Samstarf um brunavarnir

ON og Brunavarnir Árnessýslu hafa endurnýjað samstarfssamning sinn um reglubundnar brunavarnaæfingar í virkjunum ON á Hellisheiði og Nesjavöllum. Mikilvægi samstarfsins sýndi sig vel þegar upp kom eldur í Hellisheiðarvirkjun í vetur og samningurinn eflir líka almennar brunavarnir í nærsamfélagi virkjananna.

Það voru þeir Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri og Trausti Björgvinsson, forstöðumaður virkjanareksturs ON, sem skrifuðu undir samstarfssamninginn í Hellisheiðarvirkjun í morgun. Hann kveður á um að minnsta kosti tvær sameiginlegar æfingar í hvorri virkjun á ári. Markmiðið er að slökkviliðsmenn þekki vel til staðhátta og húsakosts virkjananna og virkjanafólk til vinnubragða slökkviliðsmanna og þeirra búnaðar. Þá kemur starfsfólk Brunavarna Árnessýslu einnig að forvörnum meðal annars með fræðslu fyrir muni fræða starfsfólk ON um brunavarnir.

Gildi samstarfsins sannaðist berlega þegar upp kom eldur í Hellisheiðarvirkjun í janúar síðastliðnum. Fumlaus viðbrögð og gott samstarf á vettvangi réðu því að betur fór en á horfðist, komið var í veg fyrir meira tjón en þó varð og áhrif á virkjanareksturinn voru lítil.

Undirritun ON og BÁ
Guðmundur G. Þórisson, deildarstjóri eldvarnaeftirlits Brunavarna Árnessýslu, Trausti Björgvinsson forstöðumaður virkjana ON, Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og Ari B. Thorarensen, formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu.