Hafa samband Netspjall

🍂 Hvað eru kolefnisspor?

Kolefnisspor vöru og þjónustu segja okkur hversu mikill útblástur gróðurhúsalofttegunda fylgir framleiðslu og notkun þeirra. Því minna sem kolefnissporið er, því minni áhrif hefur varan eða þjónustan á loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar.

Kynntu þér málið

🔌 Ferðumst á orku náttúrunnar

Orka náttúrunnar rekur alls 36 hlöður á Íslandi fyrir rafbíla.

Þú átt þína eigin umhverfisvænu orkustöð heima hjá þér þar sem þú lagar þitt kaffi og gerir þína uppáhalds samloku, já eða leggur þig á meðan bíllinn hleður sig með orku náttúrunnar. Nú getur þú einnig kíkt í hlöður ON og hlaðið rafbílinn á 20-30 mínútum. Einfalt og umhverfisvænt!

Kynntu þér málið

Reiknivél

Hvað fer mikil orka í að halda mjólkinni kaldri? Reiknivélin okkar leiðir þig í sannleikann um rafmagnsnotkun heimilisins.

Þurrkari er þarfaþing og til á flestum heimilum, vissir þú að ef þú setur 8 sinnum í viku í þurrkarann kostar það rúmar 10 þúsund krónur á ári. Er ekki kominn tími á að taka fram þvottagrindina og hengja upp það allra heilagasta?

Fara í reiknivél

📰

Fréttir

 • Mosi
  Breytingar á skipan stjórna tveggja dótturfélaga OR

  Á hluthafafundum nú á dögunum voru gerðar breytingar á stjórnum tveggja dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur. Í stjórn Orku náttúrunnar taka sæti Elísabet Hjaltadóttir markaðsfræðingur og Jakob S. Friðriksson verkfræðingur. Í stjórn Gagnaveitu Reykjavíkur taka sæti þau Birna Bragadóttir stjórnendaráðgjafi og Pálmi Símonarson verkfræðingur.

  Lesa meira
 • Sumarstarfsfólk.
  Viltu vera ON í sumar?

  Við leitum að jákvæðum og framtakssömum háskólanemum, iðnnemum, nemum í framhaldsskóla og skapandi greinum í fjölbreytt sumarstörf á orkumiklum og skemmtilegum vinnustað.

  Lesa meira

Lofthreinsistöð orðinn hluti hefðbundins reksturs

Fimmtudaginn 30. október lauk formlega byggingu lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun þegar Guðmundur Hagalín Guðmundsson, rekstrarstjóri virkjana Orku náttúrunnar, tók við umsjón og rekstri stöðvarinnar.

Tilraunarekstur lofthreinsistöðvarinnar hófst í vor og þar með niðurdæling brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun. Unnið hefur verið að ýmissi aðlögun hennar að virkjuninni síðan en stöðin er þróunar- og tilraunaverkefni byggt á vísindarannsóknum við Hellisheiðarvirkjun allt frá árinu 2007. Gert er ráð fyrir að stöðin hreinsi allt að þriðjung brennisteinsvetnis í útblæstri virkjunarinnar og þar með minnka líkur á því að styrkur þess í andrúmslofti fari yfir mörk í byggð. Að þessu tilefni fór fram stutt athöfn í Hellisheiðarvirkjun þar sem virkni stöðvarinnar var kynnt. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, flutti stutt ávarp og Bjarni Már Júlíusson, forstöðumaður tækniþróunar hjá ON og verkefnisstjóri brennisteinsverkefna, afhenti stöðina til reksturs.

