Hafa samband Netspjall

Frábær frammistaða hjá hjólagörpum ON!

Hjólalið ON lauk keppni í dag í 8. sæti af 40 liðum (í sínum flokki) í hjólakeppni WOW.

Okkar fólk fór hringinn í kringum landið á 42. klst. og 12 mínútum. Alls hafði liðið safnað 265.000 kr. í áheitum þegar komið var í mark. Hægt er að heita á ON Bike Team hér og rennur upphæðin sem safnast óskert til Bæklunardeildar Landspítalans.

Við óskum hjólagörpunum okkar til hamingju með þennan glæsilega árangur!

Generic Image
Feykiöflug hjólasveit ON-ara

Hraðhleðsla fyrir rafbíla komin í Garðabæ

Ökumenn rafbíla geta nú sótt sér áfyllingu á bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við IKEA í Garðabæ.

Þetta er sjötta stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung við Miklubraut og á Fitjum í Reykjanesbæ.

Umhverfisáherslur IKEA

IKEA tekur verndun umhverfis og náttúru alvarlega. Fyrirtækið vill því taka þátt í þeirri nauðsynlegu þróun að jarðarbúar temji sér sjálfbærari lífsvenjur. Það er gert með mörgum samfelldum skrefum. Hleðslustöðin er eitt þeirra skrefa sem stíga þarf til framtíðar. Hún er öllum gestum IKEA gjaldfrjáls og vonast er til að hún nýtist gestum vel.

Tíu nýir rafbílar á mánuði

Frá áramótum hafa í hverjum mánuði bæst tíu rafbílar að jafnaði við bílaflota Íslendinga. Fjölbreytni í framboði rafbíla hefur líka aukist verulega síðustu mánuði. Hjá nágrönnum okkar Norðmönnum er fjöldi rafbílategunda á markaði nú kominn í 21 gerð. Svipuð þróun er hér á landi.

Rekstur rafbíla sparar bæði peninga og útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél þar sem hægt er að bera saman orkukostnað rafbíla og annarra og hversu miklu minni útblástur gróðurhúsalofttegunda er við akstur þeirra en hefðbundinna bifreiða.

Flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima við eða á vinnustað. Til að stuðla að öruggum frágangi hleðslubúnaðar hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir.

Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur. Þetta er tilraunaverkefni til tveggja ára og á meðan tilrauninni stendur verður hleðslan á stöðvunum gjaldfrjáls.

Hraðhleðslustöðin í Garðabæ
Frá vinstri: Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON, Guðný Camilla Aradóttir, markaðsfulltrúi og ábyrgðarmaður umhverfismála hjá IKEA, og Kristín Lind Steingrímsdóttir, markaðsstjóri IKEA.

Fimmta hraðhleðslustöðin opnuð við Shell á Miklubraut

Eigendur rafbíla geta nú sótt sér áfyllingu á bíla sína nærri hlaðhleðslustöð Orku náttúrunnar (ON) við Miklubraut.

Stöðin er opnuð í samstarfi við Skeljung. Rafbílaeigendur geta nýtt tímann vel á meðan á áfyllingu stendur því ný 10-11 verslun er á staðnum en líka er hægt að tengjast þráðlausu neti ókeypis og sinna sínum rafrænu erindum á meðan fyllt er á bílinn. Þetta verkefni ON er tilraunaverkefni til tveggja ára.

Þetta er fimmta stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind og ein stöð staðsett á Fitjum í Reykjanesbæ.

Starfsmaður mánaðarins opnar stöðina

Starfsmaður mánaðarins hjá Skeljungi, Guðmundur Benjamín Jóhannesson, starfsmaður á Shell-stöðinni Birkimel opnaði stöðina en starfsmaður mánaðarins hverju sinni fær afnot af rafbíl fyrirtækisins í einn mánuð. Þetta er annars vegar hugsað sem umbun fyrir góða frammistöðu í starfi og hins vegar sem kynning á grænum valkostum til samgangna á landi. Valgeir Baldursson, nýráðinn forstjóri Skeljungs, segir að fyrirtækinu sé sönn ánægja að taka þátt í því að auka aðgengi að grænni orku.

