Hafa samband Netspjall

Þrjár Orkur taka höndum saman í orkuskiptunum

Í dag opnaði Orkan tvær afgreiðslustöðvar fyrir vetnisbifreiðar. Önnur stöðin er staðsett að Vesturlandsvegi, Reykjavík, og hin að Fitjum, Reykjanesbæ. Þriðja stöðin verður opnuð um næstu áramót. ON mun framleiða það vetni sem Orkan mun selja, við jarðvarmavirkjun sína á Hellisheiði.

Vetni sem orkuberi

Engum hefur dulist sú aukna áhersla sem lögð verið hefur á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum, svo sem vind-, vatns- og sólarorku. Þar sem framleiðslutíma og -getu þessara orkugjafa verður ekki að öllu stjórnað af manninum og nýting orkunnar fer ekki að öllu saman við framleiðslutímann skapast gífurleg þörf fyrir geymslu raforku. Sérfræðingar hafa komist að raun um að heppilegast sé að geyma hana í formi vetnis. Vetnið má síðan nota beint til þess að knýja bifreiðar. Vetnið býr þannig til tækifæri til nýtingar endurnýjanlegrar orku sem ella hefði getað farið til spillis, til að knýja bifreiðar. Með þessum hætti verður nýting auðlindanna betri en ella.

Vetnisknúnir rafbílar

Það eru margir kostir við vetnisknúna rafbíla. Fyrir það fyrsta stafar engin mengun af notkun þeirra. Eini úrgangurinn sem þeir skila út um púströrið er hreint vatn. Þá er drægi slíkra bíla mikið lengra en drægi flestra annarra rafbíla, þ.e. 5-600 km.

Vetnisknúnir rafbílar eru jafnframt góður kostur fyrir þá sem ekki hafa tækifæri til þess að hlaða bílana sína. Fyllt er á bílana á Orkustöðvum á sama hátt og fyllt er á dísil- og bensínbíla og tekur áfyllingin einungis 3-5 mínútur. Öll umgjörð í kringum slíkan bíl er því sambærileg því að eiga dísil- eða bensínbíl, nema hvað bíllinn mengar ekkert. Í raun skilja bifreiðarnar eftir sig jákvætt fótspor, þar sem þær taka inn á sig loft, sía það og skila því hreinna út en áður. Einnig bindur það vatn er bifreiðin skilar af sér ryk og dregur þannig úr rykmengun.

Á meðal þeirra sem þegar hafa tryggt sér vetnisknúinn rafbíl eru Veitur, Orkuveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar, Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Reykjavíkurborg, Keilir, HS Veitur, Landsvirkjun og Skeljungur.

Strætó bs. vinnur jafnframt að því að kaupa vetnisknúna rafstrætisvagna, sem stefnt er að því að verði komnir í umferð í kringum árslok 2019.

Orkuríkt samstarf

Opnun vetnisstöðvanna á Íslandi er þáttur í verkefni á vegum Evrópusambandsins er nefnist H2ME-2. Verkefni er styrkt af Fuel Cells and Hydrogen Joint Undertaking í samræmi við styrktarsamkomulag nr. 700350. Rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins Horizon 2020, Hydrogen Europe og Hydrogen Europe Research standa jafnframt að verkefninu.

Verkefnið hefur það að markmiði að koma á fót innviðum fyrir rafknúnar vetnisbifreiðar um Evrópu. Þegar má í dag aka slíkri bifreið frá Bergen í Noregi niður til Rómar á Ítalíu. Þá er jafnframt markmið verkefnisins að auka framboð á rafknúnum vetnisbifreiðum og eru ýmsir bílaframleiðendur þátttakendur í verkefninu.

Íslensk nýOrka hefur rutt veginn í orkuskiptum síðustu ár og áratugi, m.a. með aðkomu sinni að verkefnum í tengslum við rafgeymabíla, metanbíla og tengiltvinnbíla. NýOrka átti frumkvæðið og hefur verið ómetanlegur stuðningur við það að koma þeim vetnisstöðvum sem nú verðar opnaðar á laggirnar. Jafnframt á NýOrka heiðurinn af þeim áhuga erlendra bifreiðaframleiðenda, sem óneitanlega hefur kviknað, á Íslandi sem markaði fyrir vetnisknúna rafbíla.

