🚘

Spurt og svarað um hlöður ON

Hversu lengi dugir hleðslan?

Rafbílar í dag eru mun langdrægari en þeir voru fyrir nokkrum árum. Það er þó misjafnt eftir bílum hversu lengi hleðslan endist. Notendur er hvattir til að kynna sér endingu hleðslunnar, en það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á endingu og afköst rafhlaða í bílum, t.d. kuldi, aðstæður á vegum og fleira. Það er rétt að hafa í huga að miðstöð, rúðu- og sætishitarar og aðrir hlutar bílsins nota orku frá sömu rafhlöðu og keyrir bílinn áfram. Hver og einn þarf að taka mið af þessum þáttum þegar rafbíll er notaður.

Get ég gert eitthvað til að nýta hleðsluna betur?

Já, það eru ýmis ráð til að nýta hleðslu rafbíla betur. Þó er rétt að muna að í hefðbundinni daglegri notkun rafbíls gerist þess sjaldan þörf. Ef bílinn er notaður eins og venjulegur heimilisbíll, þ.e. að fara í og úr vinnu, skutla börnum í frístundir, fara í verslun, ræktina, félagsstörf og svo framvegis – þá duga hleðslur á rafbílum nútímans fyrir alla þá þætti. Með öðrum orðum, ef bílinn er fullhlaðinn þegar lagt er af stað út í daginn um morguninn dugar hleðslan vel fram á kvöld miðað við hefðbundna notkun.Það er helst á löngum ferðalögum sem þörf gerist fyrir hagræðingaraðgerðir á hleðslu rafbíla. Öllum bílum fylgja leiðbeiningar um hvernig hægt er að nýta orkuna betur, t.d. með því að leyfa bílunum að hlaða sig þegar keyrt er niður brekkur.Til að spara orku er hægt að keyra á jöfnum hraða og lækka í miðstöðinni, sem eru helstu þættirnir sem hafa áhrif á nýtingu hleðslunnar.