Binding koltvísýrings staðfest

Í hreinsistöðinni eru brennisteinsvetni og koltvísýringur skilin frá jarðhitagasinu. Lofttegundirnar eru leystar upp í vatni frá virkjuninni og dælt niður á um 1.000 metra dýpi. Nýlegar rannsóknir á borkjörnum úr berggrunninum á niðurrennslissvæði CarbFix verkefnisins gefa sterklega til kynna að kenningar vísindamanna standist; að koltvísýringurinn kristallist í basalthraununum og þar með sé þessi helsta gróðurhúsalofttegund bundin í jarðlögum um fyrirsjáanlega framtíð. Rannsóknir sýna að 85-90% koltvísýringsins bindist með þessum hætti innan árs frá niðurdælingu. Tilraunir, sem vísindafólk hér á landi og erlendis hefur unnið að síðustu ár, gefa líka til kynna að brennisteinsvetnið bindist berggrunninum sem steintegundin brennisteinskís eða glópagull. Rannsóknarverkefnin eru þekkt undir heitunum CarbFix og SulFix. Samkvæmt útreikningum hefur um 1.000 tonnum af brennisteinsvetni verið veitt niður í jarðlög frá því rekstur hennar hófst. Samkvæmt þeirri verkefnisáætlun, sem unnið er eftir, er reiknað með að reka stöðina í eitt ár áður en metið er hvort þessi nýja aðferð ber tilsettan árangur. Gufuháfur Samhliða niðurdælingunni er nú til skoðunar að reisa gufuháf ofan við virkjunina. Rannsóknir á veðurfari við virkjunina benda til að með honum megi tryggja aukna dreifingu útblásturs og draga þar með úr styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Í umfangsmikilli verkefnisáætlun, sem kynnt var í febrúar 2013, kemur fram að samhliða niðurdælingu muni fyrirtækið skoða aðrar lausnir. Háfurinn er ein þeirra. Aðrar leiðir eru áfram til skoðunar.

Generic Image
Lofthreinsistöðin við Hellisheiðarvirkjun

Orka náttúrunnar nú fáanleg úr íslensku roki

ON og Biokraft hafa gert með sér samstarfssamning um kaup Orku náttúrunnar á rafmagni frá fyrirtækinu.

Orka náttúrunnar selur nú fólki og fyrirtækjum raforku sem framleidd er í tveimur vindmyllum fyrirtækisins Biokraft, sem risnar eru í Þykkvabæ. Framleiðslan á að geta fullnægt raforkuþörf um þúsund heimila. Biokraft áformar að reisa fleiri myllur á næstu árum.

Hvað eru vind- og sólarorka? - vísindavefurinn
Biokraft - facebook síða

Þykkvibærinn afar hentugur

Eigendur Biokraft eru Snorri Sturluson og Steingrímur Erlingsson. Þeir hyggja á frekari orkuframleiðslu. „Við hyggjumst setja upp fleiri vindmyllur og erum að skoða virkjunarkosti. Allt Suðurlandið er undir í okkar áformum, en við vitum að Þykkvabæjarsvæðið er mjög gott og heimamenn jákvæðir, þannig að við byrjum þar.“ Veðurfarslega þykir Þykkvibærinn hentugur fyrir vindmyllur; landið flatt, langt í næstu fjöll, mikil nálægð við sjó og vindur jafn.

Eigendur Biokraft eru báðir vélstjórar og hafa langa reynslu af raforkuframleiðslu í skipum. „Við kynntumst virkjun vindorkunnar í Danmörku og fannst að fyrst hún gæti gengið þar, þá hlyti hún að ganga hér, þar sem alltaf er rok.“
Reynsla af nýtingu roksins

Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir ánægjulegt skref nú stigið. Þá sé það mikilvægt að þegar samið var um orkukaupin af Biokraft var einnig samið um aðgang Orku náttúrunnar að upplýsingum um verkefnið, byggingar- og rekstrarkostnað og vinnslusögu. „Það er mjög gott að fá þetta tækifæri til að fá kynnast nýtingu vindsins og það hentar Orku náttúrunnar vel að gera þetta í samstarfi við aðila eins og Biokraft,“ segir Páll.

Generic Image
Frá vinstri: Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, Snorri Sturluson og Steingrímur Erlingsson, eigendur Biokraft.

Lagning Hverahlíðarlagnar hefst á næstu vikum

Lagning gufulagnar sem tengir jarðhitasvæðið í Hverahlíð á Hellisheiði við Hellisheiðarvirkjun hefst á næstu vikum.

