Ráðlagt að skola seti úr farvegi Andakílsár

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar í veiðimálum telja ráðlegt að reyna að hreinsa eða skola set úr farvegi Andakílsár til að draga úr alvarlegum áhrifum þess þegar mikill aur barst úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar niður í farveg árinnar. Þau mistök voru gerð að vakta ekki rennsli úr inntakslóni eftir að botnrás í stíflu var opnuð í síðustu viku. Áhrif þessa á lífríki árinnar eru veruleg.

Rás atburða

Orka náttúrunnar hefur undirbúið viðhald á inntaksmannvirkjum Andakílsárstöðvar í Borgarfirði frá árinu 2015. Á meðal þess sem undirbúið hefur verið er að moka botnseti úr inntakslóni og að kanna ástand stíflunnar við lónið til að meta þörf á viðhaldi hennar. Til að skoða stífluna þarf að hleypa úr lóninu.

Upphaflega stóð til að moka botnseti úr lóninu nú í vor. Hafrannsóknastofnun, sem sameinaðist Veiðimálastofnun um mitt ár 2016, var upplýst um áformin og fékkst umsögn stofnunarinnar 5. apríl 2017. Að höfðu samráði við veiðiréttarhafa var þó ákveðið 18. apríl síðastliðinn að fresta hreinsun sets úr lóninu þar sem of stutt væri í að veiðitími hæfist. Þótt ekki yrði hreinsað botnset úr lóninu var ákveðið að hleypa vatni úr því til að skoða ástand stíflunnar, botnrásar hennar og vatnshæðarmælis. Opnað var fyrir botnrásina mánudaginn 15. maí.

Vatni hefur verið hleypt úr inntakslóninu áður. Áin hefur þá litast um tíma, líkt og hefðbundið er í leysingum. Vegna þeirrar athugunar á stíflumannvirkjum, sem gerðar voru meðan lónið var tómt, var botnrásin hinsvegar opin lengur en áður. Vatnið sem áfram rann í farveginum og ofan á setinu í tómu lóninu gróf sér farveg í gegnum setið í lónbotninum. Úr bökkum hans féllu aurfyllur sem bárust síðan niður í ána neðan virkjunarinnar og settust í farveginn. Eftirlit ON með ánni meðan lónið stóð tómt var ekki fullnægjandi. Það voru mistök.

ON fékk viðvörun frá fulltrúa veiðiréttarhafa um óvenjumikinn aurburð í ánni miðvikudagskvöldið 17. maí. Á fimmtudeginum 18. var haft samband við veiðimálasérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og þess óskað að þeir rannsökuðu áhrif þessa á lífríki í ánni og veittu ON ráð um hvernig skynsamlegast væri að bregðast við. Féllst stofnunin á það og hafa sérfræðingar hennar verið að störfum þar síðan. Í samskiptum ON við sérfræðinga og fulltrúa veiðiréttarhafa þennan sama fimmtudag kviknaði sú hugmynd að úr því sem komið væri kynni að vera fýsilegt að ráðast þá þegar í að moka seti úr lónbotninum. Niðurstaðan varð að gera það ekki heldur loka botnrásinni og með því fylltist inntakslónið að nýju föstudaginn 19. maí.

Næstu skref

Vísindafólk telur að áhrif setsins á lífríki árinnar séu veruleg. Þetta komi fram í talningu á seiðum og hvar þau fundust í ánni. Staðan sé verst næst virkjuninni. Fulltrúar ON munu funda með vísindafólkinu á föstudag til að setja saman áætlun um aðgerðir. Þær geta falist í að hleypa auknu vatni í Andakílsá til að freista þess að skola setinu niður farveginn. Þá komi til greina að fjarlægja set úr einstökum hyljum.

Úrbótaáætlun ON mun liggja fyrir á næstu dögum og haft verður samráð um framkvæmd hennar við vísindafólk, veiðiréttarhafa, sveitarfélagið og eftirlitsstofnanir. Þá verða einnig metnar aðgerðir til framtíðar, svo sem vöktun á áhrifum til lengri tíma og samskipti, hvorttveggja við reglubundnar aðgerðir í rekstri virkjunarinnar og sérstakar framkvæmdir á borð við hreinsun sets úr inntakslóninu.

Farið verður yfir vinnuferla innan ON í framhaldi af þessum mistökum til að læra af þeim.

Andakíll