Starfsfólk ON fær rafmagnshjól til afnota

Starfsmenn Orku náttúrunnar (ON) geta nú fengið lánuð rafknúið reiðhjól til eigin nota. Tíu rafmagnshjól verða í boði í sumar fyrir starfsmenn sem geta bókað þau í eina viku í senn án endurgjalds. Fyrirtækið mun festa kaup á fimm rafmagnshjólum í kjölfarið.

„Okkur langar að vekja athygli á þessum rafmagnsreiðhjólum sem umhverfisvænum ferðamáta og gefa starfsfólki kost á skemmtilegri heilsubót um leið og við notum orkuna sem við framleiðum sjálf. Fyrirtækið mun í kjölfarið festa kaup á fimm rafmagnsreiðhjólum seinna í sumar sem ætluð eru einnig fyrir starfsmenn. Hugmyndin er sú að starfsmenn geti því hjólað á fundi í borginni og að sjálfsögðu til og frá vinnu. Við hvetjum auðvitað alla til að prófa og láta hjólin snúast í sumar,“ segir Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður kynningar- og markaðsmála hjá ON.

Rafmótorinn virkar þannig að hann styður við þegar farið er upp brekkur eða á móti vindi sem gerir þennan umhverfisvæna samgöngumáta ennþá skemmtilegri og þægilegri. Rafmagnshjólin voru afhent starfsfólki á dögunum og verkefnið, sem gengur undir nafninu Hjól náttúrunnar, kynnt sérstaklega.

 

Hjól náttúrunnar