Nýr forstöðumaður markaðs- og kynningarmála ON

Áslaug Thelma Einarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður markaðs- og kynningarmála hjá ON.

Áslaug hefur mikla reynslu í markaðs og kynningarmálum sem og orkumálum. Hún var meðal annars forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Icelandair Group, verkefnisstjóri hjá Canadian Geothermal Energy Association og sviðsstjóri hjá verkfræðistofunni Mannviti. Auk þess hefur hún sinnt ýmis konar ráðgjöf við markaðsmál og viðburðarstjórnun. Áslaug sat í stjórn Rio Tinto Alcan en sagði sig úr stjórninni þegar hún réði sig til ON.

Áslaug er með BA próf í vinnusálfræði frá Arizona State University og MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík.

Starf forstöðumanns markaðs- og kynningarmála er nýtt starf hjá ON en það varð til við aðskilnað sölu- og markaðsmála í skipulagi fyrirtækisins. Um 150 umsóknir bárust um starfið, sem auglýst var í ágúst. 

Áslaug mun hefja störf hjá ON á næstu vikum.

Áslaug Thelma Einarsdóttir
Áslaug Thelma Einarsdóttir