Vetni hvarvetna í framrás

Eins og áður segir grundvallast hið samevrópska verkefni, sem vetnisstöðvarnar byggja á, á sýn Evrópuleiðtoga þess efnis að vetnið sé mikilvæg lausn við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Þessi sýn er þó ekki takmörkuð við Evrópu, því vetnisstöðvar eru jafnframt í örri uppbyggingu víðs vegar um heiminn. Japanir stefna að því að gera samfélag sitt vetnisknúið og hafa þar tekið höndum saman stjórnvöld og japanskir bílaframleiðendur, svo sem Toyota, Honda og Nissan. Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hefur ávallt verið leiðandi þegar kemur að náttúruvernd en þar má nú þegar finna 35 vetnisstöðvar og aðrar 20 í byggingu. Þá hefur Kórea einnig áform um að reisa hundruðir vetnisstöðva fyrir árið 2030, auk þess sem nú þegar má finna vetnisstöðvar t.d. í Kína, Ástralíu, Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, á Indlandi og í Brasilíu, svo nokkur lönd séu nefnd.

Vetnisstöðin í Reykjavík var vígð af framkvæmdastjóra Íslenska vetnisfélagsins, Ingunni Agnesi Kro, sem hefur verkefnastýrt byggingu vetnisstöðvanna fyrir Orkuna, auk móður hennar og dóttur. Móðir Ingunnar, Valgerður Sverrisdóttir, vígði þá vetnisstöð sem stóð á sama stað fyrir 17 árum síðan og var þá fyrsta vetnisstöðin í heiminum sem var aðgengileg almenningi. Dóttur Ingunnar, Ylfu Hjaltadóttur, finnst gaman í sundi.

Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar

„Orkuskipti eru ekki skyndilausnir. Það kenndi hitaveituvæðingin okkur á sínum tíma. Henni varð ekki lokið fyrr en stigið var yfir ýmsa þröskulda bæði í þekkingu og tækni. Á bak við bjó samt alltaf hinn eindregni ásetningur um að nýta náttúrugæði landsins fólki til hagsbóta og heilla. Það liðu rúmir tveir áratugir frá því fyrsta húsið í Mosfellssveit fékk hitaveitu þar til skipulögð lagning hennar hófst í Reykjavík. Nú eru tæpir tveir áratugir frá því við vorum hér við Vesturlandsveginn að fagna opnun fyrstu vetnisstöðvarinnar hér á landi fyrir almenning. Hún er ekki ein lengur því önnur verður suður með sjó og sú þriðja á leiðinni.

Ég held að á engan sé hallað að þakka sérstaklega Jóni Birni Skúlasyni hjá Íslenskri nýorku fyrir áratuga seiglu og að halda merkjum vetnis á lofti sem hollum og góðum aflgjafa framfara í umhverfis- og samgöngumálum okkar Íslendinga.“

Orkan og ON Vetnisstöd
Bjarni Már Júlíusson og Úlfar Steindórsson

Lón á svörtum sandi fékk fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um varmaorku

Hugmyndin „Black Beach Lagoon“ (Lón á svörtum sandi) eftir Martein Möller og Reynar Ottósson, fékk fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um nýtingu varmaorku á Suðurlandi. Það voru Orka náttúrunnar, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem stóðu að hugmyndasamkeppninni. Úrslitin voru kunngerð nýlega við hátíðlega athöfn í Garðyrkjuskólanum í Ölfusi og kom það í hlut Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, ráðherra atvinnu-, nýsköpunar- og ferðamála að afhenda verðlaunin.

Úrslitin voru kunngerð nýlega við hátíðlega athöfn í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði og kom það í hlut Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, ráðherra atvinnu- og nýsköpunarmála að afhenda verðlaunin.

Tilgangur samkeppninnar var að fá fram hugmyndir um nýtingu varmaorku sem finnst víða á Suðurlandi og býður upp á fleiri tækifæri en nýtt eru í dag. Markmiðið er að nýta betur verðmætin sem eru í orkunni, auka fjölbreytni í atvinnulífi með umhverfismál að leiðarljósi og vinna að nýsköpun í orkutengdri starfsemi.

Verðlaunahugmyndin

Verðlaunahugmyndin snýst um að byggja upp ferðamannalón með heitu vatni í svörtum fjörusandinum við Þorlákshöfn. Í umsögn dómnefndar um Black Beach Lagoon segir: „Um er að ræða aðdráttarafl fyrir ferðamenn með samspili sjávar, fjöru og jarðhita í umhverfi þar sem myrkur, norðurljós og íslensk náttúra njóta sín. Auk þess býður tillagan upp á vaxtartækifæri með frekari tengingu við heilsueflingu, vellíðan og íþrótta- og útivistarfólk. Tillagan er vel unnin og samnýtir á áhugaverðan hátt staðbundnar auðlindir. Tillagan er hvorutveggja í senn frumleg og raunhæf. Gert er ráð fyrir stóraukinni jarðvarmanýtni og minni sóun.“

Dómnefnd hefur ákveðið að veita vinningstillögunni verðlaun að fjárhæð 1.500.000 kr. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun auk þess veita höfundum tillögunnar aðstoð við frekari þróun viðskiptahugmyndarinnar. Orka náttúrunnar mun einnig bjóða höfundum vinningstillögunnar upp á ráðgjöf frá sérfræðingum Veitna sem er systurfyrirtæki Orku náttúrunnar.

