HengillinnHengillinn

Virkjanirnar okkar

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn til allra landsmanna, auk þess að framleiða heitt vatn sem selt er til Veitna.

Við erum leiðandi í umhverfisvænum orkuskiptum á Íslandi og nýsköpun í nýtingu auðlindastrauma.

  • Vélasalur í virkjunVið höfum náð metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum og stefnum á að gera enn betur og viljum nýta auðlindir af ábyrgð og nærgætni til að bæta lífsgæði í nútíð og framtíð, okkur öllum til heilla.
  • Við erum leiðandi í landgræðslu og við allar framkvæmdir þá höldum við til haga gróðurþekjunni og nýtum hana til að endurheimta gróðurlendi. Við höfum þróað og nýtt óhefðbundnar aðferðir í landgræðslu, til að mynda þá notum við mosa blandaðan við súrmjólk til að endurheimta mosaþembur.
  • Við erum frumkvöðlar í að þróa lausnir til að minnka losun jarðhitalofttegunda og höfum þróað svokallaða Carbfix aðferð til að hreinsa og dæla niður koltvísýringi og brennisteinsvetni í jarðhitageyminn uppleystu í jarðhitavatni. Í jarðhitageyminum bindast lofttegundirnar við bergið og mynda silfurberg og glópagull. Þetta er aðferð sem nýst getur til að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti og hefur vakið heimsathygli og er mikilvægt skref í að minnka kolefnisspor okkar.
  • Við höfum einnig þróað og byggt upp einstakt vélaverkstæði þar sem viðgerðir á búnaði virkjunarinnar eru gerðar með gæðum á heimsmælikvarða.

Orkan okkar

Jarðhitavirkjanir okkar á Nesjavöllum og Hellisheiði voru byggðar til að mæta auknum þörfum á heitu vatni í samfélaginu. Á virkjanasvæðum okkar eru um 1000-3300 metra djúpar borholur og frá þeim berst vatnsblönduð gufa sem leidd eftir safnæðum í skiljustöð þar sem vatnið er skilið frá gufunni. Vatnið fer í varmastöð og er notað til að hita upp grunnvatn til hitaveitu. Við framleiðum um 50 % af öllu heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu sem meðal annars er notað til húshitunar og í sundlaugar. Hugsaðu um okkur næst þegar þú ferð í sund eða sturtu.

Til þess að nýta auðlindir okkar sem best er gufan þar að auki leidd að gufuhverflum þar sem raforkuframleiðsla fer fram. Rafmagnið okkar er framleitt á sjálfbæran hátt og er kolefnisspor þess með því lægsta sem gerist í heiminum.

Í vatnsaflsvirkjuninni okkar í Andakílsá er vatnsafl nýtt til að framleiða rafmagn.

Hellisheiðarvirkjun

Þrjár virkjanir

Orka náttúrunnar á og rekur þrjár virkjanir sem okkur þykir mjög vænt um. Þær eru jarðhitavirkjanirnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjunin í Andakíl, Borgarfirði.

Hellisheiðarvirkjun

Hellisheiðarvirkjun er staðsett sunnan við Hengilinn og framleiðir heitt vatn og rafmagn. Virkjunin var gangsett árið 2006 og er uppsett afl 200 MW í varmaafli og 303 MW í rafmagni. Í lítrum talið er þetta um 950 lítrar á sekúndu. Allt umfram jarðhitavatnið rennur að jafnaði í niðurrennsliskerfi niður fyrir grunnvatnskerfi í jarðhitageyminn. Lofthreinsistöð er staðsett við virkjunina sem að nýtir Carbfix aðferðina til að hreinsa um 75% af brennisteinsvetni og um 30% af koltvísýringi sem að leyst eru upp í jarðhitavatni og veitt í niðurrennsliskerfi.

Nesjavallavirkjun

Nesjavallavirkjun sem staðsett er norðan við Hengilinn framleiðir heitt vatn og rafmagn. Hún getur framleitt allt að 300 MW í varmaorku sem eru um 1.640 l/sek af heitu vatni og allt að 120 MW af rafmagni. Hluti af afgangs jarðhitavatni frá virkjuninni fer í niðurrennslisholur og stöðugt er unnið að stækkun niðurrennslisveitu. Verið er að prófa djúpa niðurdælingu á jarðhitavatni til að undirbúa tilraunaniðurdælingu á koltvísýring og brennisteinsvetni.

Andakílsárvirkjun

Andakílsárvirkjun í Borgarfirði hóf rekstur árið 1947. Virkjunin leysti af hólmi vélknúnar rafstöðvar sem notaðar höfðu verið bæði á Akranesi og í Borgarnesi og nálægu dreifbýli og var því mikil umhverfisbót. Heildarframleiðslugeta virkjunarinnar er 8 MW. Í rekstri virkjunarinnar er tekið verulegt tillit til vatnshæðar í Skorradalsvatni og rennslis í Andakílsá í þeim tilgangi að hlúa sem best að Skorradalsvatni sem náttúrusvæðis og Andakílsá sem veiðiá.