Þrjár Orkur taka höndum saman í orkuskiptunum

Í dag opnaði Orkan tvær afgreiðslustöðvar fyrir vetnisbifreiðar. Önnur stöðin er staðsett að Vesturlandsvegi, Reykjavík, og hin að Fitjum, Reykjanesbæ. Þriðja stöðin verður opnuð um næstu áramót. ON mun framleiða það vetni sem Orkan mun selja, við jarðvarmavirkjun sína á Hellisheiði.

Vetni sem orkuberi

Engum hefur dulist sú aukna áhersla sem lögð verið hefur á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum, svo sem vind-, vatns- og sólarorku. Þar sem framleiðslutíma og -getu þessara orkugjafa verður ekki að öllu stjórnað af manninum og nýting orkunnar fer ekki að öllu saman við framleiðslutímann skapast gífurleg þörf fyrir geymslu raforku. Sérfræðingar hafa komist að raun um að heppilegast sé að geyma hana í formi vetnis. Vetnið má síðan nota beint til þess að knýja bifreiðar. Vetnið býr þannig til tækifæri til nýtingar endurnýjanlegrar orku sem ella hefði getað farið til spillis, til að knýja bifreiðar. Með þessum hætti verður nýting auðlindanna betri en ella.

Vetnisknúnir rafbílar

Það eru margir kostir við vetnisknúna rafbíla. Fyrir það fyrsta stafar engin mengun af notkun þeirra. Eini úrgangurinn sem þeir skila út um púströrið er hreint vatn. Þá er drægi slíkra bíla mikið lengra en drægi flestra annarra rafbíla, þ.e. 5-600 km.

Vetnisknúnir rafbílar eru jafnframt góður kostur fyrir þá sem ekki hafa tækifæri til þess að hlaða bílana sína. Fyllt er á bílana á Orkustöðvum á sama hátt og fyllt er á dísil- og bensínbíla og tekur áfyllingin einungis 3-5 mínútur. Öll umgjörð í kringum slíkan bíl er því sambærileg því að eiga dísil- eða bensínbíl, nema hvað bíllinn mengar ekkert. Í raun skilja bifreiðarnar eftir sig jákvætt fótspor, þar sem þær taka inn á sig loft, sía það og skila því hreinna út en áður. Einnig bindur það vatn er bifreiðin skilar af sér ryk og dregur þannig úr rykmengun.

Á meðal þeirra sem þegar hafa tryggt sér vetnisknúinn rafbíl eru Veitur, Orkuveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar, Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Reykjavíkurborg, Keilir, HS Veitur, Landsvirkjun og Skeljungur.

Strætó bs. vinnur jafnframt að því að kaupa vetnisknúna rafstrætisvagna, sem stefnt er að því að verði komnir í umferð í kringum árslok 2019.

Orkuríkt samstarf

Opnun vetnisstöðvanna á Íslandi er þáttur í verkefni á vegum Evrópusambandsins er nefnist H2ME-2. Verkefni er styrkt af Fuel Cells and Hydrogen Joint Undertaking í samræmi við styrktarsamkomulag nr. 700350. Rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins Horizon 2020, Hydrogen Europe og Hydrogen Europe Research standa jafnframt að verkefninu.

Verkefnið hefur það að markmiði að koma á fót innviðum fyrir rafknúnar vetnisbifreiðar um Evrópu. Þegar má í dag aka slíkri bifreið frá Bergen í Noregi niður til Rómar á Ítalíu. Þá er jafnframt markmið verkefnisins að auka framboð á rafknúnum vetnisbifreiðum og eru ýmsir bílaframleiðendur þátttakendur í verkefninu.

Íslensk nýOrka hefur rutt veginn í orkuskiptum síðustu ár og áratugi, m.a. með aðkomu sinni að verkefnum í tengslum við rafgeymabíla, metanbíla og tengiltvinnbíla. NýOrka átti frumkvæðið og hefur verið ómetanlegur stuðningur við það að koma þeim vetnisstöðvum sem nú verðar opnaðar á laggirnar. Jafnframt á NýOrka heiðurinn af þeim áhuga erlendra bifreiðaframleiðenda, sem óneitanlega hefur kviknað, á Íslandi sem markaði fyrir vetnisknúna rafbíla.

Vetni hvarvetna í framrás

Eins og áður segir grundvallast hið samevrópska verkefni, sem vetnisstöðvarnar byggja á, á sýn Evrópuleiðtoga þess efnis að vetnið sé mikilvæg lausn við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Þessi sýn er þó ekki takmörkuð við Evrópu, því vetnisstöðvar eru jafnframt í örri uppbyggingu víðs vegar um heiminn. Japanir stefna að því að gera samfélag sitt vetnisknúið og hafa þar tekið höndum saman stjórnvöld og japanskir bílaframleiðendur, svo sem Toyota, Honda og Nissan. Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hefur ávallt verið leiðandi þegar kemur að náttúruvernd en þar má nú þegar finna 35 vetnisstöðvar og aðrar 20 í byggingu. Þá hefur Kórea einnig áform um að reisa hundruðir vetnisstöðva fyrir árið 2030, auk þess sem nú þegar má finna vetnisstöðvar t.d. í Kína, Ástralíu, Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, á Indlandi og í Brasilíu, svo nokkur lönd séu nefnd.

Vetnisstöðin í Reykjavík var vígð af framkvæmdastjóra Íslenska vetnisfélagsins, Ingunni Agnesi Kro, sem hefur verkefnastýrt byggingu vetnisstöðvanna fyrir Orkuna, auk móður hennar og dóttur. Móðir Ingunnar, Valgerður Sverrisdóttir, vígði þá vetnisstöð sem stóð á sama stað fyrir 17 árum síðan og var þá fyrsta vetnisstöðin í heiminum sem var aðgengileg almenningi. Dóttur Ingunnar, Ylfu Hjaltadóttur, finnst gaman í sundi.

Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar

„Orkuskipti eru ekki skyndilausnir. Það kenndi hitaveituvæðingin okkur á sínum tíma. Henni varð ekki lokið fyrr en stigið var yfir ýmsa þröskulda bæði í þekkingu og tækni. Á bak við bjó samt alltaf hinn eindregni ásetningur um að nýta náttúrugæði landsins fólki til hagsbóta og heilla. Það liðu rúmir tveir áratugir frá því fyrsta húsið í Mosfellssveit fékk hitaveitu þar til skipulögð lagning hennar hófst í Reykjavík. Nú eru tæpir tveir áratugir frá því við vorum hér við Vesturlandsveginn að fagna opnun fyrstu vetnisstöðvarinnar hér á landi fyrir almenning. Hún er ekki ein lengur því önnur verður suður með sjó og sú þriðja á leiðinni.

Ég held að á engan sé hallað að þakka sérstaklega Jóni Birni Skúlasyni hjá Íslenskri nýorku fyrir áratuga seiglu og að halda merkjum vetnis á lofti sem hollum og góðum aflgjafa framfara í umhverfis- og samgöngumálum okkar Íslendinga.“

Orkan og ON Vetnisstöd
Bjarni Már Júlíusson og Úlfar Steindórsson