Orka náttúrunnar og Deilir semja um viðhald stórra vélarhluta

Aukin þekking og sparnaður með viðgerðum innanlands

Orka náttúrunnar hefur samið við Deili ehf. um viðhald á aflvélum jarðgufuvirkjana ON. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu en útboðið var afrakstur þróunarverkefnis sem hefur í senn lækkað kostnað ON vegna viðhaldsins og dregið úr áhættu sem fylgdi því að senda stóra vélarhluti til útlanda til viðhalds.

Rammasamningur til fjögurra ára

Útboðið var í tvennu lagi; viðhald á hverfilhjólum og leiðiskóflum í gufuaflvélum og svo vinna vélvirkja og fleiri að viðhaldi aflvélanna. Deilir átti hagstæðustu tilboð í báða þætti. Þar voru þeir Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON og Jóhann Jónasson stjórnarformaður Deilis sem undirrituðu samninginn í Hellisheiðarvirkjun að viðstöddu starfsfólki fyrirtækjanna. Samningurinn er til fjögurra ára og hann má framlengja.

Þróunarverkefni eftir hrun

Þegar kreppti að í rekstri eftir hrun, ákvað Orka náttúrunnar að kanna möguleika þess að flytja viðhald stórra vélarhluta í aflvélum Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar inn í landið. Þá hafði tíðkast um áratugaskeið að hverfilshjólin voru send úr landi til hefðbundins viðhalds. Viðhaldið felst einkum í að laga slit í hverfilshjólum og öðrum aflvélaghlutum. Þetta var kostnaðarsamt auk þess sem flutningur vélarhlutananna um langa vegu skapaði áhættu á hnjaski eða töfum í flutningum.

Árið 2013 hófst í Hellisheiðarvirkjun þróunarverkefni að flytja þetta mikilvæga reglubundna viðhald til landsins. Keyptur var búnaður og byggð upp þekking. Tilraunin gaf góða raun. Kostnaður við viðhaldið dróst saman, ekki þurfti að greiða fyrir það með erlendum gjaldeyri og reynsla ON er sú að viðgerðir síðustu missera endast betur en þær fyrri. Ávinningurinn var því margþættur.

Árangurinn nýtist jarðvarmageiranum í heild

Þegar þessi góði árangur þróunarverkefnisins lá fyrir, var ákveðið að bjóða viðhaldsvinnuna út á nýjum forsendum. Samningur Deilis og ON er niðurstaða þess útboðs og ON gerir sér góðar vonir um að  með honum festist hagkvæmnin í sessi og þessi nýja þekking verði jarðvarmanýtingu hér á landi til framdráttar.

Orka náttúrunnar hefur samið við Deili ehf. um viðhald á aflvélum jarðgufuvirkjana ON. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu en útboðið var afrakstur þróunarverkefnis sem hefur í senn lækkað kostnað ON vegna viðhaldsins og dregið úr áhættu sem fylgdi því að senda stóra vélarhluti til útlanda til viðhalds.

Undirritun - Sæmundur, Bjarni, Jóhann og Baldur
Við undirritun samningsins. Frá vinstri: Sæmundur Guðlaugsson viðhaldsstjóri ON, Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON, Jóhann Jónasson stjórnarformaður Deilis, Baldur Jónasson framkvæmdastjóri Deilis.