Trausti tekur við virkjanarekstri ON

Trausti Björgvinsson hefur verið ráðinn forstöðumaður virkjanareksturs ON. Trausti kemur með 10 ára reynslu úr danska orkufyrirtækinu Dong Energy sem meðal annars er brautryðjandi innan vindorkubransans á alþjóðavettvangi.

Trausti byrjaði feril sinn í raf- og varmaorkuverum Dong Energy árið 2007 sem verkfræðingur og síðar meir sem verkefnisstjóri og hefur síðan 2010 unnið að vindorkuverkefnum fyrirtækisins. Síðastliðin þrjú ár hefur Trausti haft veigamikið hlutverk sem leiðtogi teymis sem náð hefur metnaðarfullum markmiðum á sviði kapallagninga fyrir vindmyllugarða fyrirtækisins.

Trausti lauk meistaraprófi í rafmagnsverkfræði frá DTU árið 2007 og bætti við sig gráðu í viðskiptum og stjórnun frá sama skóla árið 2013. Hann er 38 ára gamall Akureyringur sem flutti utan um aldamótin til náms og fór síðan beint til starfa hjá Dong Energy. Trausti er kvæntur og á fjögur börn. Hann hefur störf á næstu vikum en fjölskyldan flyst heim síðsumars.

ON rekur tvær jarðgufuvirkjanir – á Hellisheiði og Nesjavöllum – og vatnsaflsvirkjun í Andakíl í Borgarfirði. Jarðgufuvirkjanir leggja til rúman helming heita vatnsins í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu og vinna rafmagn fyrir almennan markað og stórnotendur. 

Trausti
Trausti Björgvinisson