 

Margt jákvætt við rafbílavæðingu

ON leggur mikla áherslu á að styðja við rafbílavæðingu á Íslandi en sala á rafbílum hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Raforka er ódýrari hér á landi en víðast annarsstaðar og enginn mengandi útblástur kemur frá þeim bílum sem ganga alfarið fyrir rafmagni. Sífellt fleiri bílaframleiðendur leggja áherslu á að bjóða rafbíla og sífellt fleiri aðilar leggjast á þessa sveif. Þannig hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir.

 

Generic Image
Valgeir Baldursson forstjóri Skeljungs, Guðmundur Benjamín Jóhannesson starfsmaður mánaðarins og Ásdís Gíslason markaðsstjóri ON við opnun á nýrri hraðhleðslustöð við Miklubraut.

Ný hraðhleðslustöð á Fitjum

Eigendur rafbíla geta nú sótt sér „áfyllingu“ á nýrri hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar (ON) á Fitjum í Reykjanesbæ.

Þetta er fjórða stöð sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu, sem ON opnar síðan í mars. Fyrir er ein við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, önnur hjá BL að Sævarhöfða og sú þriðja við Smáralind. Gísli Böðvarsson, sölustjóri Tryggingamiðlunar Íslands opnaði stöðina í Fitjum. Hann býr í Njarðvík og starfar í Kópavogi. „Ég ek rafbíl daglega á milli heimilis og vinnustaðar og svo í vinnunni. Af reynslunni verður einungis dregin sú ályktun að hvetja beri alla sem geta til að eignast rafbíla! Þeir kosta vissulega talsvert í innkaupi en rekstrarkostnaður er hins vegar hlægilega lítill miðað við bensín- eða dísilbíla. Svo er einfaldlega ofboðslega gott og gaman að keyra rafbíl! Margir halda að rafbíll sé kraftlítill en það er nú aldeilis ekki svo. Hann er afar kröftugur, snar og þýður,“ segir Gísli.

Generic Image
Gísli Böðvarsson búinn að fylla á bílinn. Með honum á mynd eru Kristjana Ósk Jónsdóttir (til vinstri), markaðs- og kynningarstjóri Reita og Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON

Ný hraðhleðslustöð við Smáralind

Eigendur rafbíla geta nú sótt sér "áfyllingu" á nýrri hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar við verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi.

Þetta er þriðja stöð sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu en fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1 og hjá BL að Sævarhöfða.

Tíu stöðvar

Á næstu dögum og vikum verða sjö stöðvar til viðbótar teknar í gagnið á suðvesturhorninu, Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi. Einungis tekur 20-30 mínútur að hlaða geyma rafbílanna upp í 80%.

Generic Image
Friðbert Elí rafbílaeigandi (til vinstri) opnaði stöðina að viðstöddum Kristni Jóhannessyni, rekstrarstjóra Smáralindar og Ásdísi Gíslason markaðsstjóra ON.

Fyrsta hraðhleðslustöðin í samband!

Kristbjörg Magnúsdóttir ljósmóðir, sem sinnir heimaþjónustu á rafbíl, var fyrst til að fá hleðslu á hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar sem opnuð var í dag.

Stöðin er við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1 og er sú fyrsta af tíu sem komið verður upp á næstu mánuðum víðsvegar um sunnan- og vestanvert landið. Átak Orku náttúrunnar, sem er í samstarfi við B&L og Nissan í Evrópu, er  mikilvægt skref í rafbílavæðingunni þar sem innviðir hennar eru styrktir.

