Ferðaráð til rafbílaökumannaFerðaráð til rafbílaökumanna

Ferðaráð til rafbílaökumanna

Þegar lagt er í ferðalag á rafbíl er gott að hafa nokkra hluti í huga.
Hér eru nokkur ferðaráð.

 • Hafðu lausu hleðslusnúruna sem þú notar heima með í ferðalagið. Hún gæti komið í góðar þarfir. Forðastu að nota framlengingarsnúru og alls ekki fjöltengi.
 • Á mörgum AC hleðslum, ON og annarra, þarf að vera með eigin snúru sem passar í þær, Type-2. Hjá ON eru þetta hleðslur hjá Byko í Breiddinni, Byko á Selfossi, Icelandair Hótel á Akureyri og á Dalvík. Fjölmargir aðilar selja slíkar snúrur.
 • Þó það sé gaman að finna rafbílinn þeytast af stað, eykur það rafmagnsnotkunina að taka hratt af stað.
 • Sparaðu að nota bremsuna þegar það á við og láttu innbyggða viðnámið draga úr hraða bílsins í staðinn. Það hleður rafhlöðuna.
 • Notaðu miðstöðina/kælinguna í hófi. Oftast dugar að opna glugga í stutta stund til að kæla loftið inni í bílnum. Að aka lengi með opinn glugga eykur hinsvegar loftmótstöðu og eykur rafmagnsnotkunina.
 • Hafðu hæfilegt loft í dekkjunum. Fyrir utan að vera öryggisatriði, eykur of lítið loft í dekkjum viðnám og þar með rafmagnsnotkun.
 • Skipulegðu ferðina þannig að þú farir ekki mjög neðarlega í hleðslu. Rétt eins og blikkandi bensínljós getur það valdið almennu stressi og gert ferðalagið erfiðara.
 • Treystu ekki alveg blint á drægniupplýsingarnar sem bíllinn sýnir á hverjum tíma. Fyrir utan skekkju sem getur verið í þeim þá hafa aðstæður áhrif á drægnina; bratti, vindur, hitastig og fjöldi farþega svo dæmi séu tekin.
 • ON-hleðsla er app fyrir iPhone og Android sem sýnir þér hvar næsta hlaða ON er, leiðina þangað, hvaða búnað hún inniheldur, hvort hún er virk og hvort hún er laus. Það getur verið hjálplegt.
 • Kortasíðan plugshare.com sýnir hleðslumöguleika hjá flestum sem komið hafa upp slíkum búnaði til almannanota hér á landi og í útlöndum.
 • Á hleðslukorti og í appi þýðir grænn litur á hleðslu að hún sé laus, blár að hún sé upptekin og rauður að hleðslan sé ekki í þjónustu.
 • Tæknin er aldrei óbrigðul og ef þú lendir í vanda við hlöðu ON, hringdu í þjónustusímann 591 2700. Það er furðumargt sem við getum aðstoðað með í gegnum símann.

Rafbílar eru mikilvægt framlag til umhverfisverndar og loftslagsmála. Við þökkum rafbílafólki fyrir að velja umhverfisvænni fararskjóta.

Saman bætum við andrúmsloftið!