ON og samfélagið 2020ON og samfélagið 2020

ON og samfélagið 2020

Við hjá Orku náttúrunnar vinnum að þeim Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem snúa að starfseminni, við hlustum á fólk og segjum okkar skoðanir. Afraksturinn eru margskonar verkefni sem endurspegla þá samfélagsábyrgð sem við viljum sýna. Hér höfum við tekið saman nokkur dæmi frá árinu 2020.

Ánægðustu viðskiptavinirnir

Af viðskiptavinum raforkusala á Íslandi eru þau sem kaupa af Orku náttúrunnar ánægðust. Þetta urðu niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2019, sem voru kynntar af Stjórnvísi snemma árs 2020. Það sama var raunar uppi á tengingum í janúar 2021, annað árið í röð og þriðja árið samtals.

„Þetta er frábær árangur sem næst aldeilis ekki af sjálfu sér. Þetta er afrakstur mikillar vinnu okkar allra því til að ná svona árangri þarf öll keðjan að vera traust, allt frá auðlindarannsóknum yfir í framleiðslu og sölu á rafmagni og ekki síst samskiptin við alla okkar viðskiptavini og samstarfsfólk,‘‘ segir Berglind Rán framkvæmdastýra Orku náttúrunnar um viðurkenninguna.

 

Hröð uppbygging hleðslustöðva

Rafvæðing samgangna er ekki bara góð fyrir umhverfið heldur ekki síður fyrir budduna. Á Covid-árinu 2020, þegar margir ferðuðust innanlands, var nýtingin á hleðsluneti ON, sem byggt hefur verið upp frá 2014, meiri en nokkru sinni. Í fyrsta sinn voru nýskráðir nýorkubílar fleiri en hefðbundnir. Þessum nýju þörfum þarf að sinna og þar er ON í fararbroddi.

Á árinu 2020 setti ON upp fyrstu 150 kílóvatta hleðslustöðvarnar hér á landi en þær sinna einkum þörfum eigenda langdrægustu rafbílanna.

„Gáfnaljós“

Þó Íslendingar séu allra þjóða ríkastir af rafmagni gefur það okkur ekkert leyfi til að sóa því. LED-ljósabúnaður þarf brot af þeirri orku sem hefðbundnar perur nota og það skiptir svo sannarlega máli þegar verið er að lýsa heilu borgirnar.

Nýi búnaðurinn, sem er sem óðast að leysa þann eldri af hólmi, hefur líka þá kosti að fjarstýringar á honum og fjarvöktun hans verður auðveldari og svo er því líka betur stýrt hversu mikilli birtu er beint til jarðar og nákvæmlega hvert.

ON rekur götulýsingu fyrir mörg sveitarfélög, Vegagerðina og líka lóðalýsingu fyrir nokkur fyrirtæki.

Góður gestur flytur heiminum fréttir

Við erum orðin vön því að ýmsir útlendingar falli í stafi yfir jarðhitanýtingu Íslendinga. Hvernig þessi auðlind, sem öldum saman var táknmynd ógna nátttúrunnar, varð einhver mesta blessun landsmanna með tilkomu hitaveitnanna.

ON er stærsta jarðhitafyrirtæki landsins. Það er mikilvægt að fyrirtæki í þeirri stöðu leiði nýsköpun í jarðhitanýtingu, sé í sífellu að leita nýrra leiða, nýta betur náttúrunnar gæði og endurnýta það sem til fellur.

Carbfix-aðferðin, sem Orka náttúrunnar nýtir í Hellisheiðarvirkjun, hefur vakið heimathygli og sumarið 2020 kom stórleikarinn Zac Efron í heimsókn í virkjunina til að kynna sér hvernig koldíoxíði úr jarðgufunni er fargað með því að breyta því í stein. Afrakstur heimsóknarinnar nýtti Efron í fyrsta þátt nýrrar sjónvarpsþáttaraðar sem hann sér um, Down to Earth.

Berglind Rán Ólafsdóttir og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýrur Orku náttúrunnar og Carbfix.

 

Förgun koldíoxíðs

ON hefur verið í fararbroddi í nýsköpun og þróun á sviði loftslags- og umhverfismála jarðgufuvirkjana undanfarinn áratug. Náið samstarf við Carbfix hefur þar verið lykilatriði. Á meðal verkefna sem þegar hafa skilað árangri eru;

  • minnkun losunar koltvíoxíðs og brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun með bindingu þessara jarðhitalofttegunda í stein,
  • undirbúningur að minni losun frá Nesjavallavirkjun og tímasetning kolefnishlutlausrar Hellisheiðarvirkjunar,
  • samstarf við svissneska fyrirtækið Climeworks um hreinsun og bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti á Hellisheiði.

Risaskref voru stigin á árinu 2020 í loftslagsmálum þegar samið var við svissneska fyrirtækið Climeworks um að það nýtti innviði ON við Hellisheiðarvirkjun og þekkingu Carbfix til að breyta koldíoxíði fönguðu beint úr andrúmsloftinu í grjót. Auk þess hefur förgun alls koldíoxíðs sem kemur upp með gufunni sem nýtt er í virkjuninni verið tímasett. Fullhreinsun frá Hellisheiði verður komin í gagnið fyrir árslok 2024.