Við staðsetningu hraðhleðslustöðvanna var þetta lagt til grundvallar:

  • Að þær myndu auka vegalengdina sem hægt er að ferðast á rafbílum frá þeim landshluta þar sem flestir eru, þ.e. höfuðborgarsvæðinu.
  • Að þær lægju vel við dreifikerfi rafmagns, en þær þurfa meira afl en heimilisrafmagnið.
  • Að bíleigandinn hefði eitthvað við að vera þann hálftíma sem tekur að hlaða.

Stöðvarnar verða því vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og í allt að 80 kílómetra fjarlægð frá miðborginni í allar áttir. Auk B&L og Nissan í Evrópu eru samstarfsaðilar Orku náttúrunnar í þessu verkefni Smáralind, Skeljungur, IKEA, Reitir, Olís og N1.

25.000 rafbílar í Noregi

Ole Henrik HannisdahlÍ tilefni af opnun hraðhleðslustöðvarinnar efndi Orka náttúrunnar til málþingsins Í samband við náttúruna. Norðmaðurinn Ole Henrik Hannisdahl hélt þar lykilerindi en hann er verkefnisstjóri Grønn Bil. Markmið þess verkefnis er að árið 2020 verði komnir 200 þúsund rafbílar á norskar götur. Nú eru þeir um 25.000 og standa Norðmenn öllum öðrum þjóðum framar á þessu sviði. Ole rakti árangur Norðmanna í rafbílavæðingunni og gerði m.a. samanburð á rekstri rafbíls og bensínbíls í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Glærur -  Í samband við náttúruna - Ole Henrik

Tækifærin á Íslandi

Á málþinginu gerði Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, grein fyrir tækifærum sem í rafbílavæðingunni felast og kynnti framlag fyrirtækisins til rafbílavæðingar. Páll ræddi einnig um mikilvægi þess að hraðhleðslustöðvarnar séu staðsettar þar sem rafbílaeigendur eru flestir og í nálægð við verslun og þjónustu.

Glærur -  Í samband við náttúruna - Páll Erland

Páll og Ole, ásamt Jóni Birni Skúlasyni, framkvæmdastjóra Íslenskrar nýorku, sátu í pallborðsumræðum eftir kynningar.

Generic Image
Frá vinstri: Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON, Kristbjörg Magnúsdóttir, og Páll Erland, framkvæmdastjóri ON

Nýr forstöðumaður auðlinda

Marta Rós Karlsdóttir hefur hafið störf sem forstöðumaður auðlinda hjá ON.

Marta Rós Karlsdóttir hefur hafið störf sem forstöðumaður auðlinda hjá Orku náttúrunnar.  Hún er með MS próf í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands með áherslu á nýtingu jarðvarma og stefnir á að ljúka PhD í vélaverkfræði í haust.

Marta hefur lengi verið í tengslum við Orkuveitu Reykjavíkur (OR) bæði sem starfsmaður og við rannsóknarvinnu.  Hún tók meðal annars þátt í innleiðingu Umhverfisstjórnunarstaðalsins ISO 14001 hjá OR og vann að umhverfisskýrslu OR árin 2004-2006.  

Síðustu ár hefur Marta sinnt doktorsrannsókn og verið stundarkennari við HÍ, fyrirlesari hjá Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og leiðbeinandi hjá REYST (Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems).

Generic Image
Marta Rós Karlsdóttir nýr forstöðumaður auðlinda hjá ON

Ríkiskaup semja um raforku

Rammasamningur milli Ríkiskaupa og Orku náttúrunnar um raforkukaup ríkisstofnana var undirritaður 29. janúar sl.

Rammasamningur Ríkiskaupa og Orku náttúrunnar um raforkukaup ríkisstofnana var undirritaður 29. janúar sl. Samningurinn nær til allra stofnana ríkisins á landinu og gildir í 2 ár með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum til eins árs í senn.  Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri ON og Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa undirrituðu samninginn.

Generic Image
Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri ON og Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa undirrituðu samninginn

Pages