ON og Etix Everywhere Borealis semja um rafmagnskaup

ON og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hafa gert með sér samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er annað gagnaverið sem Orka náttúrunnar semur við og með samningnum við ON hefur fyrirtækið tryggt sér yfir 10 megavött sem eru að losna úr langtímasamningum.

Etix Everywhere Borealis hefur rekið gagnaver hér á landi um hríð og vex hratt, en það er í blandaðri eigu íslenskra og erlendra aðila. Fyrirtækið opnaði nýlega gagnaver við Blönduós og er frekari uppbygging fyrirhuguð þar og á Reykjanesi. Í kjölfar aðkomu alþjóðlega gagnaversins Etix Everywhere að Borealis hefur uppbygging aukist til muna.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON:

Við hjá ON fögnum þessu samstarfi sem er mikilvægur þáttur í því að sækja fram á raforkumarkaði. Viðskiptavinahópur okkar er afar fjölbreyttur með margvíslegri þarfir en áður og fellur samningur við Etix Everywhere Borealis vel að áherslum ON á fyrirtækjamarkaði. Það er afar jákvætt að fá fjölbreytta, alþjóðlega og vistvæna starfsemi til landsins sem sér kosti þess að nýta endurnýjanlega orku.

ON sækir víðar fram. Rafbílaeigendum fjölgar hratt og starfsemin í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun vex. Þar er fjölnýting jarðhitans í fyrirrúmi. Það eru því blómlegir tímar í fjölbreyttri nýtingu jarðhitans sem með þessum samningi kemur þessari vaxandi atvinnugrein í landinu sem gagnaverin eru til góða.

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis:

Eitt af samkeppnisforskotum gagnavera á Íslandi eru endurnýjanlegir orkugjafar á borð við jarðvarma og kalt veðurfar sem hentar vel til kælingar. Erlendir viðskiptavinir horfa í auknum mæli á þessa þætti og er því mikilvægt og jafnframt ánægjulegt að geta boðið þeim upp á endurnýjanlega orku úr jarðvarmavirkjunum ON. Samningur við ON tryggir félaginu orku til frekari uppbyggingar með erlendum viðskiptavinum.Etix Gagnaver

Undirritun - ON og Etix
Björn Brynjúlfsson og Berglind Rán Ólafsdóttir