrópu á hverjum tíma. Þannig hefur til dæmis sést kjarnorka á rafmagnsreikningum almennings þótt slík raforka sé ekki unnin hér á landi.

Með ákvörðun ON hverfur jarðefnaeldsneyti og kjarnorka af rafmagnsreikningum almennra viðskiptavina. Uppruni raforku á reikningum ON sem birtast viðskiptavinum á næsta ári verður því alfarið endurnýjanleg orka. Þær upplýsingar sem birtast á raforkureikningum ON á næstu dögum miðast við sölu ON og annarra á upprunaábyrgðum árið 2016 og taka ekki mið af þessari ákvörðun.

Rafbílavæðing og kolefnisbinding

ON er leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsbíla sem fjölgar óðum. Fyrirtækið hefur þegar sett upp 16 hlöður fyrir rafbíla víðsvegar um land og ætlar að varða allan hringveginn með slíkum hlöðum. Þá er við Hellisheiðarvirkjun unnið mikið brautryðjendastarf í bindingu koltvíoxíðs og brennisteinsvetnis í hraunlögum við virkjunina í verkefnum sem kölluð eru „Gas í grjót.“ Í ákvörðun ON um upprunaábyrgðir felst að tekjum af sölu upprunaábyrgða vegna raforkusölu til stórnotenda og annarri heildsölu verður varið í þessi verkefni, sem bæði miða að því að draga úr gróðurhúsaáhrifum.

Nokkrar tölur:

Raforkuöflun ON 2016:

  • Eigin vinnsla (nettó) 3,1 TWst.
  • Kaup af öðrum 0,6 TWst.

Raforkusala ON:

  • Til fyrirtækja og heimila á almennum markaði: 30%
  • Til stórnotenda og í heildsölu: 70%

Nettótekjur ON af sölu upprunaábyrgða 2016: 60 mkr.

Hlöður ON með hraðhleðslum fyrir rafbíla: 16 og fer fjölgandi.

Kolefnisbinding við Hellisheiðarvirkjun 2016: 6.400 tonn

Binding brennisteinsvetnis við Hellisheiðarvirkjun 2016: 3.900 tonn. Afköst voru tvöfölduð um mitt ár 2016.

hellisheidarvirkjun
Hellisheiðarvirkjun