Jarðhitagarður ON

ON lærðist af þróun Carbfix verkefnisins að mikilvægt er að geta prófað og þróað nýjar hugmyndir tengdar jarðhitanýtingunni í nábýli við virkjun. Svo er frábært að geta byggt upp sannreyndar viðskiptahugmyndir á sama stað. Það er hugmyndin á bak við Jarðhitagarð ON við Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi. Honum tilheyrir tilraunasvæði við virkjunarvegg og svo athafnasvæði steinsnar frá. Það fellur nefnilega ýmist nýtilegt til við orkuvinnsluna og aðföng má samnýta með henni. Á meðal þess sem eru hugmyndir um, er lofandi eða þegar gefið góða raun er;

  • Kolefnisförgun.
  • Kísiltaka úr jarðhitavökva í heilsuvörur.
  • Vetnisvinnsla.
  • Þörungarækt.
  • Kolefnisnám úr andrúmslofti til förgunar.
  • Ylrækt.
  • Böð.

30 ára farsæl nýting

Haustið 2020 voru 30 ár frá því Nesjavallavirkjun var tekin í notkun. Reksturinn á Nesjavöllum hefur verið einkar farsæll og skipti bygging hennar sköpum fyrir viðgang hitaveitunnar á höfuðborgarsvæðinu. Árum saman sá hún höfuðborgarsvæðinu fyrir meira en helmingi alls þess heita vatns sem nýtt var til húshitunar, í sundlaugarnar og snjóbræðslukerfi suðvesturhornsins.

Það er dýrara að sækja heita vatnið lengra en hagkvæmni rekstursins jókst árið 2004, þegar raforkuvinnsla í Nesjavallavirkjun hófst. Umhverfiskröfur voru minni þegar Nesjavallavirkjun var byggð er síðar varð. Þessi árin er því unnið að einskonar umhverfislegri uppfærslu þar sem dregið er úr losun heits vatns á yfirborði, dregið úr losun brennisteins og koldíoxíðs og sífellt meiru af vökvanum sem tekinn er upp úr svæðinu til orkunýtingar skilað til þess aftur með niðurdælingu.

Meiri hiti

Kórónuveiruárið 2020 jókst notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu meira en dæmi eru um á síðustu áratugum. Árið var í svalara lagi og húsin því frekari á funann en það er eins og breytingar á hátterni fólks vegna kórónuveirunnar hafi kallað á meiri kyndingu. Það var því ekki seinna vænna, haustið 2020, að stækkun varmastöðvarinnar í Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun. Virkjunin mætir nú allri aukningu á heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu jafnframt því sem vinnsla hennar er nýtt til að hvíla lághitasvæðin nær höfuðborginni sjálfri. Við stækkunina jókst afkastageta hennar úr 600 lítrum á sekúndu í 925 sekúndulítra eða um ríflega 50%.

„Stækkun varmastöðvarinnar er eitt púsl í það stóra verkefni að sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni til húshitunar, bað- og sundferða og iðnaðar til langrar framtíðar og á sama tíma nýta með ábyrgum hætti þá dýrmætu auðlind sem heita vatnið okkar er,“ sagði dr. Arna Pálsdóttir við þetta tilefni. Hún er verkefnastjóri nýsköpunarverkefna hjá OR, móðurfélagi ON og Veitna en Veitur reka hitaveituna.

Fleiri sumarstörf

Atvinnuástand snerist skjótt til hins verra eftir að kórónuveirufaraldurinn blossaði upp snemma árs 2020. Þetta bitnaði á mörgu ungu fólki, sem stólað hafði á sumarvinnu tengda ferðþjónustu, og þess vegna sumarstörfum fjölgað hjá OR-samstæðunni frá þeim 100 sem áður höfðu verið auglýst. 30 var bætt við og því efldist til dæmis uppgræðslustarfið hjá ON. Það hefur vakið talsverða athygli hvernig staðargróðri er beitt til að bæta rask sem óhjákvæmilega verður við framkvæmdir á virkjanasvæðunum.

Umhverfisstjóri ON, sem borið hefur hitann og þungann af nýsköpun og þróun aðferðanna, hefur meðal annars hlotið umhverfisviðurkenningu Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir þetta brautryðjendastarf.

Auglýst eftir karli

Snemma á síðasta ári auglýsti ON í fyrsta skipti opinberlega eftir áhugasömum til að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Ýmsar kröfur þurfti að uppfylla, góðrar þekkingar og haldbærrar reynslu af stjórnun fyrirtækja og viðskiptum í samkeppnisumhverfi og að þeir sem gæfu kost á sér brenni fyrir ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir samfélagið. Þar sem meirihluti stjórnar ON var þegar skipaður konum, var sérstaklega óskað eftir karli til stjórnarsetunnar.

Tómas Ingason valdist til verka en hann er verkfræðingur með mikla reynslu af stafrænni þjónustu.