Rannsóknir í Andakílsá

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar í veiðimálum eru nú staddir við Andakílsá til að meta hvort set sem barst í ána úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar hafi haft áhrif á lífríkið í ánni. Niðurstöðu þeirra er að vænta á næstu dögum og ráðlegginga um skynsamleg viðbrögð við aurburðinum.

Í síðustu viku var hleypt niður úr inntakslóninu. Það er gert öðru hvoru. Í þetta skipti var það alveg tæmt þar sem meta þarf ástand stíflunnar við lónið, sem reist var um miðja síðustu öld. Talsvert set barst niður árfarveginn.

Orka náttúrunnar, sem á og rekur Andakílsárvirkjun, kallaði til sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar. Þau hafa verið við ána síðustu daga við rannsóknir á borð við að meta fjölda seiða og ástand þeirra. Niðurstaðna er að vænta á næstu dögum og jafnframt ráða um hvort og þá til hvaða aðgerða sé rétt að grípa.

Andakíll