Hafa samband Netspjall

Samstarf um brunavarnir

ON og Brunavarnir Árnessýslu hafa endurnýjað samstarfssamning sinn um reglubundnar brunavarnaæfingar í virkjunum ON á Hellisheiði og Nesjavöllum. Mikilvægi samstarfsins sýndi sig vel þegar upp kom eldur í Hellisheiðarvirkjun í vetur og samningurinn eflir líka almennar brunavarnir í nærsamfélagi virkjananna.

Það voru þeir Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri og Trausti Björgvinsson, forstöðumaður virkjanareksturs ON, sem skrifuðu undir samstarfssamninginn í Hellisheiðarvirkjun í morgun. Hann kveður á um að minnsta kosti tvær sameiginlegar æfingar í hvorri virkjun á ári. Markmiðið er að slökkviliðsmenn þekki vel til staðhátta og húsakosts virkjananna og virkjanafólk til vinnubragða slökkviliðsmanna og þeirra búnaðar. Þá kemur starfsfólk Brunavarna Árnessýslu einnig að forvörnum meðal annars með fræðslu fyrir muni fræða starfsfólk ON um brunavarnir.

Gildi samstarfsins sannaðist berlega þegar upp kom eldur í Hellisheiðarvirkjun í janúar síðastliðnum. Fumlaus viðbrögð og gott samstarf á vettvangi réðu því að betur fór en á horfðist, komið var í veg fyrir meira tjón en þó varð og áhrif á virkjanareksturinn voru lítil.

Undirritun ON og BÁ
Guðmundur G. Þórisson, deildarstjóri eldvarnaeftirlits Brunavarna Árnessýslu, Trausti Björgvinsson forstöðumaður virkjana ON, Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og Ari B. Thorarensen, formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu.

Stefán Fannar til liðs við ON

Stefán Fannar Stefánsson hefur tekið til starfa sem sölu- og viðskiptastjóri fyrirtækjamarkaða ON. Fyrirtækjamarkaður ber ábyrgð á rafmagnssölu, þjónustu og ráðgjöf við þau fjölmörgu fyrirtæki um land allt sem eru í viðskiptum við ON.

Stefán Fannar útskrifaðist með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og lauk MBA gráðu frá Copenhagen Business School árið 2008. Þann áratug sem liðinn er frá því Stefán Fannar lauk meistaraprófi starfaði Stefán Fannar hjá fjarskiptafyrirtækinu Ericsson. Hann bjó í Kaupmannahöfn en vann fyrir fyrirtækið á heimsvísu við innkaupa- og birgjastýringu ásamt stefnumótun. Hann starfaði við sölu og viðskiptastýringu hjá Vodafone 2002-2006 og var sölustjóri hjá Tæknivali á árunum 2006-2007.

Stefán Fannar Stefánsson
Stefán Fannar Stefánsson

Gasleki líkleg orsök elds í Hellisheiðarvirkjun í janúar

Niðurstöður rannsóknar á upptökum elds sem upp kom í loftinntaksrými í Hellisheiðarvirkjun í vetur liggja nú fyrir. Líklegast er að kviknað hafi í út frá eldfimu jarðhitagasi sem lekið hafði úr gaslögn og neisti, mögulega vegna stöðurafmagns, komið brunanum af stað.

Þessi niðurstaða Mannvirkjastofnunar og lögreglu er í samræmi við mat starfsfólks Orku náttúrunnar (ON) fljótlega eftir brunann og hefur fyrirtækið þegar gripið til viðeigandi ráðstafana til að slíkt endurtaki sig ekki. Þær fela meðal annars í sér að gaslagnir sem um ræðir hafa verið aftengdar og verið er að fara yfir hönnun og frágang þeirra hluta virkjana fyrirtækisins þar sem aðstæður eru svipaðar. Þá mun ON upplýsa önnur jarðhitafyrirtæki um þessar niðurstöður til að fleiri geti lært af.

Eldurinn kviknaði laust fyrir hádegi 12. janúar síðastliðinn. Engan sakaði og sameiginlegar æfingar starfsfólks ON, Brunavarna Árnessýslu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins skiluðu sér í slökkvistarfinu. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins og brunahólfun og vel frágengnar brunaþéttingar takmörkuðu útbreiðslu. Áhrif á orkuvinnsluna voru lítil. Einkum varð tjón á hluta þaks stöðvarhússins og skipta þarf um hluta burðarvirkis þess. ON er tryggt fyrir tjóninu en sjálfsábyrgð tryggingarinnar nemur sem svarar til 100 milljóna króna. Viðgerðum er ekki að fullu lokið og tjónið ekki verið gert upp.

Hellisheiðarvirkjun
Hellisheiðarvirkjun

#metoo vinnustofur

Í apríl eru haldnar #metoo vinnustofur þar sem allt starfsfólk OR samstæðunnar hittist og ræðir opinskátt um viðfangsefnið; hvernig viljum við hafa þetta og hverju þurfum við að breyta?

Vinnustofurnar standa ennþá yfir en þegar eru komnar góðar hugmyndir sem unnið verður nánar með í maí. Viðfangsefni #metoo snúast um menningu sem við sem samfélag erum öll partur af, og það er því mikilvægt fyrir okkur að skapa vettvang til að ræða hlutina.

metoo

Aðgengi fatlaðra að hlöðum ON eflt

Við vinnum að því að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra að hlöðunum okkar, sem nú eru 31 talsins, hringinn í kringum landið. Í dag var tekin í notkun ný hraðhleðsla í hlöðunni við Bæjarháls 1, þar sem ON er til húsa. Þar reis fyrsta hlaða ON vorið 2014 og var hún ein þeirra þar sem aðgengi var ófullnægjandi.

