Tíunda hraðhleðslustöðin opnuð á Akranesi

„Það er snilld að eiga rafmagnsbíl“ segir Jóhanna Líndal Jónsdóttir um rafbílinn sinn en hún og Ari Grétar Björnsson maðurinn hennar voru fyrst til að sækja sér hleðslu í nýja hraðhleðslustöð sem ON hefur sett upp í samstarfi við Akraneskaupstað og Krónuna við Dalbraut 1 á Akranesi. Stöðin er sú tíunda sem ON setur upp.

Ari og Jóhanna fengu sér rafbíl nú í vor. Ari segir hann henta vel í snattið sem hann sinnir í sinni vinnu á Akranesi og í höfuðstaðnum. Hann hefur nýtt sér hraðhleðslustöðvar ON í Reykjavík en oftast hleður hann bílinn heima. „Ég hélt það væri meira vesen að hlaða,“ segir Ari en helsta ástæða þess að þau skiptu yfir í rafmagn var eldsneytiskostnaðurinn. „Það er auðvelt og þægilegt að eiga rafbíl,“ bætir hann við. „Hann er umfram allt umhverfisvænn, hljóðlátur og kemur það sér vel þegar verið er á ferðinni í íbúðarhverfum að næturlagi eins og ég geri í minni vinnu,“ segir Ari, en eitt af verkefnum hans er að koma Morgunblaðinu til blaðbera á Akranesi í rauðabítið á morgnana.

Út í hött að nota jarðefnaeldsneyti

ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir aukna rafvæðingu samgangna hér á landi. Fjölgun rafbíla er einmitt eitt helsta sóknarfæri Íslendinga í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kom fram á málþingi sem haldið var hér á dögunum. Þetta ræðst af því að útblástur vegna orkuframleiðslu hér er lítill en hann er helsti vandi flestra annarra þjóða. Sóknarfærin eru þó fyrir hendi. Halldór Þorgeirsson, yfirmaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, lét þau orð falla á þinginu að honum fyndist „... það bara gjörsamlega út í hött að við séum að nota jarðefnaeldsneyti til að fara frá einum stað til annars á þessari eyju.“

Mikilvægt fyrir íbúa á Akranesi

„Það er frábært að fá þessa stöð hér í bæinn. Rafmagnsbílum fjölgar hratt og það er mikilvægt að íbúum hér á Akranesi standi til boða að hlaða bílana sína í hraðhleðslu þegar þeir þurfa á að halda. Ég lít svo á að þetta séu í raun nauðsynlegir innviðir fyrir skynsamlegri samgöngumáta og skemmtilegt að fyrirtæki sem að hluta er í okkar eigu standi fyrir þessu fína framtaki,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á Akranesi.

10. hraðhleðslustöðin og rafbílum fjölgar sífellt

Þetta er tíunda stöðin sem ON setur upp á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, viðIKEA í Garðabæ, í Borgarnesi, á Selfossi og við Fríkirkjuveg. Rafbílum er sífellt að fjölga hér á landi. Um áramótin var fjöldi þeirra kominn yfir 300 og samkvæmt upplýsingum frá umboðum hafa tugir bæst við á fyrstu mánuðum ársins 2015. Rekstur rafbíla sparar peninga og minnkar útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél sem ber orkukostnað rafbíla saman við orkukostnað annarra bifreiða. Reiknivélin segir jafnframt til um hverju munar í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima hjá sér eða á vinnustað sínum. Til að stuðla að öruggum frágangi hleðslubúnaðar hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

 

Frá vinstri :Þórarinn Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs Festi, Einar Brandsson, formanni skipulags-og umhverfisráðs Akraness, Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON, Brynjar Stefánsson, sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs ON, Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, Lilja Petra og Ari Grétar Björnsson rafbílaeigandi

Ari Grétar Björnsson og Lilja Petra Líndal Aradóttir opna stöðina formlega fyrir okkur
Ari Grétar Björnsson og Lilja Petra Líndal Aradóttir opnuðu stöðina formlega fyrir okkur