MosiMosi

Hvað getum við gert fyrir umhverfið?

Við erum öll hluti af náttúrunni. Framtíð barnanna okkar ræðst af því hvernig við umgöngumst hana. Hvað höfum við gert og hvað getum við gert til að auka lífsgæði komandi kynslóða í stað þess að takmarka þau?

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru á allra vörum en það getur virst óyfirstíganlegt að finna lausnir á vandanum sem blasir við. Það er því hvetjandi að hugsa til þess að ein af lausnunum er rétt við bæjardyrnar, þróuð af íslensku vísindafólki.

Ein af þeim gróðurhúsalofttegundum sem losnar út í andrúmsloftið í miklu magni hér á landi er koltvísýringur og þá helst vegna samgangna, iðnaðar og eldfjalla. Þessi lofttegund er helsta orsök hlýnunar jarðar og hefur Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hvatt til aukinna aðgerða til að fanga koltvísýring og farga því. Um einmitt það snýst Carbfix verkefnið við jarðhitavirkjunina á Hellisheiði.

CarbFix verkefnið

Gas í grjót

CarbFix verkefnið hefur verið í vinnslu í rúm tólf ár hjá hópi vísindamanna undir forystu Orkuveitu Reykjavíkur í samstarfi við Orku náttúrunnar og Veitur. Verkefnið snýr að þróun og prófun þeirrar hugmyndar að hægt sé að taka koltvísýring sem kemur upp með jarðhitavökva, blanda því við vatn og dæla aftur niður í jörðina, þaðan sem það kom. Þar breytist það í stein. Þessu fylgja verulega jákvæð umhverfisáhrif og er CarbFix verkefnið mikilvægur þáttur í markmiði ON að verða kolefnishlutlaust fyrir árið 2030.

Verkefnið hefur gengið vonum framar og vakið mikla athygli, bæði innan og utan landsteinanna. Um 400 alþjóðlegir fjölmiðlar hafa fjallað um verkefnið, þar á meðal BBC, New York Times og Reuters. Það ætti reyndar engan að undra þessi alþjóðlegi áhugi því í þessari byltingarkenndu aðferð felast verulegir möguleikar til framtíðar, ekki aðeins fyrir ON, heldur einnig önnur jarðhitafyrirtæki, iðnað á Íslandi og annarsstaðar í heiminum.

Við hjá ON viljum vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, eða loftslagshamförum, eins og stöðugt fleiri kalla þær, og CarbFix verkefnið er þar mikilvægt innlegg. Grundvöllur verkefna sem þessa er stöðugt samtal og stuðningur frá öllum viðskiptavinum okkar. Við hjá ON erum stolt af þessu verkefni og munum við halda ótrauð áfram í leit lausna fyrir framtíð umhverfis okkar.

Hvað getum við gert?

  • Við getum hugsað vel um auðlindirnar og sýnt landinu virðingu
  • Við getum lagað fótsporin og grætt upp landið
  • Við getum breytt mengandi efnum í verðmæti
  • Við breytum gasi í grjót í stað þess að hleypa því út í andrúmsloftið
  • Við minnkum kolefnissporið verulega um leið og við aukum möguleika fólks til að nýta vistvæna orku

Allt skiptir þetta máli. Lítið spor á Íslandi er stórt skref fyrir mannkynið. Stígum varlega til jarðar.

 

CarbFix styrkverkefnin hafa hlotið styrki frá Evrópusambandinu í rannsókna- og nýsköpunaráætlununum FP7 og Horizon 2020 undir verkefnanúmerunum: 283148, 317235, 764760, 764810 and 818169.