Guðjón Sigurðsson, starfsmaður Veitna systurfyrirtækis ON og ötull baráttumaður í aðgengismálum, var fyrstur til að nota nýju hraðhleðsluna. Viðstatt var líka starfsfólk OR og dótturfyrirtækjanna á Bæjarhálsi. Við þetta tækifæri þakkaði Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, Gauja fyrir að halda fólki við efnið í aðgengismálum. „Hlöðurnar eru tiltölulega nýtt fyrirbæri og margt að læra. Ábendingar fólks eru okkur því mikilvægar og við tökum mark á þeim,“ sagði Bjarni Már.

Komið til móts við réttmætar ábendingar

ON hefur reist hverja hlöðuna á fætur annarri síðasta árið. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfbjargar, gerði ON þann heiður að taka hlöðuna á Hvolsvelli í notkun í september síðastliðnum. Aukinn þungi færðist í aðgengismál við þann viðburð. Gætt hefur verið að tækifærum fatlaðra við allar þær hlöður sem opnaðar hafa verið síðan.

ON telst til að aðgengi sé í lagi við meirihluta hlaðanna en vorið og sumarið verða nýtt til að bæta úr þar sem þarf.

Nýja hraðhleðslan á Bæjarhálsi afhjúpuð
Nýja hraðhleðslan á Bæjarhálsi afhjúpuð

Ný aflmikil borhola í Hverahlíð

Borun á nýrri vinnsluholu í Hverahlíð er nú lokið og verið er að prófa hana. Holan lofar góðu og verður hún nýtt til rafmagnsvinnslu og heitavatnsframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun.

Við prófanirnar blæs holan jarðhitagufu og sést tilkomumikill strókurinn frá henni vel frá þjóðvegi 1 yfir Hellisheiði. Með gufunni berast upp jarðhitalofttegundir, þar á meðal brennisteinsvetni, sem ekki fer þá í hreinsun í lofthreinsistöð líkt og gufa sem leidd er í gegnum Hellisheiðarvirkjun. Veðrið sem spáð er í kvöld og framundir morgun er þannig að líkur eru á að styrkur brennisteinsvetnis geti aukist tímabundið á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa.

Borhola við Hverahlíð
Borhola við Hverahlíð

Hringvegurinn opinn rafbílaeigendum

Hátíðarstemning var í kalsaveðri við Mývatn í dag þegar ON tók þar í notkun hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla. Með þessu hefur ON varðað allan hringveginn hlöðum. Friðrik Jakobsson sem starfar við ferðaþjónustu í Mývatnssveit fékk sér fyrstu hleðsluna í dag að viðstöddum Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra og Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON.

„Ég vona svo sannarlega að þessi tímamót hvetji ekki bara okkur landsmenn til að skipta yfir á rafmagn í samgöngum, heldur ekki síður ferðafólk sem hingað kemur,“ segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON.

Stendur við Fosshótel

Hlaðan stendur við Fosshótel í Reykjahlíð og auk hraðhleðslunnar er þar líka hefðbundin hleðsla (AC). Á milli Mývatns og Egilsstaða eru 165 kílómetrar og þar á milli er hlaða ON á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal. Hún er nú búin AC hleðslu sem verður uppfærð fyrir sumarið.

Vorið 2017 – fyrir innan við ári – opnaði ON leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefur ekki látið deigan síga síðan. Hlöður ON eru nú 31 talsins og á næstu vikum og mánuðum bætast um 20 við, á höfuðborgarsvæðinu og í öllum öðrum landshlutum.

Í „appi“ ON, ON Hleðsla er hægt að sjá hvar allar hlöður ON eru, hvaða tenglum þær eru búnar og hvort þær eru til reiðu. Í nýlegri uppfærslu á appinu er líka hægt að sjá hlöður annarra en ON og viðskiptavinir ON geta fengið yfirlit yfir orkukaup sín í hlöðum fyrirtækisins.

Mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna

Mikil fjölgun ferðamanna síðustu ár hefur gert það að verkum að kolefnisspor samgangna á landi hefur vaxið, þvert á markmið um minnkað kolefnisspor. Margt ferðafólksins leigir sér bíl og ferðast á eigin vegum. Talið er að ríflega 20 þúsund bílaleigubílar séu í landinu og kolefnisspor þeirra sé meira en 100 þúsund tonn kolefnisígilda á ári. Til samanburðar eru rafbílar hér á landi um fimm þúsund eftir að hafa fjölgað um nálægt þrjú þúsund á árinu 2017.

Léttum kolefnissporið

„Þarna eru mikil sóknarfæri fyrir þessa öflugu atvinnugrein,“ að mati Bjarna Más. „Við hjá ON erum hvergi nærri hætt okkar uppbyggingu á innviðum fyrir orkuskipti í samgöngum. Nú fögnum við mikilvægum áfanga. Nýlegar kannanir sýna að Íslendingar eru tilbúnari en flestar aðrar þjóðir til að skipta yfir í rafbíl og til í að gera það fyrr. Við munum halda áfram að gera okkar besta til að auðvelda þeim slíka ákvörðun.“

Frá opnun ON hlöðu við Mývatn
Frá vinstri: Áslaug Thelma Einarsdóttir, Bjarni Már Júlíusson og Friðrik Jakobsson.
Hraðhleðsla

Mývatn

Pages