Grunnskólanemar á Hellu fengu sérstök verðlaun

Tillaga frá nemendum 9. bekkjar grunnskólans á Hellu vakti sérstaka athygli dómnefndar. Þeir lögðu til að brennisteinsvetni sem kemur upp með heitri gufu á jarðhitasvæðum verði nýtt til að framleiða brennistein. Um leið myndi magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti minnka.

Þrjár aðrar tillögur fengu sérstök verðlaun 

Jarðorkueldavélar eftir Ólaf Inga Reynisson 

Tillagan er áhugavert innlegg í nýtingu jarðvarma þar sem hveraorka er nýtt í margs konar matargerð. Um er að ræða frumlega, raunhæfa og óhefðbundna aðferð við að framleiða og elda matvæli. Tillagan gefur ferðamanninum innsýn í fjölbreytta notkunarmöguleika jarðvarma með sérstöðu íslenskrar náttúru er í aðalhlutverki.

Lág gróðurhús og ræktun nýrra tegunda eftir Hafstein Helgason og Eflu verkfræðistofu

Tillagan felur í sér nýbreytni í ræktun afurða þar sem sérhæfð gróðurhús nýrrar gerðar nýta lághita jarðvarma. Um er að ræða sveigjanlega og heildstæða tillögu sem getur dregið úr innflutningi matvæla og býður upp á vinnslu sérhæfðra afurða. Gera má ráð fyrir aukinni fjölbreytni í atvinnulífi og jákvæðum samfélagslegum áhrifum.

Hampræktun eftir Hinrik Jóhannesson

Í umsögn dómnefndar segir: „Tillagan er frumleg og gerir ráð fyrir nýstárlegri nýtingu gróðurhúsa til ræktunar á hampi með fjölbreytta notkunarmöguleika á áframvinnslu s.s. í matvæli, eldsneyti og ýmsan iðnað. Tillagan er heildstæð, býður upp á þverfaglega starfsemi og möguleika á fjölbreyttari atvinnustarfsemi með samfélagslegum ávinningi.

Verðlaunafhending í hugmyndasamkeppni um varmaorku

Fyrsta hlaðan á Snæfellsnesi opnuð

Það var Sandarinn Þröstur Kristófersson sem fékk sér fyrstu hleðsluna úr nýrri hraðhleðslu ON í Ólafsvík. Hlaðan stendur við þjónustustöð Orkunnar og er fyrsta hlaða ON á Snæfellsnesi og fyrsta hraðhleðslan á Nesinu.

Þröstur býr á Hellissandi og sækir vinnu til Ólafsvíkur. Hann er nýbúinn að fá sér tengiltvinnbíl og á von á því að geta nú ferðast til vinnu og frá á rafmagninu einu með öllum þeim sparnaði sem því fylgir, fyrir budduna og umhverfið. Það eru um 10 kílómetrar á milli byggðakjarnanna.

Viðstödd þegar Þröstur tók þessa 35. hlöðu ON í notkun voru þau Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaða ON, og Þórður Tryggvi Stefánsson, sem rekur Orkustöðina í Ólafsvík.

Ísafjörður og Húsavík í sigtinu

ON hefur varðað hringveginn hlöðum með hraðhleðslum og nú er unnið að því að víkka út net þessara mikilvægu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum. Á dögunum var hlaða opnuð á Sauðárkróki, á Ólafsvík í dag og næstu hlöður verða á Ísafirði og á Húsavík. Samhliða er unnið að því að þétta netið á Höfuðborgarsvæðinu.

1.200 rafbílar nýskráðir frá áramótum

Nýskráningum rafmagnsbíla það sem af er árinu 2018 hefur fjölgað um meira en helming frá sama tímabili 2017. Samkvæmt upplýsingum á vef Orkuseturs var 781 rafbíll tekinn á skrá fimm fyrstu mánuði 2017. Frá byrjun árs 2018 eru þeir hinsvegar orðnir 1.200. Fjölgunin er 54%.

Þröstur og Áslaug Thelma
Áslaug Thelma og Þórður Tryggvi
Hraðhleðsla

Ólafsvík

Pages