Tilboð í lagningu gufulagnar, sem verður um 5 kílómetra löng, hafa verið opnuð og hljóðaði lægsta tilboð upp á tæpa 2,5 milljarða króna. Leyfi fyrir framkvæmdinni liggja fyrir. Leið lagnarinnar var valin með tilliti til þess að hún yrði sem minnst sýnileg frá þjóðveginum og sem minnst rask yrði. Þá var lagt kapp á að svæðið geti nýst áfram til útivistar. Þannig verður hægt að komast yfir nýju lögnina á fimm stöðum. Skiltum með upplýsingum um hvar hægt verður að komast yfir lögnina ásamt merktum gönguleiðum á svæðinu verður komið fyrir á völdum stöðum, til dæmis á bílastæði við Hellisheiðarvirkjun, á bílastæði við gatnamót Suðurlandsvegar og Gígahnúksvegar og á áningarstað sem Orka náttúrunnar fyrirhugar að koma upp á móts við Gígahnúk.

Unnið á sama tíma og breikkun Suðurlandsvegar

Taka á lögnina í notkun í árslok 2015 og á fullnaðarfrágangi að ljúka á árinu 2016. Framkvæmdir verða því að nokkru leyti samhliða framkvæmdum Vegagerðarinnar við breikkun Suðurlandsvegar á Hellisheiðinni, sem hófust nú í ár. Nú er Vegagerðin að gera undirgöng undir Suðurlandsveginn fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi og samhliða mun Vegagerðin leggja steyptan stokk undir veginn fyrir gufulögnina.

Þrívíddarlíkan af Hverahlíðarlögn

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá þrívíddarlíkan sem gert var af lögninni til að nota við hönnun hennar svo draga mætti úr sýnileika lagnarinnar. Í myndbandinu sjást einnig mannvirki við Hverahlíð.

Hagkvæmasta og öruggasta leiðin til að afla gufu

Greint var frá því í júní í fyrra að efla þyrfti gufuöflun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í Hellisheiðarvirkjun. Afráðið var að nýta borholur, sem þegar höfðu verið boraðar við Hverahlíð, frekar en að bora nýjar nær virkjuninni. Þar væri ekki á vísan að róa og skynsamlegra að nýta þá fjárfestingu sem fyrir var. Borholurnar undir Hverahlíð voru boraðar á árunum 2007 og 2008 og virðast öflugar. Hellisheiðarvirkjun var fullbyggð árið 2011. Það er kostur að gufan í Hverahlíð er þurrari en á núverandi vinnslusvæði og dregur það úr þörf á niðurrennsli vinnsluvatns. Tengingin hefur engin áhrif á útblástur frá virkjuninni þar sem ekki er verið að auka afköst hennar. Stjórn Orkuveitunnar ákvað síðasta haust að ráðast í verkið, að undangenginni umræðu í sveitarstjórnum eigenda. Skipulagsvinnu vegna tengingarinnar er lokið. Orka náttúrunnar, sem tók við virkjanarekstri og raforkusölu OR um síðustu áramót, bauð verkið út í vor. Það felur í sér lagningu gufu- og skiljuvatnslagna um fimm kílómetra leið á milli Hverahlíðar og Hellisheiðarvirkjunar, lagningu raf- og stýristrengja sömu leið auk byggingar skiljustöðvar.

Generic Image
Hverahlíð

Fyrsta hraðhleðslustöðin á Suðurlandi opnuð

Ökumenn rafbíla geta nú hlaðið bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við Olís á Selfossi.

Þetta er áttunda stöðin af tíu sem ON mun halda úti á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við IKEA í Garðabæ og í Borgarnesi.

Rafmagnsbíll er raunhæfur kostur

Guðmundur Ármann, framkvæmdastjóri Sólheima, sá um að opna stöðina á Selfossi. Hann hefur átt rafmagnsbíl í tæpt ár. Hraðhleðslustöðvarnar gera honum kleift að komast allra ferða sinna án nokkurra vandkvæða og telur hann þær lykilþátt í að hraða rafbílavæðingu á Íslandi. Með tilliti til umhverfissjónarmiða og fjárhagslegs sparnaðar séu rafbílar það eina rétta fyrir íslenskt framtíðarsamfélag.

Tíu nýir rafbílar á mánuði

Frá áramótum hafa tíu rafbílar bæst við bílaflota Íslendinga mánaðarlega. Fjölbreytt framboð rafbíla hefur aukist verulega síðustu mánuði. Hjá Norðmönnum er nú 21 rafbílategund á markaði. Þróunin er svipuð hér á landi. Rekstur rafbíla sparar peninga og minnkar útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél sem ber orkukostnað rafbíla saman við orkukostnað annarra bifreiða. Reiknivélin segir jafnframt til um hverju munar í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima hjá sér eða á vinnustað sínum. Til að stuðla að öruggum frágangi hleðslubúnaðar hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

Generic Image
Frá vinstri: Guðmundur Ármann, rafbílaeigandi, Sigurður K. Pálsson, markaðsstjóri Olís, Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON, Jón Halldórsson, forstjóri Olís og Brynjar Stefánsson, forstöðumaður Sölu- og markaðsmála ON.

Fjölbreytt og falleg náttúra í ljósmyndasamkeppni ON

Hátt í 100 ljósmyndir bárust í ljósmyndasamkeppni Orku náttúrunnar sem lauk í síðustu viku.

Þema keppninnar var „orka náttúrunnar“ og túlkuðu þátttakendur það á margvíslegan og skemmtilegan máta.

Verðlaun fyrir bestu myndina að mati dómnefndar hlaut Arnar Sigurbjörnsson fyrir mynd sína af Klifbrekkufossum í Mjóafirði. Þá fékk Þórey Guðný Marinósdóttir verðlaun fyrir myndina sem fékk flest „like“ á facebook.

Við þökkum þeim sem tóku þátt og hvetjum alla til þess að taka ljósmyndir af okkar fallegu og kraftmiklu náttúru!

Generic Image
Klifbrekkufossar í Mjóafirði

Viljayfirlýsing um orkusölu til sólarkísilvers

Fulltrúar Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur og Silicor Materials hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á raforku til fyrirhugaðs sólarkísilvers.

Viljayfirlýsing um orkusölu til sólarkísilvers

Fulltrúar Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur og Silicor Materials hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á raforku til fyrirhugaðs sólarkísilvers bandaríska fyrirtækisins hér á landi. Yfirlýsingin nær til 35 megavatta rafafls. Afhending þess hefst árið 2016. Engin áform um byggingu nýrra virkjana fylgja samkomulaginu. Á næstu misserum renna út samningar um orkusölu til Landsvirkjunar sem Orkuveita Reykjavíkur gerði á árunum 1997 og 2000. Með viljayfirlýsingunni er áformað að ráðstafa þeirri orku til sólarkísilversins. Leiði viljayfirlýsingin til samnings hækkar það verð sem Orka náttúrunnar fær fyrir rafmagnið.

Umhverfisvæn framleiðsla

Sólarkísilframleiðsla þarf mikið rafmagn og er umhverfisvæn. Þannig þarf fyrirhuguð verksmiðja ekki að gangast undir mat á umhverfisáhrifum að mati Umhverfisstofnunar. Silicor Materials áformar að framleiða 16 þúsund tonn af sólarkísil á ári. Afurðin er meðal annars notuð til að framleiða rafala til rafmagnsvinnslu úr sólarljósi. Fyrirhuguð fjárfesting fyrirtækisins nemur um 77 milljörðum króna og gert er ráð fyrir að við hana skapist um 400 störf.

Sölusamningur að renna út

Orka náttúrunnar tók við virkjunum og raforkusölu Orkuveitu Reykjavíkur við stofnun fyrirtækisins um áramótin. Samningar sem Orkuveita Reykjavíkur gerði við Landsvirkjun um orkusölu frá Nesjavallavirkjun renna út í áföngum á næstu misserum. Með viljayfirlýsingunni vill Orka náttúrunnar tryggja sölu þeirrar orku sem þá losnar. Verði af samningum mun fyrirtækið fá hærra verð fyrir orkuna og draga úr áhættu með því að flutningskostnaður verður ekki hluti orkuverðsins í þeim samningi sem aðilar stefna að.

Generic Image
Hellisheiðarvirkjun upplýst

Pages