Samið um smáþörungarækt í Jarðhitagarði ON

ON hefur samið við alþjóðlega sprotafyrirtækið Algaennovation um aðstöðu og ýmis orkutengd aðföng fyrir ræktun smáþörunga í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun. Úr þörungunum verður framleitt fóður fyrir skepnur og hugsanlega til manneldis. Algaennovation er í eigu vísindamannanna sem stofnuðu fyrirtækið auk íslenskra fyrirtækja og fjárfesta.

Það voru Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, og Isaac Berzin, einn frumkvöðlanna að baki Algaennovation, sem undirrituðu samninginn í Hellisheiðarvirkjun í morgun. Við undirskriftina voru einnig Berglind Rán Ólafsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON, Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Algaennovation Iceland, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, og Erna Björnsdóttir frá fjárfestingasviði Íslandsstofu.

Undirritun samnings ON og Algaennovation

Tilraunir síðasta árið

Smáþörungar eru örsjávarplöntur sem fjölga sér hratt og fá orku sína og næringu úr ljósi og koltvíoxíði, það er ljóstillífa. Í náttúrunni eru smáþörungar uppspretta margskonar næringarefna á borð við Omega-3 fitusýrur, andoxunarefni og litarefni. Öll þessi efni eru lykilþættir í mataræði bæði manna og dýra.

Fyrir milligöngu fjárfestingasviðs Íslandsstofu komst á samband milli ON og Algaennovation og á haustmánuðum 2017 hóf fyrirtækið tilraunaræktun á smáþörungum við Hellisheiðarvirkjun. ON útvegaði aðstöðu, rafmagn, heitt og kalt vatn og koltvíoxíð til tilraunanna. Þær gengu framar vonum. Algaennovation hefur því ákveðið að taka næsta skref og er stolt af því að hefja byggingu á smáþörungaframleiðslu innan Jarðhitagarðs ON, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Áformað er að hefja framleiðslu á fóðri til seiðaeldis um mitt næsta ár.

Smáþörungaframleiðsla Algaennovation verður staðsett í Jarðhitagarði ON og mun fá afhent beint frá Hellisheiðarvirkjun umhverfisvænt rafmagn, heitt og kalt vatn og koltvíoxíð. Samvinnan við ON gerir Algaennovation kleift að hafa neikvætt sótspor og að nota minna en 1% af því ferskvatni og landsvæði sem hefðbundin smáþörungafyrirtæki nota við framleiðslu sína. Slík framleiðsla er mikilvægt skref í átt virðishringrásar (e. waste to value) og mun efla sjálfbæra nýsköpun hér á landi.

ON hefur undanfarin ár unnið að þróun fjölnýtingar jarðhita innan Jarðhitagarðsins við Hellisheiðarvirkjun. Skipulagsmál hans voru unnin í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus og stofnað var til samstarfsverkefnis ON og fjárfestingasviðs Íslandsstofu um markaðssetningu hans. Samningurinn, sem undirritaður var í dag, er ávöxtur þess verkefnis og fleiri slíkir kunna að fylgja.

Jarðhitagarður ON

Jarðhitagarður Orku náttúrunnar er umgjörð um fjölbreytta starfsemi sem stuðlar að sem bestri nýtingu afurða Hellisheiðarvirkjunar, jákvæðum umhverfisáhrifum og verðmætasköpun. Á svæðinu hefur verið unnið ýmist rannsókna- og þróunarstarf undanfarin ár. Þar vinnur geoSilica nú heilsuvörur úr kísli, sem fellur til við jarðhitavinnsluna, og vísindafólk tengt Háskóla Íslands stundar þar ýmsar rannsóknir.

Þá eru ónefnd loftslags- og loftgæðaverkefni fyrirtækisins sjálfs sem felast í því að skilja jarðhitaloft úr gufunni sem nýtt er til orkuvinnslunnar og binda það djúpt í jarðlögum við virkjunina. Þau verkefni – þekkt undir heitunum CarbFix og SulFix – hafa hlotið heimsathygli. Svissneska fyrirtækið Climeworks, sem fangar koltvíoxíð úr andrúmslofti, starfar einnig innan Jarðhitagarðsins og nýtir CarbFix-tæknina til að binda gróðurhúsaloftið í jarðlögum.

Sjálfbær jarðhitanýting

Nýting jarðhitans í virkjunum ON á Hengilssvæðinu – Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun – hefur lengst af verið eingöngu til vinnslu rafmagns og heits vatns fyrir hitaveituna á Höfuðborgarsvæðinu. Orkuvinnslunni fylgja hinsvegar ýmsar aukaafurðir. Þar fellur til varmi í formi vatns eða gufu sem ekki nýtist allur til orkuvinnslunnar, efni í jarðgufunni á borð við kísil og jarðhitaloft geta verið verðmæt og við virkjunina er greiður aðgangur að fersku vatni og rafmagni sem unnið er í virkjuninni. Þessi aðföng öll geta nýst ýmissi starfsemi eins og dæmin sanna.

Þessi fjölnýting jarðhitans eykur enn á sjálfbærni nýtingar Orku náttúrunnar á jarðhitanum á Hellisheiði. Nýverið varð Hellisheiðarvirkjun fyrsta jarðgufuvirkjunin í rekstri til að undirgangast umfangsmikið alþjóðlegt próf á sjálfbærni rekstursins. Meginniðurstaðan var að Hellisheiðarvirkjun hefði lítil neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag en mikilvæg félagsleg og hagræn áhrif. Að nýta betur það sem til fellur við rekstur orkuversins, nú með þörungarækt Algaennovation, eflir sjálfbærni hans enn frekar.

Samningurinn, sem undirritaður var í dag, er til 15 ára og fjallar um sölu ON á rafmagni og öðrum aðföngum til ræktunar örþörunganna í Jarðhitagarðinum.

Inni í tilraunastöð Algaennovation við Hellisheiðarvirkjun
Inni í tilraunastöð Algaennovation við Hellisheiðarvirkjun