Ný hraðhleðslustöð á Fitjum

Eigendur rafbíla geta nú sótt sér „áfyllingu“ á nýrri hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar (ON) á Fitjum í Reykjanesbæ.

Þetta er fjórða stöð sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu, sem ON opnar síðan í mars. Fyrir er ein við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, önnur hjá BL að Sævarhöfða og sú þriðja við Smáralind. Gísli Böðvarsson, sölustjóri Tryggingamiðlunar Íslands opnaði stöðina í Fitjum. Hann býr í Njarðvík og starfar í Kópavogi. „Ég ek rafbíl daglega á milli heimilis og vinnustaðar og svo í vinnunni. Af reynslunni verður einungis dregin sú ályktun að hvetja beri alla sem geta til að eignast rafbíla! Þeir kosta vissulega talsvert í innkaupi en rekstrarkostnaður er hins vegar hlægilega lítill miðað við bensín- eða dísilbíla. Svo er einfaldlega ofboðslega gott og gaman að keyra rafbíl! Margir halda að rafbíll sé kraftlítill en það er nú aldeilis ekki svo. Hann er afar kröftugur, snar og þýður,“ segir Gísli.

Generic Image
Gísli Böðvarsson búinn að fylla á bílinn. Með honum á mynd eru Kristjana Ósk Jónsdóttir (til vinstri), markaðs- og kynningarstjóri Reita og Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON