Af hverju rafbíll?Af hverju rafbíll?

Hleðslulausnir

Á markaðnum eru fjölmargir aðilar sem bjóða upp á hleðslubúnað til að hlaða rafbíla. Við mælum með að þú fáir tilboð í þann búnað sem hentar þínum þörfum.

Áður en hleðslulausn er valin:

 • Hvar á hleðslan á vera staðsett?
 • Er aðstaða inni í bílskúr?
 • Er hægt að hafa hleðsluna úti á plani?
 • Fá kostnaðaráætlun við uppsetningu hleðslubúnaðar hjá fagaðila(um).
 • Hver er staðan á rafmagnslögn, uppsetning og tenging á hleðslubúnaði?
 • Einungis rafverktakar sem löggiltir eru af Mannvirkjastofnun mega taka að sér rafverktöku og/eða annast viðgerðir á hvers konar rafföngum.

Get ég gert eitthvað til að nýta hleðsluna betur?

Já, það eru ýmis ráð til að nýta hleðslu rafbíla betur. Þó er rétt að muna að í hefðbundinni daglegri notkun rafbíls gerist þess sjaldan þörf. Ef bílinn er notaður eins og venjulegur heimilisbíll, þ.e. að fara í og úr vinnu, skutla börnum í frístundir, fara í verslun, ræktina, félagsstörf og svo framvegis – þá duga hleðslur á rafbílum nútímans fyrir alla þá þætti. Með öðrum orðum, ef bílinn er fullhlaðinn þegar lagt er af stað út í daginn um morguninn dugar hleðslan vel fram á kvöld miðað við hefðbundna notkun. Það er helst á löngum ferðalögum sem þörf gerist fyrir hagræðingaraðgerðir á hleðslu rafbíla. Öllum bílum fylgja leiðbeiningar um hvernig hægt er að nýta orkuna betur, t.d. með því að leyfa bílunum að hlaða sig þegar keyrt er niður brekkur. Til að spara orku er hægt að keyra á jöfnum hraða og lækka í miðstöðinni, sem eru helstu þættirnir sem hafa áhrif á nýtingu hleðslunnar.

Hvernig get ég hlaðið heima?

Flest öll sérbýli eru með nægilegt rafmagn fyrir rafbílahleðsluna (þ.e. m/50 Ampera heimtaug). Ef vafi leikur á um stærð heimtaugar þá vinsamlegast hafðu samband við þitt veitufyrirtæki (Veitur, RARIK, HS Veitur, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, Rafveita Reyðarfjarðar ) til að fá staðfesta stærð heimtaugar inn í húsið. Nóg er að gefa upp heimilisfang.

Hvar fæ ég hleðslubúnað til að setja upp heima?

Á markaðnum eru fjölmargir aðilar sem bjóða upp á hleðslubúnað til að hlaða rafbíla. Best væri að hafa samband við nokkra þeirra og fá tilboð í búnað fyrir rafbílinn. Hægt er að velja hleðslubúnað með eða án snúru. Verð fyrir rafbílahleðslur fyrir sérbýli getur verið u.þ.b. 100 þúsund krónur og upp úr.

Rafbílar eru með tvær tegundir af tengjum:

 • Type 1 tengi Type 1 (Asíu- og Ameríkutengi)
 • Type 2 tengi Type 2 (Evróputengi)

ON mælir með að hugsað sé til framtíðar við val á hleðslubúnaði:

 • Þriggja fasa hleðslubúnað
 • Hægt er að tengja þriggja fasa hleðslubúnað við einfasa rafmagn en ekki öfugt
 • Allt að: 22kW / 32 Amper

Hvað með hleðslulausnir fyrir fjölbýli og fyrirtæki?

Flest öll fjöleignarhús eru með nægilega stóra heimtaug til þess að hægt sé að bæta við rafbílahleðslum sé notkun þeirra álagsstýrð. Tæknilega séð er því ekkert til fyrirstöðu að hlaða rafbíla í fjölbýlishúsum. Þó skal hafa í huga að margar sameignir, s.s. bílakjallarar nota sömu rafmagnstöflu, því má gera ráð fyrir því að eigendur rafbíla þurfi að láta tengja hleðslu fyrir bílinn inn á sér mæli þannig að orkunotkunin skráist sérstaklega á þann sem rafmagnið notar. Alltaf  skal leita til rafverktaka sem löggiltir eru af Mannvirkjastofnun.

Hver getur sett upp búnaðinn?

Einungis rafverktakar sem löggiltir eru af Mannvirkjastofnun mega taka að sér rafverktöku og/eða annast viðgerðir á hvers konar rafföngum.

Fáðu ráðgjöf hjá okkur ef spurningar vakna.

Rafbíll settur í hleðslu í hlaðinu heima