Tilraunin gengið vel

Tveggja ára tilraunaverkefni Orku náttúrunnar í rekstri hraðhleðslustöðva fer að ljúka. Verkefnið hefur gengið vel og hefur verið ákveðið að halda áfram að bjóða upp á þessa þjónustu. Á tilraunatímanum hefur ekki verið rukkað fyrir þjónustuna en það breytist á næsta ári.

ON vill leggja sitt af mörkum í orkuskiptum í samgöngum og var markmiðið með hraðhleðslustöðvunum að ýta undir fjölgun rafbíla á Íslandi. Á þessu tímabili hefur hefur rafbílum fjölgað úr um það bil 50 í um það bil 1.000. Verkefninu hefur verið vel tekið og hlaut það meðal annars Umhverfisverðlaun atvinnulífsins árið 2015.

ON hefur aflað sér mikilvægrar reynslu í rekstri stöðvanna meðan á tilrauninni hefur staðið og nú er unnið að því að koma upp greiðslukerfi sem ráðgert er að taka í notkun á næsta ári. Það verður kynnt ítarlega áður en því verður hleypt af stokkunum. Áhersla verður lögð á að það verði þjált og einfalt í notkun fyrir alla eigendur rafbíla. Verðið á þjónustunni hefur ekki verið ákveðið en það verður kynnt um leið og nánara fyrirkomulag liggur fyrir.

Fréttastofa RÚV fjallaði um verkefnið þriðjudaginn 30. ágúst síðastliðinn.

Hér er tengill á umfjöllun RÚV

Hér er tengill á nánari upplýsingar um hraðhleðslustöðvarnar á vef ON

Generic Image
Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála ON